Lýðræði í skólastarfi

Nú eiga að vera komin í framkvæmd ný menntalög sem tóku gildi árið 2008. Í þeim er kveðið á um töluverða aukningu á aðkomu foreldra og nemenda að skólastarfi, þar sem lýðræðisleg vinnubrögð allra í skólasamfélaginu eru grundvöllur þess að vel takist til. Það er ekki tilviljun ein að foreldrar og nemendur eru kallaðir að borðinu. Rannsóknir sýna að ávinningur slíks samstarfs og öflugrar foreldrasamvinnu er aukin velferð nemenda sem lýsir sér m.a. í betri námsárangri og betri líðan barna.
Í lögum um grunnskóla er kveðið á um að skólaráð skuli starfa við alla skóla og í reglugerð um skólaráð er fjallað um með hvaða hætti skuli skipað í skólaráðin. Í skólaráði eiga að sitja 2 fulltrúar nemenda, 2 fulltrúar foreldra, 2 fulltrúar kennara, skólastjórnendur og einn fulltrúi grenndarsamfélagsins. Setja skal fundargerðir skólaráða á heimasíður skólanna þannig að þær séu aðgengilegar öllum þeim sem áhuga hafa á skólastarfinu eða grenndarsamfélaginu
Skólaskrifstofu Hafnarfjarðar og fræðsluráði Hafnarfjarðar ber að tryggja framfylgd þessara laga í Hafnarfirði og hafa eftirlit með framkvæmd þeirra. Lögin kveða á um að fulltrúar foreldra í skólaráðum séu kosnir á aðalfundum hvers skóla fyrir sig, fulltrúar kennara á aðalfundi kennarafélagsins og fulltrúar nemenda á aðalfundi nemendafélagsins.
Það er alveg nýtt að nemendur fái svona ábyrgðarmikla aðkomu að ákvarðanatöku hvað varðar þeirra nánasta umhverfi. Þetta nýja tækifæri nemenda er hins vegar til lítils ef þau fá litla eða enga fræðslu um það hvernig þau eiga að bera sig að í slíku umhverfi. Þau þurfa að fá fræðslu um það út á hvað skólaráðið gengur, hvernig mál komast á dagskrá skólaráðs og hvernig þau eiga að flytja sín mál þar.
Á aðalfundum foreldrafélaga á að kjósa fulltrúa í skólaráð. Mjög mikilvægt er að fulltrúar foreldra hafi gott bakland og séu í sterkum tengslum við stjórnir foreldrafélaganna. Bakland foreldrafélaganna í Hafnarfirði er til og heitir Foreldraráð Hafnarfjarðar en það hefur verið nokkuð óvirkt undanfarin ár. Það er nauðsynlegt öllum þeim sem eiga að vera fulltrúar einhverra hópa að þeir þekki óskir þeirra sem þeir eru fulltrúar fyrir. Fulltrúi foreldra í skólanefnd Hafnarfjarðar er kosin á vettvangi Foreldraráðsins.
Hugmyndin í nýjum menntalögum um grenndarfulltrúa í skólaráði er mjög áhugaverð tilraun þar sem aðrir en foreldrar skólabarna geta haft áhrif á það sem fram fer í skólasamfélaginu. Lítið gagn getur þó verið í þessu fyrirkomulagi ef grenndarsamfélagið fær enga kynningu á þessum möguleika.
Í lögunum er einnig fjallað um að skólaráði beri einu sinni á ári að boða til skólaþings. Þar skal mótuð skólastefna næsta árs og kallað eftir hugmyndum úr öllu skólasamfélaginu.
Eftir ítrekaða eftirgrennslan hagsmunaaðila til Skólaskrifstofu Hafnarfjarðar um fyrirkomulag þessara mála í Hafnarfirði og ábyrgð á þeim erum við engu nær. Þar vísar hver á annan. Sömu sögu er að segja af Foreldraráði Hafnarfjarðar. Þetta þykir undirrituðum ekki bera mikinn vott um metnað í skólamálum Hafnarfjarðar og skorum á bæjaryfirvöld að láta málið til sín taka með því að sameina krafta, þekkingu og reynslu sem er í forvarnarmálum og foreldrasamvinnu í Hafnarfirði.

Sigurlaug Anna Jóhannsdóttir
Helga Vala Gunnarsdóttir
Jóhanna Fleckenstein

Greinin birtist í Fjarðarpóstinum í maí 2010


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband