Hver á að borga? grein birt í Fjarðarpóstinum í dag.

Svona til að hafa eitthvað líf á þessari síðu minni ákvað ég að setja hér inn grein sem birtist eftir mig í Fjarðarpóstinum í dag.  Hún hefur titilinn Hver á að borga? og undirtitilinn: Eru skólastjórnendur í grunnskólum Hafnarfjarðar að brjóta lög?

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í Reykjavík lögðu fram svohljóðandi tillögu í Menntaráði þann 1.október sl.:”Samkvæmt 33. gr. Grunnskólalaga nr. 6/1995 með áorðnum breytingum er óheimilt að taka gjald af nemendum vegna ferðalaga sem flokkast undir vettvangsnám eða eru að öðru leyti hluti af skyldunámi nemenda. Menntaráð felur fræðslustjóra að ítreka við skólastjórnendur í Reykjavík þetta ákvæði laganna. Fræðslustjóra er jafnframt falið að gera ráð fyrir auknum kostnaði skólanna vegna þessa í fjárhagsáætlun næsta árs.”

Svona tók fyrrverandi meirihluti Sjálfstæðismanna og Framsóknarmanna á þessum málum í Reykjavík.  Hvað sem mönnum kann að finnast um umrædd lög þá eru lög til þess að fara eftir þeim.   Engin breyting hefur verið á því gjaldi sem foreldrar hafa verið rukkaðir um vegna ferðalaga barna sinna í Hafnarfirði svo það má ljóst vera að ekki er farið að þessum lögum hér í bæ.  Foreldrafélög í mörgum skólum ræddu þessi mál í haust,  skólastjórnendur í Hafnarfirði ræddu þessi mál og fundað var með fræðsluyfirvöldum Hafnarfjarðar.  Niðurstaðan er augljóslega engin.  Af fundargerðum Fræðsluráðs Hafnarfjarðar að dæma hefur verið fjallað um málið en meira hefur ekki verið gert.  Hvernig er það með meirihlutann í Hafnarfirði, hefur hann enga afstöðu í þessu máli?

Ekki þykir mér skólastjórnendur í Hafnarfirði í eftirsóknarverðri stöðu þessa dagana.  Samkvæmt mínum skilningi eru lög brotin á foreldrum og börnum Hafnarfjarðar á meðan ástandið er svona.  Mig langar að fá svör við því hvort Bæjarstjórn Hafnarfjarðar hefur ekki hugsað sér að aðhafast neitt í málinu.  Best væri að fá svör frá þeim beint en ég bíð að minnsta kosti spennt eftir fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarbæjar fyrir árið 2008.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband