Framboð til stjórnlagaþings

Kæru Hafnfirðingar,
ég hef ákveðið að gefa kost á mér til setu á stjórnlagaþingi 2011. Menntun mín, þekking og reynsla, ásamt áhuga á stjórnarskránni og íslensku samfélagi liggur til grundvallar ákvörðun minni.
Ég er stjórnmálafræðingur að mennt og starfaði sem verkefnisstjóri lýðræðisrannsókna við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands árin 2008 -2010. B.A. ritgerð mín fjallar um almennar atkvæðagreiðslur og beint lýðræði. Meðal fyrri starfa minna eru: framkvæmdastjóri Heimila og skóla, innheimtufulltrúi Reykjavíkurborgar í Ráðhúsi Rvk. um 5 ára skeið og verkefnastjóri hjá Lífsj. Verslunarmanna.
Núna sinni ég m.a. norrænu þróunarverkefni fyrir hönd Heimila og skóla ásamt fulltrúa menntavísindasviðs H.Í. um námsþætti fyrir kennaranema um samstarf heimila og skóla. Ég sit í fræðsluráði Hafnarfjarðar og er varabæjarfulltrúi en áður hef ég setið í Íþrótta- og tómstundanefnd og stjórn starfsmennasjóðs starfsmannafélags Hafnarfjarðar á vettvangi stjórnmálanna í bænum.
Ég hef þá sýn að stjórnarskráin eigi að vera þær grundvallarreglur í íslensku samfélagi sem almenningur á Íslandi skilur og treystir. Íslendingar eru stoltir af þingræðishefð sinni en þá arfleifð þarf að varðveita og styrkja enn frekar í nýrri stjórnarskrá. Lýðræðið þarf að festa í sessi í stjórnarskránni og koma þarf fyrir ákvæðum um þjóðaratkvæðagreiðslur. Veita þarf minnihlutanum á þingi stjórnskipuleg völd og endurreisa traust á Alþingi. Mikilvægt er að sátt ríki um stjórnarskrána og mun ég leggja mitt af mörkum til þess að slík sátt náist á stjórnlagaþinginu 2011.
Ég er Hafnfirðingum kannski ekki að öllu ókunn vegna þátttöku minnar í stjórnmálum í bænum og vegna skrifa um samfélagsmál hér á vettvangi Fjarðarpóstsins undanfarin ár. Framboð mitt til stjórnlagaþings er að öllu leyti ópólitískt framboð. Ég mun vinna heiðarlega og af krafti fyrir alla Íslendinga á stjórnlagaþingi, nái ég kjöri.
Ég óska eftir stuðningi Hafnfirðinga allra við framboð mitt og svara fúslega fyrirspurnum ef einhverjar eru. Umfram allt vil ég hvetja alla til að taka þátt í kosningunni til stjórnlagaþingsins þann 27. nóvember nk.
Með kærri kveðju,
Sigurlaug Anna Jóhannsdóttir
www.sigurlauganna.is
sigurlauganna@simnet.is

Greinin birtist í Fjarðarpóstinum í október 2010


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband