3.5.2009 | 17:44
Kosningakerfið og misvægi atkvæða
Á Alþingi Íslendinga eru 63 þingmenn, af þeim eru 53 kjördæmakjörnir og 10 uppbótarþingmenn.
Þessir 63 þingmenn skiptast þannig að SV kjördæmi hefur 12 þingmenn, NV 9 þingmenn, RN + RS 11 þingmenn hvort kjördæmi, NA með 10 þingmenn og S kjördæmi hefur 10 þingmenn.
Þingmannafjöldi kjördæmis fer eftir íbúafjölda kjördæmanna. Reglan er þannig að þegar íbúafjöldi eins kjördæmis verður helmingi meiri en íbúafjöldi einhvers annars kjördæmis á kjördegi Alþingiskosninga verður einn þingmaður færður frá því kjördæmi sem færri íbúa hefur til þess kjördæmis sem rúmlega helmingi fleiri íbúa hefur, í næstu Alþingiskosningum.
Það gerðist í síðustu kosningum, 25.apríl, að kjósendur í SV kjördæmi voru alls 58.203 en kjósendur í NV kjördæmi voru 21.294, sem sagt, gott betur en helmingi færri en í SV kjördæmi. Atkvæðið mitt sem kýs í SV kjördæmi er því meira en helmingi (2,05x) minna virði en Örnu og Örvars vina minna í NV kjördæmi.
Fulltrúar Öryggis og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) voru hér á landi til þess að fylgjast með kosningunum. Gerðu þeir athugasemd við ójafnt atkvæðavægi hér á landi.
Haukur Arnþórsson stjórnsýslufræðingur, ég held að hann hafi verið fulltrúum ÖSE innan handar hér á landi, flutti pistil á RÚV um hið ójafna atkvæðavægi, sem Egill Helgason setti á bloggið sitt í gær.
Þar segir Haukur frá því hvaða þingmenn hefðu komist á þing væri atkvæðavægið á landinu jafnt. Stuðst er við útreikninga kosningakerfisins að öðru leyti þ.e. uppbótarþingmannaútreikningnum haldið inni. Þetta er til gamans gert að sjálfsögðu.
Þessir þingmenn hefðu s.s. komist á þing væri atkvæðavægið jafnt á landinu:
Kolbrún Halldórsdóttir, Mörður Árnason, Lúðvík Geirsson, Ólafur Þór Gunnarsson, Helga Sigrún Harðardóttir og Óli Björn Kárason.
Þessir þingmenn hefðu hins vegar þá ekki komist inn:
Unnur Brá Konráðsdóttir, Björn Valur Gíslason, Jónína Rós Guðmundsdóttir, Guðmundur Steingrímsson, Ólína Þorvarðardóttir og Ásmundur Einar Daðason.
Ef atkvæðavægið væri jafnt á Íslandi væru 16 þingmenn í SV kjördæmi, 12 þingmenn í RN og RS, 6 þingmenn í NV, 8 í NA og 9 í S.
Höfuðborgarsvæðið er sem sagt skv. þessum gamansömu pælingum, 6 þingmönnum fátækara og landsbyggðin 6 "stolnum" þingmönnum ríkari.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:56 | Facebook
Athugasemdir
Við á landsbyggðinni þurfum að hafa fl þingmenn hlutfallslega en höfuðborgarsvæðið vegna strábýlis íbúa ,að öllum líkindum yrði ekkert gert á landsbyggðinni og við værum öll komin á mölina eftir örfá ár ef við værum með færri þingmenn og ekki gleyma því að landsbyggðin er að koma með meiri gjaldeyristekjur per íbúa heldur en höfuðborgarsvæðið núna í miðri kreppu,,,nei bara svona gamansöm pæling...k.v
Res (IP-tala skráð) 3.5.2009 kl. 18:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.