24.11.2010 | 08:58
Neikvæð umræða
Mörgum finnst neikvæð umræða um stjórnlagaþingskosninguna sem fram mun fara næst komandi laugardag. Nú þegar höfum við séð hversu margir frambjóðendurnir eru, hvernig kynningin á þeim hefur farið fram og flest erum við farin að gera okkur í hugarlund hvernig kosningin mun fara fram. Á þessu eru mjög skiptar skoðanir og margir eru hugsi yfir þessu fyrirkomulagi. Við eigum ennþá eftir að sjá hverjir veljast á stjórnlagaþingið og hvernig þeim mun takast að vinna saman og komast að niðurstöðu. Þegar þessu lýkur, munum við sjá hvaða meðferð frumvarpið fær á Alþingi (ég geri ráð fyrir að stjórnlagaþingið skili af sér frumvarpi til stjórnlaga). Ef Alþingi samþykkir niðurstöðu stjórnlagaþings mun þurfa að rjúfa þing, boða til kosninga og fyrsta verk hins nýja Alþingis þarf að vera að samþykkja frumvarp til nýrra stjórnlaga. Ólíklegt? Kannski.
Kjósendur og hagsmunasamtök ýmiskonar hafa verið dugleg að krefja frambjóðendur svara um afstöðu sína til ýmissa mála og hef ég, eins og aðrir, gert mitt besta í að svara samviskusamlega. Þetta má allt skoða á síðunni minni www.sigurlauganna.is
Það versta sem getur gerst er að á stjórnlagaþing veljist fólk sem svo fyrirfram er búið að negla niður afstöðu sína til allra mála að það mun eiga í miklum vandræðum með að setjast á rökstóla og mjög erfitt með að breyta afstöðu sinni gerist þess þörf.
Íslendingar þurfa að átta sig á því að breytingar á stjórnarskrá munu ekki laga það sem aflaga hefur farið á Íslandi. Stjórnarskráin á ekki að vera löng, flókin og ítarleg. Hún á að vera grundvallarreglur í íslensku samfélagi og hún á að standast tímans tönn.
Kosningin til stjórnlagaþings er prófsteinn á margar stoðir í íslensku samfélagi. Fyrirfram getum við ekki annað en verið bjartsýn, gert okkar besta, tekið þátt og stutt við ferlið eins og við getum. Í versta falli munum við geta dregið af þessu ferli töluverðan lærdóm um marga hluti.
Höfundur er frambjóðandi til stjórnlagaþings númer 4932.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.