6.5.2008 | 13:50
Bankarnir
Nú segja spekingar að allt sé farið og á leið enn lengra fjandans til. Gott og vel. Maður verður víst bara að taka því sem komið er og koma skal. Nema maður geti keypt sér eyðieyju og verið þar í friði eða sagt sig úr samfélaginu....
Mér finnst nú eiginlega bara skrítnast að þetta ástand sé ekki skollið á fyrir lifandis löngu síðan. Íslendingar hafa margir hverjir hagað sér eins og fáráðlingar haldandi það að hægt sé að eyða árslaununum 30-40 ár fram í tímann eins og staðan í dag breytist ekki öðruvísi en að batna.
Það er eins og samfélagið hafi misst vitið og gleymt algerlega því sem raunverulega skiptir máli.
Ábyrgð bankanna er mér hugleikin um þessar mundir. Þeir bera sig margir hverjir illa núna og stundum fer umræðan út í það að ríkið eigi að kaupa bankana aftur eða kalla þá inn og þjóðnýta þá eða jafnvel að ríkið þurfi að koma til móts við þá með einhverjum hætti. Bankarnir eru jú allir með ríkisábyrgð svo þetta er nú okkar sameiginlega mál þegar upp er staðið. Annars ætla ég ekki að þykjast vita allt um þetta, því fer fjarri.
Ég er til hægri í pólitík sem þýðir það t.d. að ég aðhyllist einkaframtak umfram ríkisrekstur og að lögmál markaðarins eigi að ráða. Það er hins vegar langur vegur í það að ég aðhyllist einhvers konar frjálshyggju, ég hef nú eiginlega andúð á henni í sinni hreinustu mynd. Það má kannski kalla mig íhaldssaman kapítalista.
Þróunin sem hefur verið á íslenskum fjármálamörkuðum undanfarin ár hefur verið frekar skrítin rússíbanareið fyrir venjulegt fólk. Þegar rússíbanareiðin hófst var ég nýflutt heim úr Danaveldi þar sem dálítið önnur hugsun ríkir.
Þar fær maður ekki lánaðan pening í bankanum nema tiltaka hvenær maður ætlar að borga hann til baka og þetta gildir líka um yfirdráttarheimildir. Þá þýðir heldur ekkert að koma með óraunhæfar áætlanir um endurgreiðslugetu sína því bankinn biður þig að taka saman hvað þú ert með í laun og hvað þú þarft að borga í húsnæði, bíl, samgöngur, föt, skemmtanir, síma, ferðalög osfrv. osfrv. Það lá við að þeir vildu vita hvað ég héldi mörg matarboð á mánuði og hvaða skónúmer ég nota.
Fyrst fannst mér þetta frekar klikkað en eftir á að hyggja er ekkert siðferði í því að lána fólki pening sem alveg er vitað að getur ekki borgað hann til baka. Á Íslandi er lánum dinglað framan í fólk og látið líta svo út að um kostaboð sé að ræða og að hlutirnir sem þú getur fengið á þessum kostakjörum séu þér alveg bráðnauðsynlegir fyrir þig.
Mér finnst mest heillandi tilhugsun um skynsaman almenning sem eyðir ekki umfram það sem hann þénar og hefur frelsi til að taka lán á sínum forsendum þegar hann þarf á að halda. Ég er bara ekki viss um að Íslendingar hafi þroska til þess. Því miður. Þarna held ég að rót efnahagsvandans liggi sem við stöndum frammi fyrir nú.
Bankarnir okkar eru orðnar siðlausar gróðavélar sem bjóða okkur himinhá þjónustgjöld og heimsins hæstu vexti. Eina vopnið gegn þessu er skynsamur almenningur.
Neyslubrjálæðinu verður að ljúka.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.