Fram til sóknar!

Stjórnmálamenn eru kjörnir til þess að gæta hagsmuna almennings.  Stjórnmálamenn eiga að afla sér upplýsinga, þekkja málin, hafa skoðun á þeim og taka ákvarðanir.  Almenningur á ekki að þurfa að setja sig inn í öll mál heldur á hann að geta verið rólegur yfir því að það séu ábyrgir kjörnir fulltrúar í vinnu við það að sinna þeim störfum sem þeir voru kjörnir til.

 

Þetta þýðir samt ekki að allur almenningur geti treyst því í blindni að svo sé.  Aðhald almennings á stjórnmálamenn er nauðsynlegur liður í hinu lýðræðislega ferli.  Það er ekki nóg að umgjörð samfélagsins sé lýðræðisleg ef engir íbúar eru til þess að taka þátt í lýðræðinu.  Við sem erum virk í flokksstarfi Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfirði erum venjulegir íbúar þessa sveitarfélags sem viljum leggja okkar af mörkum til samfélagsins. Það að reka þriðja stærsta sveitarfélag á landinu er ekki verkefni fyrir fáa einstaklinga.  Með einum eða öðrum hætti væri æskilegt að allir íbúar gæfu kost á sér á einhverjum tímapunkti, eins mikið eða lítið sem hver og einn treystir sér til. 

 

Verkefnin sem blasa við okkur hér í Hafnarfirði eru krefjandi og sum erfið.  Það er meiri ástæða nú en nokkru sinni fyrr til þess að við Hafnfirðingar leggjumst öll á eitt við það að gera Hafnarfjörð að framsæknasta, öflugasta og fallegasta sveitarfélaginu á landinu.  Grunnurinn er svo sannarlega til staðar. Ég vil hvetja Hafnfirðinga til að fylgjast með starfi Sjálfstæðisflokksins á:  www.hafnarfjordur.xd.is, senda okkur línu, slá á þráðinn eða mæta á þá fundi sem auglýstir eru.

 

Áhuga- og reynslusvið mitt er mjög vítt.  Ég hef skrifað um skólamál, lýðræðismál og fjármál hér í Fjarðarpóstinn undanfarin ár með reglulegu millibili.  Ég vinn við rannsókn á íbúalýðræði þar sem ég hef skoðað sérstaklega skipulags- og umhverfismál, í 22 stærstu sveitarfélögum á Íslandi. Ég er í stjórn og framkvæmdastjórn samtakana Heimili og skóli og er varamaður í Íþrótta og tómstundanefnd, svo eitthvað sé nefnt. Skrif mín má finna á bloggsíðunni www.sigurlauganna.blog.is

 

Ég legg mig fram við að setja mig inn í þau viðfangsefni sem ég fjalla um hverju sinni og  vil gjarnan starfa  í forystusveit Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfirði á næsta kjörtímabili.  Ef þig langar til þess að vita meira um mig, bendi ég á síðuna www.sigurlauganna.is, netfangið: sigurlauganna@simnet.is eða símanúmerið 845-4036.

 

Ég óska eftir stuðningi sjálfstæðisfólks í Hafnarfirði í prófkjörinu þann 30. janúar nk.  og að lokum skora ég á alla flokksmenn að taka þátt í prófkjörinu. 

 

Höfundur býður sig fram í 2.-3. sætið á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfirði.

 Greinin birtist í Fjarðarpóstinum í dag 28. janúar 2010 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Góður pistill hjá þér Sigurlaug

Frk. Laxmýr (IP-tala skráð) 8.2.2010 kl. 22:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband