Fjármál og framtíð Hafnarfjarðar

Þann 30. janúar nk. halda bæði Sjálfstæðisflokkur og Samfylking í Hafnarfirði, prófkjör.  Í lok maí verða sveitarstjórnarkosningar.  Á þessu tímabili mun Samfylkingarfólk í ræðum og riti keppast við að halda því fram að engin ástæða sé til þess að hafa áhyggjur af fjárhagsstöðu og skuldum Hafnarfjarðar en hins vegar munum við Sjálfstæðisfólk halda hinu gagnstæða fram.  Það eru margsönnuð vísindi að fjármálastagl mun ekki skila stjórnmálamönnum betri niðurstöðum í prófkjörum eða kosningum.  Fármálastagl er lítt fallið til vinsælda.  Þetta er skiljanlegt en það hlýtur öllum að vera það ljóst, sérstaklega eins og staðan í þjóðfélaginu er, að það er  meiri ástæða til þess að láta sig það varða hvernig búið er um fjárhagslegar skuldbindingar skattgreiðenda en nokkru sinni fyrr.  Í aðsendri grein í Fjarðarpóstinum í síðustu viku fer varabæjarfulltrúi Eyjólfur Sæmundsson yfir skuldastöðu Hafnarfjarðar.  Eyjólfur vill meina að Samfylkingunni sé treystandi til þess að fara áfram með forystu í sveitarfélaginu og að fjárhagsstaðan sé traustari en haldið hefur verið fram.  Eyjólfur útskýrir stöðuna með þeim hætti að gengishrunið sem fylgdi fjármálakreppunni hafi leikið sveitarfélögin grátt og þau hafi „þurft“ að fjármagna framkvæmdir sínar með erlendu lánsfé.  Máli sínu til stuðnings ber varabæjarfulltrúinn saman nokkrar lykiltölur úr ársreikningum Álftaness og Reykjavíkur.  Val hans á samanburðarsveitarfélögunum er athyglisvert fyrir ýmsar sakir.  Vissulega stendur Hafnarfjörður betur en hið gjaldþrota sveitarfélag Álftanes.  Staðreyndin er samt sú að Hafnarfjörður er undir smásjá eftirlitsnefndar um fjármál sveitarfélaga alveg eins og Álftanes.  Hitt sveitarfélagið sem Eyjólfur kýs að bera Hafnarfjörð saman við er Reykjavík.  Í því samhengi verður að hafa í huga að verið er að bera saman samstæðureikninga sveitarfélaganna en það þýðir að allar skuldir vegna fjárfestinga Orkuveitu Reykjavíkur eru meðtaldar.  Á móti skuldum pr. íbúa í Reykjavík eru gríðarlegar fjárfestingar, m.a. í virkjunum, miklar eignir og framtíðartekjur.  Því fer víðs fjarri að slíku sé til að dreifa í Hafnarfirði. Í tölum Eyjólfs kemur líka fram að veltufé frá rekstri er margfalt hærra í Reykjavík en í Hafnarfirði en það segir hversu mikið fé sveitarfélagið hefur til að borga niður skuldir og fjárfesta, án þess að taka til þess lán.Fjárhagsáætlun Hafnarfjarðar fyrir árið 2010 verður ekki lesin öðruvísi en svo að um leið og svigrúm fyrir frekari fjármögnun býðst verður farið í frekari framkvæmdir.  Þetta þýðir bara aukningu skulda.  Það er ekki að sjá að það séu uppi nein áform um að hætta að skuldsetja sveitarfélagið, hvað þá greiða skuldir.Við þessa skuldasöfnun verður ekki unað.  Það er kannski bjartsýni í núverandi stöðu að halda að hægt sé að greiða niður skuldir en  bæjarbúar hljóta að gera kröfu til þess að bæjaryfirvöld láti af frekari lántökum og sýni ráðdeild í rekstri Hafnarfjarðar.Veruleg ástæða er til þess að efast um að Samfylkingunni í Hafnarfirði sé treystandi fyrir þessu verkefni.

Sigurlaug Anna Jóhannsdóttir. Höfundur býður sig fram í 2. -3. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfirði í prófkjörinu 30. janúar nk.

 Greinin birtist í Fjarðarpóstinum í dag 14. janúar 2010.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Örvar Már Marteinsson

Að greiða niður skuldir er eins og að rífa af plástur. Smá hugrekki fyrst en svo kemur ávinningurinn í ljós.

Samfylkingunni er ekki treystandi fyrir þessu verkefni né öðrum!

Örvar Már Marteinsson, 16.1.2010 kl. 22:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband