170 skóladagar barna á ári

Ef það eru að meðaltali 23 virkir dagar í hverjum  mánuði eru u.þ.b. 276 virkir dagar á ári.  Ef börnin mín eru í skólanum 170 daga á ári skilur það eftir sig 106 virka daga á ári sem börnin mín eru ekki í skólanum.  Af þessum 106 hef ég svona ca. 24 daga í sumarleyfi sem við getum verið saman og pabbi þeirra annað eins.  Það eru þá 48 dagar sem við getum verið með börnunum okkar en þá erum við aldrei öll saman í fríi.  Látum það eiga sig í bili.  Eftir standa enn 58 dagar sem enn er óráðstafað fyrir börnin og ef við reiknum aftur með því að það séu ca. 23 virkir dagar í mánuði eru það u.þ.b. 2 og hálfur mánuður sem er óráðstafað af tíma barnanna.  Þó dætur mínar séu sjálfstæðar og duglegar og una sér ágætlega saman er þetta ástand langt frá því að vera ákjósanlegt fyrir börnin.  Og alveg örugglega ekki fyrir foreldrana, en látum það líka eiga sig í bili.

Einhverja daga á sumrin geta þær verið á námskeiðum en oftast eru þau námskeið annaðhvort fyrir hádegi eða eftir hádegi og foreldrar jafnvel ekki nálægt til að fara með eða taka á móti börnunum.  Álagið sem þessu fylgir fyrir foreldra með tilheyrandi stressi, reddingum og samviskubiti bitnar ekki síst á börnunum og hefur auk þess mjög keðjuverkandi áhrif út í samfélagið.

 Kennarar vinna flestir hverjir frábært starf og eiga allt gott skilið.  Þeir eru margir ósáttir með kjör sín og get ég út af fyrir sig skilið þá.  Foreldrar eru margir hverjir ósáttir með það ástand sem ég lýsti hér á undan. 

Ég leyfi mér að halda því fram að gjá hafi myndast á milli kennara og stjórnvalda annarsvegar og foreldra hins vegar.  Það er vont fyrir börnin okkar að kennarar séu ósáttir með kjör sín og að foreldrar þeirra nái ekki að ráðstafa skipulagi fjölskyldunnar þannig að það gangi upp og allir sæmilega sáttir og öruggir. 

 Ef á að nást sæmileg sátt um þessi mál verða kennarar og stjórnvöld að semja um vinnutíma og kjör kennara þannig að einhver heilsteypt lausn finnist á málinu fjölskyldum landsins til heilla.


mbl.is Tveir grunnskólar með færri skóladaga en 170
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Lítur þú á grunnskólann sem vistunarúrræði umfram annað?

Hvað er í forgangi á heimilinu?

Ætti ég að vorkenna þér að vera svona bundin yfir börnunum?

Valdimar Gunnarsson (IP-tala skráð) 1.10.2007 kl. 10:12

2 identicon

Er sammála þér Sigurlaug, þar sem ég er móðir tveggja barna og veit hvað þetta er mikið púsluspil með blessuðu börnin okkar og frítíma. Við eru jú bundin vinnu og getum ekki tekið endalaust frí fyrir alla þessa skipulagsdaga, úrvinnsludaga og öllum nöfnum sem þeir heita.  Við vitum alveg að skólinn er enginn barnapía, en það er skólaskylda og við berum skyldu gagnvart okkar vinnustað. Einhv. staðar myndast gjá þarna sem þarf að laga.

Viss um að þessi Valdimar þarf ekki að hugsa út í þessa hluti eða hvað ?

M (IP-tala skráð) 1.10.2007 kl. 10:39

3 Smámynd: Sigurlaug Anna Jóhannsdóttir

Gaman að fá svona viðbrögð við þessu, líka frá Valdimar!  Ég nenni nú ekki að fara út í umræðu um gerð samfélagsins sem við búum í, ég held að allir þekki hana.  Ég lít á grunnskólann sem vinnustað barnanna minna.   Þegar börnin mín voru frá 2-5 ára stóð okkur til boða leikskólapláss allann daginn.  Ég spyr þá á móti, meiga foreldrar bara vinna á meðan börnin eru 2-5 ára en ekki meðan þau eru 6-16 ára?

Sigurlaug Anna Jóhannsdóttir, 1.10.2007 kl. 11:21

4 identicon

Þetta er fróðleg jafnvel merkileg umræða sérlega þegar ljóst er að skv. samkomulagi við kennarastéttina og lögum um grunnskóla http://www.althingi.is/lagas/133b/1995066.html eru flestir grunnskólar með 180 nemendadaga. Þetta getur hvert foreldri séð á svokölluðu -skóladagatali- skólans og þarf m.a. blessun foreldraráða. Spurningin er ekki fjölda k-stunda eða fjölda nemendadaga. Ég er eigindasinni en ekki meigindasinni. Það þýðir á mannamáli að ég lít frekar á gæði eða magn kennslunnar. Valdimar Gunnarsson (menntaskólakennari?) var frekar snefsinn vafalaust vegna þess að í síðasta verkfalli grunnskólakennara hófu mörg fyrirtæki barnagæslu daginn áður en verkfallið skall á. Margir sáu það sem vandamál að börnin væru í reiðuleysi.
Nú hefur bæst við svokölluð skólavistun en þangað geta börn farið eftir skólatíma. Draumur minn er að á einum stað sé byggt leik-grunnskóli ásamt dvalarheimili fyrir eldri borgara.

Gjáin sem talað er um milli kennara og sveitarfélaga er að verða að úthafi því miður og óveðursskýin hrannast upp. Þar sýnist mér að stríðsöxi framhaldsskólakennara verði fyrst grafin úr jörðu.

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 1.10.2007 kl. 11:59

5 identicon

Ég verð að vera sammála Valdimari. Er það hlutverk skólans að sjá um að hafa ofan af fyrir börnum? Sjálf á ég barn á skólaaldri og geri mér grein fyrir að þetta getur verið púsluspil en við vitum líka öll að börn hafa ekki úthald í að sitja á skólabekk nánast allt árið um kring. Verðum líka að huga að því að þau verða að hafa tíma til að leika sér til að dafna og líða vel en þá komum við að því að hlutverk skólans er að mennta börn ekki halda úti skemmtidagskrá þótt nám eigi auðvitað að vera skemmtilegt.

Hugrún Sif (IP-tala skráð) 1.10.2007 kl. 12:55

6 identicon

.. og svo ég haldi áfram :) Gleymdi smá. Þá er ég nú samt innilega sammála að þarna er jú gjá sem þarf á einhvern hátt að leysa því ekki rekuð heimilið sig sjálft og ekki lætur maður 6. ára börn vera ein heima hjá sér en ég held að lausnin felist bara ekki í lengra skólastarfi. Flest börn eru orðin dauðþreytt á því á vorin og frelsinu fegin og ansi hætt við að þau fá algjört ógeð sem skilar sér bara með verri námsárangri að mínu mati.

Hugrún Sif (IP-tala skráð) 1.10.2007 kl. 12:58

7 identicon

Ég held að það sé aðeins verið rugla saman kennslu og gæslu. Ég held að enginn ætlist til að börnin okkar fái kennslu allan þann tíma sem við foreldrarnir eru í vinnu, og hefur þetta ástand því ekki eingöngu með vinnutíma kennara að gera. Ég held að við séum flest sammála um að börnin okkar þurfa öruggan stað að vera á (ekki Brimborg) á meðan foreldrar vinna fyrir þörfum þeirra og sínum eigin. Við vitum að íslenskt samfélag gerir að mestu ráð fyrir tveimur fyrirvinnum, og óþarfi að stinga höfðinu í sandinn með það og óska okkur 50 ára aftur í tímann. Það er ekki þar með sagt að kennarar eigi að sjá um börnin allan þann tíma, heldur þarf að finna heildstæða lausn þar sem hluti dagsins fer í kennslu og hluti dagsins fer í leik og tómstundir. Auðvitað er best að skólinn - í víðtækri merkingu þess orðs - sjái um það starf, þar er húsnæðið vissulega staðar og alveg hægt að leika sér þar eins og að læra. Sagði ekki einhver að það væri leikur að læra?  En ég ítreka að það er ekki endilega hlutverk kennaranna að sinna því. Gísli segir "Nú hefur bæst við svokölluð skólavistun og þangað geta börn farið eftir skólatíma." Nú veit ég ekki hversu vel Gísli hefur fylgst með fréttaflutningi haustsins, en ég held að flestum sé ljóst að það eru aldeilis ekki öll börn sem geta farið í skólavistun eftir skólatíma. Það er einfaldlega ekki nógu mikið af starfsfólki þar. Getur verið að vandinn liggi kannski að hluta til þarna en ekki í vinnutíma kennara? Hitt er aftur á móti einkennilegt, að kennurum hættir alltaf til að fara í vörn þegar minnst er á vinnutíma þeirra í sömu andrá og gæslu barna - væri ekki ráð að þeir sameinuðust foreldrum í því að berjast fyrir heildstæðum "vinnudegi" barnanna, og þeir fengju þá kannski frið til að sinna því sem þeir gera best - sem er að kenna börnunum ýmsa nytsamlega hluti?

Kristín (IP-tala skráð) 1.10.2007 kl. 13:15

8 Smámynd: Sigurlaug Anna Jóhannsdóttir

Ég þakka góð innlegg í umræðuna.  Ég fæ ekki séð af hverju íslensk börn eru þreyttari og þyrsta meira í að komast í frí á vorin en t.d. börn í Danmörku þar sem er 6 vikna sumarfrí??  Þá er ekki þar með sagt að það þurfi að vera kennsla með hefðbundnum hætti alla dagana en einhverskonar fræðsla og þroskandi starf sem getur verið margskonar.

Sigurlaug Anna Jóhannsdóttir, 1.10.2007 kl. 14:07

9 identicon

Jú vissulega fá börn í Danmörku einungis 6 vikna sumarfrí en það má ekki gleyma að þau fá líka efterarsferie á haustin og vinterferie i febrúar, vika í senn, auk þess sem þau fá þetta sígilda páska og jólafrí eins og íslensk börn þannig að það er ekki alveg rétt að segja að þau séu mun meira í skóla en íslensk börn ;) 

Hugrún Sif (IP-tala skráð) 1.10.2007 kl. 17:34

10 identicon

Lögboðnir kennsludagar í grunnskóla eru 180 á ári en ekki 170. Auk þess ættir þú að telja betur virku dagana sem eftir eru. Samkvæmt mínum kokkabókum eru 365 dagar í árinu. Af þeim fara 104 í helgarnar. Þá eru eftir 261 dagar. Skóladagarnir eru 180 af þeim. Þá eru eftir 79 dagar. Eftir er að telja aðra lögboðna helgidaga sem lenda utan hefðbundinna laugar og sunnudaga. Nema skólinn ætti að sjá um börnin á þeim dögum, kannski væri mun meiri friður heima við á hátíðum ef börnin væru í skólanum.

Það má alltaf deila um hversu langan tíma börn eru í skólanum. Ég held þó að flest skólafólk sé sammála um að börnin séu búin að fá meira en nóg í lok skólaárs og spurning í hverra þágu enn meiri viðbót væri. En í svona umræðu verður allavega að gera þá kröfu til fólks að fara með réttar staðreyndir.

Guðríður (IP-tala skráð) 2.10.2007 kl. 17:24

11 Smámynd: Laufey Eyþórsdóttir

Mér datt í hug að leggja saman dagana þar sem mér fannst undarlega reiknað. Eftir að hafa tekið dagana í árinu, mínusað frá helgarnar, helgidaga og frídaga voru eftir 69 virkir dagar á ári sem foreldrar þurfa að dekka (70 á hlaupári). Ef síðan eru teknir frá þeir 48 dagar sem um ræðir ef foreldrar taka sér ekki frí á saman tíma (auðvitað telja flestir það æskilegt að fjölskyldan eyði einhverjum tíma saman í fríi og því er ég mjög sammála) standa eftir 21 dagur, virkir dagar í samtals þremur vikum.

Persónulega finnst mér að fólk eigi að geta eytt tíma með börnunum sínum, í minni æsku komu frændur okkar og frænkur í pössun til okkar í einhvern tíma, svo fóru fjölskyldurnar saman í sumarfrí og að því loknu vorum ég og bróðir minn í pössun hjá frænku okkar. Eins eyddum við tíma hjá afa og ömmu en eftir stóðu tímar þar sem við fengum að vera frjáls til að leika okkur með vinum okkar, fara niður í fjöru í landamæraparís, út að hjóla, í sund eða í berjamó upp í fjall. Stundum röltum við líka niður á bryggju og veiddum mannsa. Við vissum að við gætum leitað til foreldra okkar í vinnunni, fólks sem við þekktum eða jafnvel til lögreglunnar ef eitthvað bjátaði á. Þessi frjálsi tími var mér mjög verðmætur og ég er fegin að sonur minn hafi líka notið þess að vera álíka frjáls stóran hluta æskunnar.

Ég vona að lífsgæðakapphlaupið og ósveigjanleiki þeirra fullorðnu (hér er ég að tala um samfélagið í heild, ekki bara foreldrana) verði ekki til þess að börnin fái að finna að þau séu baggi, óþægileg fyrirhöfn sem þarf að koma eitthvert í pössun svo þau trufli ekki gang samfélagsins, og að í slíkri pössun séu þau bundin við enn eina stundatöfluna og sjálfstæðið tekið frá þeim. Þau þurfa frelsi og ábyrgð til þess að geta þroskast sem manneskjur, ekki endalausa gæslu og stýringu. Hananú sagði hænan :-)

Laufey Eyþórsdóttir, grunnskólakennari á Ísafirði

Laufey Eyþórsdóttir, 8.10.2007 kl. 12:21

12 Smámynd: Laufey Eyþórsdóttir

Það er alveg kostulegt hvað maður getur verið fljótur á sér. Ég skrifaði ...eftir standa eftir 21 dagur, virkir dagar í samtals þremur vikum. Auðvitað eru þetta fleiri virkar vikur, alls fjórar vikur og tveir dagar að auki.

Ég vildi bara leiðrétta þessa klaufavillu hjá mér.

 Laufey Eyþórsdóttir

Laufey Eyþórsdóttir, 9.10.2007 kl. 16:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband