Takk fyrir okkur


Undanfarnar vikur höfum við, undirrituð, verið á ferð um skóla bæjarins, ásamt öðrum úr fræðsluráði Hafnarfjarðar. Heimsóttir hafa verið allir leik- og grunnskólar í Hafnarfirði sem er liður í því að fræðsluráð kynni sig fyrir starfsfólki og nemendum skólanna, en er ekki síst til þess að ráðið fái að kynnast starfinu sem heyrir undir fræðslusvið frá fyrstu hendi.
Eftir allar þessar heimsóknir er okkur efst í huga þakklæti til þeirra sem tóku á móti okkur og ánægja með það frábæra starf sem fram fer í öllum skólum Hafnarfjarðar. Við höfum hitt starfsfólk og nemendur að störfum í dagsins önn og fengið innsýn inn í viðfangsefnin og aðstæður á hverjum stað. Undantekningarlaust fer mikið og metnaðarfullt starf fram í öllum skólum bæjarins en sérstaklega þykir okkur þó ánægjulegt að sjá hversu fjölbreytnin er mikil og mikið faglegt og vandað innra starf sem fer þar fram.

Á fræðsluráðsfundum eru teknar ákvarðanir sem varða þetta skólasamfélag allt og mikilvægt að fulltrúar í fræðsluráði séu í góðum tengslum við þá aðila sem samfélagið varðar. Gott samstarf er milli allra aðila í fræðsluráði og mikil þekking, reynsla og áhugi þar innanborðs. Vegna þeirra aðstæðna sem nú eru í samfélaginu er mikilvægt að allir sem sinna börnum og ungmennum séu enn betur á varðbergi en nokkru sinni fyrr. Við viljum því hvetja til samstarfs allra sem vettlingi geta valdið. Við munum ekki láta okkar eftir liggja.

Sigurlaug Anna Jóhannsdóttir
Kristinn Andersen
fulltrúar Sjálfstæðisflokks í fræðsluráði Hafnarfjarðar

greinin birtist í Fjarðarpóstinum í október 2010


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband