Lýðskrum Samfylkingarinnar

Þessi grein birtist í Fjarðarpóstinum 8. október 2009

 

Í síðasta tölublaði Fjarðarpóstsins gerir Gunnar Axel Axelsson formaður Samfylkingarinnar í Hafnarfirði misheppnaða tilraun til að svara grein minni, sem birtist í Fjarðarpóstinum þ. 17. september sl. Þar fjallaði ég um þá meðferð sem undirskriftalistar, sem hópur manna hefur safnað síðastliðna mánuði, hefur fengið hjá bæjarstjóra og meirihluta Samfylkingarinnar.  Svo virðist sem verið sé að reyna að drepa undirskriftarmálinu á dreif með alls kyns útúrsnúningum. Það sem er merkilegast við svargreinina er, að í henni er ekki minnst einu orði á málsmeðferðina sem undirskriftalistarnir fengu, sem var tilefni skrifa minna.  Hafnfirðingar eru enn engu nær um það hvað meirihluti bæjarstjórnar ætlar sér að gera við undirskriftalistana. Verður kosið aftur í Hafnarfirði um stækkun álversins í Straumsvík?

Lýðræðisást?

Í stað þess að ræða það sem máli skiptir, velur Gunnar Axel að ræða vítt og breitt um lýðræðisást Samfylkingarinnar annarsvegar og Sjálfstæðisflokksins hinsvegar. Svo virðist sem Samfylkingin eigi einkarétt á íbúalýðræðinu enda hafi hún staðið sig svo frábærlega í því hingað til en Sjálfstæðisflokkurinn ekki. Gunnar Axel veit jafn vel og ég að það var í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga 2002 að hugtakið íbúalýðræði varð að kosningamáli og komst í almenna notkun á Íslandi.  Á þessum tíma voru að spretta upp deilur víða í sveitarfélögum þar sem íbúar gerðu auknar kröfur um þátttöku í ákvarðanatöku í sínu nærumhverfi. Samfylkingin tók málið upp og hefur samið langar ályktanir um íbúalýðræði og sett í samþykktir um stjórn bæði Reykjavíkurborgar og Hafnarfjarðarkaupstaðar reglur um almennar atkvæðagreiðslur. Ákvæðið í samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar sem sett var í kring um flugvallarkosninguna er með því vitlausara sem sést hefur, það er gríðarlega ítarlega skilgreint og getur ekki náð yfir neitt mál nema flugvallarmálið. Ákvæðið í samþykkt um stjórn Hafnarfjarðarkaupstaðar er ögn skárra en það er hins vegar svo galopið að Hafnfirðingar geta, samkvæmt því, kosið um allt sem þeim dettur í hug, þegar þeim dettur það í hug, svo lengi sem þeir fá 25% atkvæðisbærra manna til að skrifa nafn sitt á undirskriftalista.

Það er ekki sama hvernig farið er með lýðræðið, það er flókið og margslungið og það er full ástæða til að vanda til verka þegar bjóða á íbúum til þátttöku.  Lýðræði getur nefnilega snúist upp í andhverfu sína, sé ekki vandlega með það farið.

Íbúalýðræði Sjálfstæðisflokksins

Ég get nefnt mörg vel heppnuð dæmi um íbúalýðræði Sjálfstæðisflokksins. Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarstjóri, gerir nú nýstárlega tilraun til að leyfa borgarbúum að taka þátt í forgangsröðun vegna framkvæmda í sínum hverfum sem lið í fjárhagsáætlunargerð borgarinnar. Haldin var almenn atkvæðagreiðsla á Seltjarnarnesi um deiliskipulag nýs miðbæjar við Hrólfsskálamel árið 2005.  Árni Sigfússon er í mjög góðu samstarfi í Reykjanesbæ við íbúa í sveitarfélaginu með ýmis konar fundum og samráði þar sem allar fundargerðir eru opnar á heimasíðu bæjarins milli ára.

Afstaða og ábyrgð

Kjörnir fulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa hvergi færst undan ábyrgð á þeim málum sem upp hafa komið hverju sinni.  Ákvörðunarfælni Samfylkingarinnar í álversmálinu og mörgum fleiri málum er hins vegar að verða til þess að kafkeyra Hafnarfjarðarbæ fjárhagslega.  Ábyrgð Samfylkingarinnar er mikil!

 

Sigurlaug Anna Jóhannsdóttir

formaður Fram, Sjálfstæðisfélags Hafnarfjarðar.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Örvar Már Marteinsson

Og hananú!

Örvar Már Marteinsson, 8.10.2009 kl. 23:01

2 identicon

Ég ætla að mótmæla því harðlega að Árni og Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjanesbæ sé í mjög góðu samstarfi við íbúa í sveitarfélaginu með ýmis konar fundum. Það fær einginn að tala á þessum fundum sem ekki er sammála meirihluta bæjarstjórnar. Og íbúar fá svo sannarlega ekki að leggja orð í belg. Þetta eru kynningarfundir þar sem "rétt" skoðun er kynnt og engin tími gefinn til mótmæla.

Hilmar Kristinsson (IP-tala skráð) 9.10.2009 kl. 00:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband