11.2.2009 | 19:10
Opið bréf til bæjarstjóra Hafnarfjarðar
birtist í Fjarðarpóstinum á morgun 12. febrúar 2009
Hafnarfjörður 11. febrúar 2009
Opið bréf til bæjarstjóra
Virðulegi bæjarstjóri,
mig langar til að óska eftir upplýsingum um fjárhagslega stöðu Hafnarfjarðarbæjar og mig langar að biðja þig um svör á mannamáli sem venjulegt fólk í Hafnarfirði skilur. Til að hafa öll spil á borðinu þá er ég í stjórn Sjálfstæðisfélags Hafnarfjarðar en í raun er þetta bréf sent frá íbúa í Hafnarfirði til bæjarstjóra allra bæjarbúa í Hafnarfirði.
Almenningur á Íslandi hefur áhyggjur af stöðu mála í ríkisbúskapnum, hefur enda ærna ástæðu til og óskar eftir skýrum svörum frá stjórnvöldum.
Sveitarfélögin og staða þeirra hafa ekki fengið mikið pláss í umfjöllun fjölmiðla undanfarna mánuði. Engu að síður er það þannig, að það efnahagsástand sem nú blasir við mun koma sér verulega illa fyrir flest sveitarfélög á Íslandi. Þó verr fyrir sum sveitarfélög en önnur. Það segir sig kannski sjálft að þau sveitarélög sem voru enn á fullri keyrslu þegar bankahrunið varð, verða verr úti en önnur.
Fréttir berast af miklum lántökum hjá Hafnarfjarðarbæ og mér sýnist þau lán vera á afar vondum kjörum svo ekki sé dýpra í árina tekið. Það hlýtur að vera án fordæma að Hafnarfjörður hafi þurft að veðsetja eignir bæjarins fyrir lánum sem eru að auki verðtryggð og með háum vöxtum. Þetta umrædda lán var tekið í síðasta mánuði en ekki er langt síðan Hafnarfjarðarbær tók annað stórt erlent lán og langar mig að spyrja hvort lántökum sveitarfélagsins sé lokið eða hvort við eigum von á meiri lántöku? Ef rýnt er í tölur úr fjárhagsáætlun, fer 95% af áætluðum tekjum bæjarins í rekstur. Rekstrarafgangurinn dugar ekki einu sinni fyrir vaxtagjöldum, hvað þá afborgunum og framkvæmdum. Það segir sig sjálft að þetta gengur ekki upp. Hvernig sér bæjarstjórinn fyrir sér að leysa þennann vanda?
Er áætlað að skera niður í grunnskólunum? Ef svo er, væri fróðlegt að fá upplýsingar um það með hvaða hætti það á að vera?
Hver er til dæmis staðan varðandi Kaplakrika? Verður hann sundurgrafinn mikið lengur sem takmarkar mjög notkun íþróttamannvirkjanna sem þar eru og er til verulegra vandræða fyrir börnin okkar, ef ekki beinlínis hættulegt, sem þurfa að ganga hringinn í kring um húsið í snjónum og hálkunni? Þetta ástand er ekki viðunandi. Ef klára á þessar framkvæmdir á næstunni langar mig að fá svar við því hvaðan þeir fjármunir eiga að koma?
Kostnaður sveitarfélagsins vegna íþróttamannvirkja hefur verið gríðarlegur á umliðnum árum. Þó ég telji það nauðsynlegt og skynsamlegt fyrir sveitarfélög að styðja myndarlega við íþróttafélög má velta því fyrir sér hvort menn hafi farið fram úr sér hér í bæ. Fjármál Hauka virðast vera vandamál sem erfitt er að sjá fram úr. Getur bæjarstjórinn greint frá því með hvaða hætti leyst verður úr því máli?
Hvernig er með sundlaugarmannvirkið nýja á völlunum? Á að halda því í fullum rekstri í þessu árferði? Og ég spyr líka, þurfum við að reka 3 almennings sundlaugar í Hafnarfirði þegar svona illa árar?
Sem venjulegur íbúi og foreldri í Hafnarfirði langar mig að óska eftir skýrum svörum frá bæjarstjóra um það hver raunveruleg staða sveitarfélagsins er.
Með vinsemd og virðingu,
Sigurlaug Anna Jóhannsdóttir
Lækjarkinn 6
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 12.2.2009 kl. 14:25 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.