Þreytumerki á Samfylkingunni í Hafnarfirði – lýðræðið fótum troðið

Þessi grein birtist í Fjarðarpóstinum 17. september 2009

 

Í síðustu viku bárust fréttir af minnisblaði lögmanns Hafnarfjarðarbæjar þar sem lagt er til að vísa beri frá, erindi hóps fólks, sem hefur undanfarna mánuði safnað undirskriftum vegna áskorunar til bæjarstjórnar  Hafnarfjarðar um að efna til kosninga um stækkun álversins í Straumsvík.  Ástæðan frávísunartillögunar er sögð vera sú, að of langt líður frá því að undirskriftasöfnunin hefst, þar til henni lýkur.  

 

Í samþykkt um stjórn Hafnarfjarðarkaupstaðar nr. 637/2002, 2.mgr. 33.gr., er fjallað um rétt íbúa til að krefjast atkvæðagreiðslu um tiltekið mál ef 25% kosningabærra manna eða fleiri, krefjast atkvæðagreiðslu, beri bæjarstjórn að verða við þeirri kröfu. Lögmenn Hafnarfjarðarbæjar hafa, leiðbeint um framkvæmd undirskriftasöfnunarinnar og hún því farið fram með vitund þeirra.


Hvergi nokkursstaðar í samþykktum um stjórn Hafnarfjarðarkaupstaðar né í málsmeðferðarreglunum bæjarins um almennar atkvæðagreiðslur er að finna reglur um það með hvaða hætti staðið skuli að undirskriftarsöfnuninni, sem þarf til að knýja fram almenna atkvæðagreiðslu hér í bæ. Ákvæðið í samþykkt um stjórn Hafnarfjarðarkaupstaðar sem undirskriftarsöfnunin byggir á, er galopið.   Álit lögmanns Hafnarfjarðar er augljós viðurkenning á veiku regluverki meirihlutans í bæjarstjórn.  Þau undanbrögð meirihlutans sem koma fram í minnisblaðinu um málið, sem kannski er réttara að kalla  töfrabrögð lögmanns Hafnarfjarðar, eru í besta falli furðuleg eftiráskýring.

Hvað sem mönnum kann að finnast um stækkun álversins, hlýtur að vera skýlaus krafa og réttur bæjarbúa að meirihluti bæjarstjórnar fari að reglum bæjarins. 

 

Það væri svo eðlilegt í framhaldinu, að Samfylkinginn í Hafnarfirði  færi í það verkefni að semja regluverk utan um þetta ákvæði í samþykktum um stjórn Hafnarfjarðarkaupstaðar svo íbúar Hafnarfjarðar þekki leikreglurnar sem ætlast er til að þeir fari eftir.

Þetta mál er áfellisdómur yfir lýðræði Samfylkingarinnar í Hafnarfirði.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband