19.12.2008 | 14:55
Björgunarskipinu Ingibjörgu stolið í morgun
Þetta fann ég á heimasíðunni www.hornafjordur.is í morgun......
Björgunarskipi Slysavarnafélagsins Landsbjargar á Höfn í Hornafirði, Ingibjörgu, var stolið í morgun.
Skipið lagði úr höfn um klukkan 7:00 og var stefnan tekin austur með landi. Um þremur tímum síðar uppgötvaðist að skipið var ekki á sínum stað. Því var hins vegar siglt aftur til hafnar um klukkan 11:00 og kom þá í ljós að það hafði verið tekið ófrjálsri hendi.
Um borð var einstaklingur sem er að öllum líkindum búinn að dvelja þar frá því á þriðjudag. Í dagbók hans, sem fannst í skipinu, er að finna nákvæmar lýsingar á öllum hans athöfnum þennan tíma, m.a. lýsingar á því hvernig hann braust inn í það og hvernig hann las sér til um virkni þess í bókum sem eru um borð.
Með þessar upplýsingar í farteskinu náði viðkomandi einstaklingur að sigla skipinu út innsiglinguna í Hornafirði sem þykir erfið. Hann náði þó ekki að kveikja á stýri skipsins og fór inn og út innsiglinguna á vélunum einum saman. Þegar hann hafði siglt um 20 mílur fékk skipið á sig brot og varð maðurinn þá hræddur og snéri við og var kominn inn í höfnina um klukkan 11:00 eins og fyrr segir. Því má bæta við að innsiglingin til Hafnar var lokuð í morgun þar sem ölduhæð var um 5 m.
"Sjómaðurinn" er nú í yfirheyrslu hjá lögreglunni á Höfn.
Smávægilegar skemmdir eru framan á skipinu en það er sjófært.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.