24.11.2010 | 08:56
Dauðans alvara - við verðum að gera allt sem við getum
Einelti er samfélagslegt mein sem ekki er hægt að samþykkja að fái liðist. Sem framkvæmdastjóri Heimilis og skóla fékk ég tækifæri til þess að skoða hvernig Norðurlandaþjóðirnar takast á við þetta viðfangsefni. Við Íslendingar getum lært margt af því, bæði hvað varðar réttarfarsleg úrræði og samfélagsleg.
Í júní sl. kom út greinargerð sem unnin var í samstarfi þriggja ráðuneyta en hún ber heitið: Greinargerð um mögulegar aðgerðir gegn einelti í skólum og á vinnustöðum. Hana er að finna á vef Mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Ráðuneytin sem standa að greinargerðinni eru: Heilbrigðisráðuneytið, Félagsmálaráðuneytið og Mennta- og menningarmálaráðuneytið. Greinargerðin er afrakstur samstarfs við marga aðila sem koma að málaflokknum en ákvörðunin um samstarf er byggð á því mati heilbrigðisráðherra að bregðast þyrfti við auknu einelti með skýrum og markvissum hætti. Í greinargerðinni stendur m.a.: farvegur eineltismála innan skólakerfisins verður því þannig að fyrst geta foreldrar/nemendur vísað eineltismálum til umsjónarkennara og skólastjórnenda. Ef skólasamfélagi tekst ekki að leysa málin er hægt að leita til sérfræðiþjónustu sveitarfélags.
Með þessu stíga stjórnvöld á Íslandi ákveðin skref í rétta átt. Á Íslandi eru það sveitarfélögin sem reka grunnskólana en einelti verður ekki upprætt nema með þátttöku sveitarfélaganna og þeirra sem starfa að fræðslumálum. Ég hef nýlega lagt fram nokkrar fyrirspurnir í fræðsluráði Hafnarfjarðar um það hvernig þessum málum er háttað í Hafnarfirði. Þessar fyrirspurnir mínar og svörin við þeim er að finna í fundargerðum fræðsluráðs í frá því í september sl.
Ég tel vera brýna ástæðu til að gera átak í Hafnarfirði hvað varðar eineltismál. Fara þarf ofan í saumana á eineltisáætlunum sem skólarnir hafa sjálfir búið sér til og kanna gæði þeirra og eftirfylgni. Sömuleiðis þarf að fara yfir það hvers konar fræðslu og þjálfun þeir sem sinna eineltismálum í hverjum skóla fá og/eða hafa fengið.
Þess vegna hef ég lagt fram tillögu til fræðsluráðs um að hafin verði þegar í stað vinna við forvarnir og eflingu úrræða sem í boði eru fyrir þolendur og gerendur eineltis í Hafnarfirði og að Skólaskrifstofa Hafnarfjarðar hafi forgöngu um þá vinnu. Það er von mín að fræðsluráð og Skólaskrifstofa Hafnarfjarðar standi sameiginlega að því að Hafnarfjörður taki af skarið og verði öðrum sveitarfélögum á Íslandi til fyrirmyndar á þessu sviði sérstaklega.
Sigurlaug Anna Jóhannsdóttir
Fulltrúi í fræðsluráði Hafnarfjarðar og varabæjarfulltrúi
Greinin birtist í Fjarðarpóstinum í nóvember 2010
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:28 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.