12.1.2009 | 20:34
Það er víst lýðræði á Íslandi
Undanfarnar vikur hafa raddir verið háværar um að það sé ekki lýðræði á Íslandi, kosningakerfið og stjórnkerfið sem við búum við sé ónýtt og valdafyrirkomulagið meingallað. Þetta sá ég m.a. í Silfri Egils í gær sem b.t.w. var lélegasti Silfurþáttur sem ég hef séð! Sumir vilja ganga svo langt að segjast ætla að stofna nýtt lýðveldi á Íslandi, hvað sem það nú þýðir. Kannski valdarán?? Kannski ætla þeir að taka yfir Landhelgisgæsluna og hernema Ísland? Ég verð að viðurkenna að ég skil þetta ekki alveg.
Nú er það svo að hið mikla efnahagshrun hefur sett spurningamerki við ýmis grunngildi íslensks samfélags. Bæði mannleg gildi sem og stjórnarfarsleg. Það sem almenningur allur þarf að passa sig á er að detta ekki ofan í þann fúla pytt að henda öllu því góða sem við eigum út með því slæma. Múgæsingurinn má ekki verða svo mikill að það missi allir vitið á einu bretti hér á landi.
Fólk er reitt og frústrerað og í því ástandi ætlar það að halda því fram að það sé ekkert lýðræði á Íslandi. Ég get staðfest að það er svo sannarlega lýðræði á Íslandi. Ég get fært fyrir því all mörg rök en ætla að láta nægja að benda á að ég tek bæði þátt í foreldrastarfi og pólitísku starfi og get staðfest að ég (ásamt fleirum) hef hellt upp á fullt af kaffikönnum og haldið fullt af ýmsum fundum um ýmis málefni en aðsóknin hefur látið á sér standa.
Ég hef marg spurt fólk í kring um mig hvort það vill ekki mæta á þennann eða hinn fundinn og taka þátt í foreldrastarfi eða flokksstarfi með mér. Svörin eru yfirleitt á þá leið að tíminn sé ekki nægur.
Staðreyndin er sú að það er heilmikið lýðræði á Íslandi en það er fólkið sem hefur brugðist því hlutverki að sýna samfélagslega ábyrgð, mæta og taka þátt. Það hefur verið upptekið við annað.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:36 | Facebook
Athugasemdir
Góð ábending hjá þér Sigurlaug Anna. Lýðræði felst í samtakamætti fjöldans. Þú ert velkomin á Austurvöll kl. 15:00 á laugardögum
Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 12.1.2009 kl. 20:43
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.