Neikvæð umræða

Mörgum finnst neikvæð umræða um stjórnlagaþingskosninguna sem fram mun fara næst komandi laugardag. Nú þegar höfum við séð hversu margir frambjóðendurnir eru, hvernig kynningin á þeim hefur farið fram og flest erum við farin að gera okkur í hugarlund hvernig kosningin mun fara fram. Á þessu eru mjög skiptar skoðanir og margir eru hugsi yfir þessu fyrirkomulagi. Við eigum ennþá eftir að sjá hverjir veljast á stjórnlagaþingið og hvernig þeim mun takast að vinna saman og komast að niðurstöðu. Þegar þessu lýkur, munum við sjá hvaða meðferð frumvarpið fær á Alþingi (ég geri ráð fyrir að stjórnlagaþingið skili af sér frumvarpi til stjórnlaga). Ef Alþingi samþykkir niðurstöðu stjórnlagaþings mun þurfa að rjúfa þing, boða til kosninga og fyrsta verk hins nýja Alþingis þarf að vera að samþykkja frumvarp til nýrra stjórnlaga. Ólíklegt? Kannski.
Kjósendur og hagsmunasamtök ýmiskonar hafa verið dugleg að krefja frambjóðendur svara um afstöðu sína til ýmissa mála og hef ég, eins og aðrir, gert mitt besta í að svara samviskusamlega. Þetta má allt skoða á síðunni minni www.sigurlauganna.is
Það versta sem getur gerst er að á stjórnlagaþing veljist fólk sem svo fyrirfram er búið að negla niður afstöðu sína til allra mála að það mun eiga í miklum vandræðum með að setjast á rökstóla og mjög erfitt með að breyta afstöðu sinni gerist þess þörf.
Íslendingar þurfa að átta sig á því að breytingar á stjórnarskrá munu ekki laga það sem aflaga hefur farið á Íslandi. Stjórnarskráin á ekki að vera löng, flókin og ítarleg. Hún á að vera grundvallarreglur í íslensku samfélagi og hún á að standast tímans tönn.
Kosningin til stjórnlagaþings er prófsteinn á margar stoðir í íslensku samfélagi. Fyrirfram getum við ekki annað en verið bjartsýn, gert okkar besta, tekið þátt og stutt við ferlið eins og við getum. Í versta falli munum við geta dregið af þessu ferli töluverðan lærdóm um marga hluti.
Höfundur er frambjóðandi til stjórnlagaþings númer 4932.


Dauðans alvara - við verðum að gera allt sem við getum

Einelti er samfélagslegt mein sem ekki er hægt að samþykkja að fái liðist. Sem framkvæmdastjóri Heimilis og skóla fékk ég tækifæri til þess að skoða hvernig Norðurlandaþjóðirnar takast á við þetta viðfangsefni. Við Íslendingar getum lært margt af því, bæði hvað varðar réttarfarsleg úrræði og samfélagsleg.

Í júní sl. kom út greinargerð sem unnin var í samstarfi þriggja ráðuneyta en hún ber heitið: „Greinargerð um mögulegar aðgerðir gegn einelti í skólum og á vinnustöðum.“ Hana er að finna á vef Mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Ráðuneytin sem standa að greinargerðinni eru: Heilbrigðisráðuneytið, Félagsmálaráðuneytið og Mennta- og menningarmálaráðuneytið. Greinargerðin er afrakstur samstarfs við marga aðila sem koma að málaflokknum en ákvörðunin um samstarf er byggð á því mati heilbrigðisráðherra að bregðast þyrfti við auknu einelti með skýrum og markvissum hætti. Í greinargerðinni stendur m.a.: „farvegur eineltismála innan skólakerfisins verður því þannig að fyrst geta foreldrar/nemendur vísað eineltismálum til umsjónarkennara og skólastjórnenda. Ef skólasamfélagi tekst ekki að leysa málin er hægt að leita til sérfræðiþjónustu sveitarfélags.“

Með þessu stíga stjórnvöld á Íslandi ákveðin skref í rétta átt. Á Íslandi eru það sveitarfélögin sem reka grunnskólana en einelti verður ekki upprætt nema með þátttöku sveitarfélaganna og þeirra sem starfa að fræðslumálum. Ég hef nýlega lagt fram nokkrar fyrirspurnir í fræðsluráði Hafnarfjarðar um það hvernig þessum málum er háttað í Hafnarfirði. Þessar fyrirspurnir mínar og svörin við þeim er að finna í fundargerðum fræðsluráðs í frá því í september sl.

Ég tel vera brýna ástæðu til að gera átak í Hafnarfirði hvað varðar eineltismál. Fara þarf ofan í saumana á eineltisáætlunum sem skólarnir hafa sjálfir búið sér til og kanna gæði þeirra og eftirfylgni. Sömuleiðis þarf að fara yfir það hvers konar fræðslu og þjálfun þeir sem sinna eineltismálum í hverjum skóla fá og/eða hafa fengið.

Þess vegna hef ég lagt fram tillögu til fræðsluráðs um að hafin verði þegar í stað vinna við forvarnir og eflingu úrræða sem í boði eru fyrir þolendur og gerendur eineltis í Hafnarfirði og að Skólaskrifstofa Hafnarfjarðar hafi forgöngu um þá vinnu. Það er von mín að fræðsluráð og Skólaskrifstofa Hafnarfjarðar standi sameiginlega að því að Hafnarfjörður taki af skarið og verði öðrum sveitarfélögum á Íslandi til fyrirmyndar á þessu sviði sérstaklega.

Sigurlaug Anna Jóhannsdóttir

Fulltrúi í fræðsluráði Hafnarfjarðar og varabæjarfulltrúi

Greinin birtist í Fjarðarpóstinum í nóvember 2010


Framboð til stjórnlagaþings

Kæru Hafnfirðingar,
ég hef ákveðið að gefa kost á mér til setu á stjórnlagaþingi 2011. Menntun mín, þekking og reynsla, ásamt áhuga á stjórnarskránni og íslensku samfélagi liggur til grundvallar ákvörðun minni.
Ég er stjórnmálafræðingur að mennt og starfaði sem verkefnisstjóri lýðræðisrannsókna við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands árin 2008 -2010. B.A. ritgerð mín fjallar um almennar atkvæðagreiðslur og beint lýðræði. Meðal fyrri starfa minna eru: framkvæmdastjóri Heimila og skóla, innheimtufulltrúi Reykjavíkurborgar í Ráðhúsi Rvk. um 5 ára skeið og verkefnastjóri hjá Lífsj. Verslunarmanna.
Núna sinni ég m.a. norrænu þróunarverkefni fyrir hönd Heimila og skóla ásamt fulltrúa menntavísindasviðs H.Í. um námsþætti fyrir kennaranema um samstarf heimila og skóla. Ég sit í fræðsluráði Hafnarfjarðar og er varabæjarfulltrúi en áður hef ég setið í Íþrótta- og tómstundanefnd og stjórn starfsmennasjóðs starfsmannafélags Hafnarfjarðar á vettvangi stjórnmálanna í bænum.
Ég hef þá sýn að stjórnarskráin eigi að vera þær grundvallarreglur í íslensku samfélagi sem almenningur á Íslandi skilur og treystir. Íslendingar eru stoltir af þingræðishefð sinni en þá arfleifð þarf að varðveita og styrkja enn frekar í nýrri stjórnarskrá. Lýðræðið þarf að festa í sessi í stjórnarskránni og koma þarf fyrir ákvæðum um þjóðaratkvæðagreiðslur. Veita þarf minnihlutanum á þingi stjórnskipuleg völd og endurreisa traust á Alþingi. Mikilvægt er að sátt ríki um stjórnarskrána og mun ég leggja mitt af mörkum til þess að slík sátt náist á stjórnlagaþinginu 2011.
Ég er Hafnfirðingum kannski ekki að öllu ókunn vegna þátttöku minnar í stjórnmálum í bænum og vegna skrifa um samfélagsmál hér á vettvangi Fjarðarpóstsins undanfarin ár. Framboð mitt til stjórnlagaþings er að öllu leyti ópólitískt framboð. Ég mun vinna heiðarlega og af krafti fyrir alla Íslendinga á stjórnlagaþingi, nái ég kjöri.
Ég óska eftir stuðningi Hafnfirðinga allra við framboð mitt og svara fúslega fyrirspurnum ef einhverjar eru. Umfram allt vil ég hvetja alla til að taka þátt í kosningunni til stjórnlagaþingsins þann 27. nóvember nk.
Með kærri kveðju,
Sigurlaug Anna Jóhannsdóttir
www.sigurlauganna.is
sigurlauganna@simnet.is

Greinin birtist í Fjarðarpóstinum í október 2010


Takk fyrir okkur


Undanfarnar vikur höfum við, undirrituð, verið á ferð um skóla bæjarins, ásamt öðrum úr fræðsluráði Hafnarfjarðar. Heimsóttir hafa verið allir leik- og grunnskólar í Hafnarfirði sem er liður í því að fræðsluráð kynni sig fyrir starfsfólki og nemendum skólanna, en er ekki síst til þess að ráðið fái að kynnast starfinu sem heyrir undir fræðslusvið frá fyrstu hendi.
Eftir allar þessar heimsóknir er okkur efst í huga þakklæti til þeirra sem tóku á móti okkur og ánægja með það frábæra starf sem fram fer í öllum skólum Hafnarfjarðar. Við höfum hitt starfsfólk og nemendur að störfum í dagsins önn og fengið innsýn inn í viðfangsefnin og aðstæður á hverjum stað. Undantekningarlaust fer mikið og metnaðarfullt starf fram í öllum skólum bæjarins en sérstaklega þykir okkur þó ánægjulegt að sjá hversu fjölbreytnin er mikil og mikið faglegt og vandað innra starf sem fer þar fram.

Á fræðsluráðsfundum eru teknar ákvarðanir sem varða þetta skólasamfélag allt og mikilvægt að fulltrúar í fræðsluráði séu í góðum tengslum við þá aðila sem samfélagið varðar. Gott samstarf er milli allra aðila í fræðsluráði og mikil þekking, reynsla og áhugi þar innanborðs. Vegna þeirra aðstæðna sem nú eru í samfélaginu er mikilvægt að allir sem sinna börnum og ungmennum séu enn betur á varðbergi en nokkru sinni fyrr. Við viljum því hvetja til samstarfs allra sem vettlingi geta valdið. Við munum ekki láta okkar eftir liggja.

Sigurlaug Anna Jóhannsdóttir
Kristinn Andersen
fulltrúar Sjálfstæðisflokks í fræðsluráði Hafnarfjarðar

greinin birtist í Fjarðarpóstinum í október 2010


Lýðræði í skólastarfi

Nú eiga að vera komin í framkvæmd ný menntalög sem tóku gildi árið 2008. Í þeim er kveðið á um töluverða aukningu á aðkomu foreldra og nemenda að skólastarfi, þar sem lýðræðisleg vinnubrögð allra í skólasamfélaginu eru grundvöllur þess að vel takist til. Það er ekki tilviljun ein að foreldrar og nemendur eru kallaðir að borðinu. Rannsóknir sýna að ávinningur slíks samstarfs og öflugrar foreldrasamvinnu er aukin velferð nemenda sem lýsir sér m.a. í betri námsárangri og betri líðan barna.
Í lögum um grunnskóla er kveðið á um að skólaráð skuli starfa við alla skóla og í reglugerð um skólaráð er fjallað um með hvaða hætti skuli skipað í skólaráðin. Í skólaráði eiga að sitja 2 fulltrúar nemenda, 2 fulltrúar foreldra, 2 fulltrúar kennara, skólastjórnendur og einn fulltrúi grenndarsamfélagsins. Setja skal fundargerðir skólaráða á heimasíður skólanna þannig að þær séu aðgengilegar öllum þeim sem áhuga hafa á skólastarfinu eða grenndarsamfélaginu
Skólaskrifstofu Hafnarfjarðar og fræðsluráði Hafnarfjarðar ber að tryggja framfylgd þessara laga í Hafnarfirði og hafa eftirlit með framkvæmd þeirra. Lögin kveða á um að fulltrúar foreldra í skólaráðum séu kosnir á aðalfundum hvers skóla fyrir sig, fulltrúar kennara á aðalfundi kennarafélagsins og fulltrúar nemenda á aðalfundi nemendafélagsins.
Það er alveg nýtt að nemendur fái svona ábyrgðarmikla aðkomu að ákvarðanatöku hvað varðar þeirra nánasta umhverfi. Þetta nýja tækifæri nemenda er hins vegar til lítils ef þau fá litla eða enga fræðslu um það hvernig þau eiga að bera sig að í slíku umhverfi. Þau þurfa að fá fræðslu um það út á hvað skólaráðið gengur, hvernig mál komast á dagskrá skólaráðs og hvernig þau eiga að flytja sín mál þar.
Á aðalfundum foreldrafélaga á að kjósa fulltrúa í skólaráð. Mjög mikilvægt er að fulltrúar foreldra hafi gott bakland og séu í sterkum tengslum við stjórnir foreldrafélaganna. Bakland foreldrafélaganna í Hafnarfirði er til og heitir Foreldraráð Hafnarfjarðar en það hefur verið nokkuð óvirkt undanfarin ár. Það er nauðsynlegt öllum þeim sem eiga að vera fulltrúar einhverra hópa að þeir þekki óskir þeirra sem þeir eru fulltrúar fyrir. Fulltrúi foreldra í skólanefnd Hafnarfjarðar er kosin á vettvangi Foreldraráðsins.
Hugmyndin í nýjum menntalögum um grenndarfulltrúa í skólaráði er mjög áhugaverð tilraun þar sem aðrir en foreldrar skólabarna geta haft áhrif á það sem fram fer í skólasamfélaginu. Lítið gagn getur þó verið í þessu fyrirkomulagi ef grenndarsamfélagið fær enga kynningu á þessum möguleika.
Í lögunum er einnig fjallað um að skólaráði beri einu sinni á ári að boða til skólaþings. Þar skal mótuð skólastefna næsta árs og kallað eftir hugmyndum úr öllu skólasamfélaginu.
Eftir ítrekaða eftirgrennslan hagsmunaaðila til Skólaskrifstofu Hafnarfjarðar um fyrirkomulag þessara mála í Hafnarfirði og ábyrgð á þeim erum við engu nær. Þar vísar hver á annan. Sömu sögu er að segja af Foreldraráði Hafnarfjarðar. Þetta þykir undirrituðum ekki bera mikinn vott um metnað í skólamálum Hafnarfjarðar og skorum á bæjaryfirvöld að láta málið til sín taka með því að sameina krafta, þekkingu og reynslu sem er í forvarnarmálum og foreldrasamvinnu í Hafnarfirði.

Sigurlaug Anna Jóhannsdóttir
Helga Vala Gunnarsdóttir
Jóhanna Fleckenstein

Greinin birtist í Fjarðarpóstinum í maí 2010


Líklegt til árangurs?

Það eina sem skiptir máli núna er að farið verði skipulega og markvisst í að leysa úr þeim brýna vanda sem steðjar að Hafnarfjarðabæ varðandi fjármál og atvinnumál.

Það er stóra málið!  Persónur einstakra aðila eiga ekki að þvælast fyrir í því verkefni.

Stjórnmálaflokkarnir og stjórnmálamennirnir í Hafnarfirði fengu skýr skilaboð í kosningunum á laugardaginn og í aðdraganda þeirra eins og víða annarsstaðar.  Þessi skilaboð verðum við að hlusta á.  Það þarf að byggja upp traust milli bæjarbúa og stjórnenda sveitarfélagsins.  Það traust er ekki fyrir hendi.

Ég er mjög hissa á því að oddviti VG reikni dæmið þannig að sátt verði um það í bænum að Samfylkingin sitji áfram í meirihluta.  Víst má telja að bæjarbúar verði seint sáttir við að bæjarstjórinn sem þeir kusu út úr bæjarstjórn verði settur bæjarstjóri áfram.  Um það verður engin sátt í Hafnfirsku samfélagi, það leyfi ég mér að fullyrða.

Ég er líka mjög hissa á því að oddviti VG skuli hafa áhuga á að týnast inni í stjórnkerfi sem Samfylkingin hefur myndast við að búa til í Hafnarfirði sem hefur komið okkur á þann stað sem við erum núna. 

Ég vona að sjálfsögðu að myndaður verði öflugur meirihluti sem hefur burði til að snúa af þeirri leið sem ferðast hefur verið eftir undanfarin ár. 

Við í Sjálfstæðisflokknum erum afar ánægð með okkar niðurstöðu í kosningunum og horfum björt fram á veginn með gríðarlega öflugan og þéttan hóp sem hefur þekkingu og reynslu á öllum sviðum.  Við verðum í þessu verkefni af fullum krafti næsta kjörtímabil.  Bæjarbúar geta treyst því að verðum öflug og málefnaleg í bæjarstjórn með hagsmuni Hafnfirðinga að leiðarljósi.


mbl.is Nýr meirihluti fyrir helgi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fram til sóknar!

Stjórnmálamenn eru kjörnir til þess að gæta hagsmuna almennings.  Stjórnmálamenn eiga að afla sér upplýsinga, þekkja málin, hafa skoðun á þeim og taka ákvarðanir.  Almenningur á ekki að þurfa að setja sig inn í öll mál heldur á hann að geta verið rólegur yfir því að það séu ábyrgir kjörnir fulltrúar í vinnu við það að sinna þeim störfum sem þeir voru kjörnir til.

 

Þetta þýðir samt ekki að allur almenningur geti treyst því í blindni að svo sé.  Aðhald almennings á stjórnmálamenn er nauðsynlegur liður í hinu lýðræðislega ferli.  Það er ekki nóg að umgjörð samfélagsins sé lýðræðisleg ef engir íbúar eru til þess að taka þátt í lýðræðinu.  Við sem erum virk í flokksstarfi Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfirði erum venjulegir íbúar þessa sveitarfélags sem viljum leggja okkar af mörkum til samfélagsins. Það að reka þriðja stærsta sveitarfélag á landinu er ekki verkefni fyrir fáa einstaklinga.  Með einum eða öðrum hætti væri æskilegt að allir íbúar gæfu kost á sér á einhverjum tímapunkti, eins mikið eða lítið sem hver og einn treystir sér til. 

 

Verkefnin sem blasa við okkur hér í Hafnarfirði eru krefjandi og sum erfið.  Það er meiri ástæða nú en nokkru sinni fyrr til þess að við Hafnfirðingar leggjumst öll á eitt við það að gera Hafnarfjörð að framsæknasta, öflugasta og fallegasta sveitarfélaginu á landinu.  Grunnurinn er svo sannarlega til staðar. Ég vil hvetja Hafnfirðinga til að fylgjast með starfi Sjálfstæðisflokksins á:  www.hafnarfjordur.xd.is, senda okkur línu, slá á þráðinn eða mæta á þá fundi sem auglýstir eru.

 

Áhuga- og reynslusvið mitt er mjög vítt.  Ég hef skrifað um skólamál, lýðræðismál og fjármál hér í Fjarðarpóstinn undanfarin ár með reglulegu millibili.  Ég vinn við rannsókn á íbúalýðræði þar sem ég hef skoðað sérstaklega skipulags- og umhverfismál, í 22 stærstu sveitarfélögum á Íslandi. Ég er í stjórn og framkvæmdastjórn samtakana Heimili og skóli og er varamaður í Íþrótta og tómstundanefnd, svo eitthvað sé nefnt. Skrif mín má finna á bloggsíðunni www.sigurlauganna.blog.is

 

Ég legg mig fram við að setja mig inn í þau viðfangsefni sem ég fjalla um hverju sinni og  vil gjarnan starfa  í forystusveit Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfirði á næsta kjörtímabili.  Ef þig langar til þess að vita meira um mig, bendi ég á síðuna www.sigurlauganna.is, netfangið: sigurlauganna@simnet.is eða símanúmerið 845-4036.

 

Ég óska eftir stuðningi sjálfstæðisfólks í Hafnarfirði í prófkjörinu þann 30. janúar nk.  og að lokum skora ég á alla flokksmenn að taka þátt í prófkjörinu. 

 

Höfundur býður sig fram í 2.-3. sætið á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfirði.

 Greinin birtist í Fjarðarpóstinum í dag 28. janúar 2010 

Áherslur mínar vegna framboðs til bæjarstjórnar Hafnarfjarðar

Sigurlaug Anna í 2. -3. sætið. 

Fjármál: Ábyrg fjármálastjórn er undirstaða öflugs samfélags.  Við núverandi skuldasöfnun verður ekki unað og setja þarf saman aðgerðaráætlun sem miðar að því að fjármagnskostnaður aukist ekki meira en orðið er.  Nauðsynlegt er að hægja á framkvæmdum og hagræða í rekstri m.a. til þess að ekki þurfi að grípa til uppsagna.  Á meðan efnahagsþrengingarnar ganga yfir er nauðsynlegt að halda í horfinu en um leið og rofar til skal stefnt að lækkun skulda og þar með lækkun fjármagnskostnaðar.  Þannig mun sveitarfélagið smám saman geta bætt þjónustu við bæjarbúa og lækkað álögur á þá.

Lýðræði: heildstæða lýðræðisstefnu þarf að setja fyrir Hafnarfjörð svo íbúar þekki þær reglur sem um lýðræðið gilda og geti þannig tekið þátt í því.  Mikilvægt er að kjörnir fulltrúar þekki óskir bæjarbúa og dragi þá að ákvarðanatökuborðinu í stórum málum sem smáum.  Kjörnir fulltrúar þurfa að axla þá ábyrgð sem þeim er falin, hafa framtíðarsýn og leita leiða til að skapa sátt í samfélaginu.  Átakastjórnmál eru ekki neinum til góðs.

 

Fjölskyldumál:

Gæta þarf sérstaklega að því að þeir sem á þurfa að halda fái þá þjónustu sem þeir þarfnast svo lífskjör þeirra geti amk haldist óbreytt þrátt fyrir efnahagsástandið.  Leggja þarf alla áherslu á að vernda grunnþjónustuna og forgangsraða í þágu fjölskyldna, barna og unglinga. 

Íþrótta og tómstundastarf barna og unglinga er að mörgu leyti til fyrirmyndar enda skiptir það gríðarlegu máli að hver og einn einstaklingur finni áhugamálum sínum farveg á sinn hátt.  Ég mun leggja mitt af mörkum til þess að standa vörð um íþróttastarf bæjarins þar sem áhersla verður lögð á forgangsröðun í þágu barna og unglinga.

 

 Skólamál:

Skólamálin taka til sín ríflega helming útgjalda sveitarfélagsins og er starf skólanna mjög bundið í lög.  Skólarnir þurfa þó að búa við sömu hagræðingarkröfu og aðrir.  Hagræðingin getur t.d. falist í skipulagsbreytingum og lækkun stjórnunarkostnaðar.

Foreldrar eru auðlind í skólastarfi og tel ég ástæðu til að auka þátttöku foreldra í starfi skólanna.  Aukin viðvera foreldra í skólum getur þjónað margvíslegum tilgangi: foreldrar mynda betri tengsl við börn sín, starfslið skólanna og skólasystkinin, þannig styrkjast börnin í sínu umhverfi. Jafnvel gæti þátttaka foreldra í skólastarfi dregið úr einelti og að síðustu gæti verið mögulegt að ná fram sparnaði í skólakerfinu með þessum hætti.

 

 Umhverfismál:

Útivistarmöguleikar í Hafnarfirði eru margir, en betur má gera í þeim málaflokki án mikils tilkostnaðar.  Yfirbyggð útigrill á helstu útisamverustöðum fólks í Hafnarfirði væri gaman að gera að veruleika.  Betri göngustígar og hjólreiðastígar eru markmið sem stefnt hefur verið að lengi án mikils árangurs.  Á því langar mig að ráða bót.  Aðstaða fyrir hundaeigendur til þess að viðra hunda sína án þess að þeir séu bundnir á afmörkuðu svæði er hugmynd sem án mikils tilkostnaðar er hægt að setja í framkvæmd.  Áherslan á heilbrigðan lífstíl verður aldrei of mikil. 

 Skipulagsmál:

Skipulagsmál eru málaflokkur sem þarf að fara vandlega yfir í ljósi breyttra aðstæðna.  Ákvarðanir í skipulagsmálum þurfa að vera lýðræðislegar og horfa skal til langs tíma stefnumótum um skipulag.  Varðveita þarf sögu bæjarins og sérstöðu.  Bæjarstæði Hafnfirðinga er fallegt og ásýndin sömuleiðis.  Skipulagsslys verða jafnvel ekki aftur tekin, því ber að fara fram með gát.  Leita þarf allra leiða til þess að glæða ný hverfi lífi til þess að þjónusta sveitarfélagsins verði sem best og nýtingin sem mest á fjármunum bæjarbúa.

 

 Atvinnumál:

Standa þarf vörð um fyrirtækin í Hafnarfirði, bæði stór og smá.  Laða þarf til Hafnarfjarðar ný fyrirtæki og sjá má tækifæri í því bærinn hafi milligöngu með að bjóða nýsköpunarfyrirtækjum og sprotafyrirtækjum aðstöðu á viðráðanlegum kjörum t.d. í húsnæði sem annars stendur ónotað.

 

Kosið verður 30. janúar nk. í Víðistaðaskóla milli kl. 10-18.


Fjármál og framtíð Hafnarfjarðar

Þann 30. janúar nk. halda bæði Sjálfstæðisflokkur og Samfylking í Hafnarfirði, prófkjör.  Í lok maí verða sveitarstjórnarkosningar.  Á þessu tímabili mun Samfylkingarfólk í ræðum og riti keppast við að halda því fram að engin ástæða sé til þess að hafa áhyggjur af fjárhagsstöðu og skuldum Hafnarfjarðar en hins vegar munum við Sjálfstæðisfólk halda hinu gagnstæða fram.  Það eru margsönnuð vísindi að fjármálastagl mun ekki skila stjórnmálamönnum betri niðurstöðum í prófkjörum eða kosningum.  Fármálastagl er lítt fallið til vinsælda.  Þetta er skiljanlegt en það hlýtur öllum að vera það ljóst, sérstaklega eins og staðan í þjóðfélaginu er, að það er  meiri ástæða til þess að láta sig það varða hvernig búið er um fjárhagslegar skuldbindingar skattgreiðenda en nokkru sinni fyrr.  Í aðsendri grein í Fjarðarpóstinum í síðustu viku fer varabæjarfulltrúi Eyjólfur Sæmundsson yfir skuldastöðu Hafnarfjarðar.  Eyjólfur vill meina að Samfylkingunni sé treystandi til þess að fara áfram með forystu í sveitarfélaginu og að fjárhagsstaðan sé traustari en haldið hefur verið fram.  Eyjólfur útskýrir stöðuna með þeim hætti að gengishrunið sem fylgdi fjármálakreppunni hafi leikið sveitarfélögin grátt og þau hafi „þurft“ að fjármagna framkvæmdir sínar með erlendu lánsfé.  Máli sínu til stuðnings ber varabæjarfulltrúinn saman nokkrar lykiltölur úr ársreikningum Álftaness og Reykjavíkur.  Val hans á samanburðarsveitarfélögunum er athyglisvert fyrir ýmsar sakir.  Vissulega stendur Hafnarfjörður betur en hið gjaldþrota sveitarfélag Álftanes.  Staðreyndin er samt sú að Hafnarfjörður er undir smásjá eftirlitsnefndar um fjármál sveitarfélaga alveg eins og Álftanes.  Hitt sveitarfélagið sem Eyjólfur kýs að bera Hafnarfjörð saman við er Reykjavík.  Í því samhengi verður að hafa í huga að verið er að bera saman samstæðureikninga sveitarfélaganna en það þýðir að allar skuldir vegna fjárfestinga Orkuveitu Reykjavíkur eru meðtaldar.  Á móti skuldum pr. íbúa í Reykjavík eru gríðarlegar fjárfestingar, m.a. í virkjunum, miklar eignir og framtíðartekjur.  Því fer víðs fjarri að slíku sé til að dreifa í Hafnarfirði. Í tölum Eyjólfs kemur líka fram að veltufé frá rekstri er margfalt hærra í Reykjavík en í Hafnarfirði en það segir hversu mikið fé sveitarfélagið hefur til að borga niður skuldir og fjárfesta, án þess að taka til þess lán.Fjárhagsáætlun Hafnarfjarðar fyrir árið 2010 verður ekki lesin öðruvísi en svo að um leið og svigrúm fyrir frekari fjármögnun býðst verður farið í frekari framkvæmdir.  Þetta þýðir bara aukningu skulda.  Það er ekki að sjá að það séu uppi nein áform um að hætta að skuldsetja sveitarfélagið, hvað þá greiða skuldir.Við þessa skuldasöfnun verður ekki unað.  Það er kannski bjartsýni í núverandi stöðu að halda að hægt sé að greiða niður skuldir en  bæjarbúar hljóta að gera kröfu til þess að bæjaryfirvöld láti af frekari lántökum og sýni ráðdeild í rekstri Hafnarfjarðar.Veruleg ástæða er til þess að efast um að Samfylkingunni í Hafnarfirði sé treystandi fyrir þessu verkefni.

Sigurlaug Anna Jóhannsdóttir. Höfundur býður sig fram í 2. -3. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfirði í prófkjörinu 30. janúar nk.

 Greinin birtist í Fjarðarpóstinum í dag 14. janúar 2010.


Framboðsyfirlýsing

passi_SigurlaugÉg, Sigurlaug Anna Jóhannsdóttir, hef ákveðið að bjóða mig fram í 2.-3. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfirði í prófkjöri sem fram mun fara þann 30. janúar næstkomandi.

Ég starfa sem verkefnisstjóri rannsóknar á íbúalýðræði sem verið er að gera við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands ásamt því að stunda meistaranám við sömu deild með áherslu á sveitarstjórnarmál.  B.A gráðu í stjórnmálafræði lauk ég árið 2008 en áður hafði ég stundað nám í iðnrekstrarfræði við Tækniháskóla Íslands.

Ég hef gegnt margvíslegum störfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn undanfarin ár, er formaður Fram, Sjálfstæðisfélags Hafnarfjarðar, á sæti í fulltrúaráði sjálfstæðisfélaganna í Hafnarfirði, er varamaður í Íþrótta- og tómstundaráði Hafnarfjarðar og sit í stjórn starfsmenntasjóðs Starfsmannafélags Hafnarfjarðar.  Einnig á ég sæti í stjórn málefnanefndar Sjálfstæðisflokksins um innanríkismál.

Utan flokksins hef ég tekið þátt í margvíslegu félagsstarfi.  Er í stjórn og framkvæmdastjórn samtakanna Heimili og skóli auk þess sem ég hef setið í nokkur ár bæði í foreldrafélagi og foreldraráði Lækjarskóla. 

Ég er 37 ára gömul, gift Ásgeiri Örvarri Jóhannssyni, húsasmiði og saman eigum við tvær dætur, Katrínu Ósk 15 ára og Jóhönnu Freyju 9 ára. 

Verkefni stjórnmálanna í Hafnarfirði eru og verða ærin næstu misserin við að reisa við fjárhag bæjarins.  Ég mun leggja mig alla fram við að styrkja stoðir  sveitarfélagsins svo byggja megi enn betra samfélag ríkt af tækifærum og félagsauði.  Stjórnmálamenn eru kjörnir til þess að gæta hagsmuna almennings og skapa lýðræðislegt umhverfi þar sem allir fá notið sín. 

Ég óska eftir umboði sjálfstæðisfólks í Hafnarfirði til þess að vinna hag Hafnarfjarðar sem mest gagn næsta kjörtímabil.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband