sveitabarnið í borginni

Dóttir mín sem fermdist í vor fékk því framgengt í haust að fá að sækja danstíma í Reykjavík 2x í viku í vetur ásamt vinkonu sinni.  Samningaviðræðurnar fóru þannig fram að þetta væri besta dansstúdíóið og besti danskennarinn og hún ætlaði að taka strætó og ég þyrfti ekkert að hafa áhyggjur af þessuUndecided.

Ég lét til leiðast, minnug þess að ég gerði slíkt hið sama þegar ég var 14-15 ára og hefur þetta gengið ágætlega.

Strætóferðirnar hafa verið henni mjög lærdómsríkar en mig hefði ekki grunað að dóttir mín, sem annars er duglegur námsmaður, væri jafn "vitlaus" á Reykjavík og raun ber vitni.  Þegar ég velti þessu fyrir mér, er svosem ekkert skrýtið að hún þekki hvorki haus né sporð af miðbæ Reykjavíkur því hún fer þangað aldrei.

Síðasta vetur þurfti ég að sækja bílinn minn í Reykjavík og í stað þess að fá far ákvað ég að gera ferðalag úr þessu, tók dætur mínar með og við fórum í strætó.  Það var skemmtilegasta ferð.  Ég var ekki með nefið ofan í umferðinni á leiðinni og gat bent stelpunum á hitt og þetta sem fyrir augum varð.  Ég benti þeim á Listasafn Íslands, Háskóla Íslands, Þjóðmenningarhúsið, MR, Héraðsdóm, Iðnó, Ráðhúsið, Stjórnarráðið, Lækjartorg, Hlemm, Seðlabankann og ýmislegt annað gáfulegt.  Eftir þessa ferð hélt ég að unglingurinn minn þekkti svona þetta helsta.

Fyrir hálfum mánuði var skvísan á leiðinni ein á dansæfingu því vinkonan var vant við látin.  Þegar æfingin átti að vera byrjuð hringir hún í mig grátandi, örvæntingarfull skipar hún  mér að koma að sækja sig STRAX því hún sé á HLEMMI og þar séu bara útlendingar, skrítið fólk og dópistar og ég VERÐI að koma STRAX.  Þegar mér hafði tekist að róa hana niður komst ég að því að það hefði verið svo mikil móða í strætó og búið að líma auglýsingar fyrir alla gluggana að hún hafi bara ekkert séð út og farið framhjá stoppistöðinni sem hún átti að fara út á og "lent" á hlemmi....  Strætisvagnabílstjórinn var útlendingur og skildi hana ekki og gat ekki leiðbeint henni.  Afgreiðslukonan á hlemmi var líka útlendingur og þær skildu ekki hvor aðra.  Þetta drama endaði með því að ég leiðbeindi henni um það hvernig maður kemst leiðar sinnar með því að fara á straeto.is á netinu.

Nokkrum dögum síðar var sama dóttir mín í strætó á leiðinni til mín niður í Háskóla.  Ég var búin að biðja hana að láta mig vita þegar hún nálgaðist leiðarenda og hringdi hún í mig við Miklatún og sagðist ætla út á næstu stoppistöð.  Nú... sagði ég en þú átt eftir að fara framhjá Landspítalanum og Tjörninni...   Ha sagði barnið??  Hvaða Tjörn???

Ég er búin að komast að þeirri niðurstöðu að dóttir mín er jafn læs á Reykjavík og barn frá Neskaupstað sem aldrei kemur í bæinn.Crying


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

hahaha alveg yndislegt! Þú þarft að taka nokkra strætórúnta með unglinginn svo hún nái þessu nú :) Gleðileg jól mín kæra og vonandi hefurðu haft það gott yfir hátíðirnar

Ásdís (IP-tala skráð) 26.12.2008 kl. 01:15

2 Smámynd: Sigurlaug Anna Jóhannsdóttir

Takk skvísa og sömuleiðis, vona að þið mæðgur hafið það sem best yfir hátíðarnar og sjáumt hressar á nýju ári.

Sigurlaug Anna Jóhannsdóttir, 30.12.2008 kl. 19:42

3 Smámynd: Helena Mjöll Jóhannsdóttir

Sæl frænka! Og gleðilegt árið, takk fyrir jólakveðjuna, ég verð að viðurkenna að mín kveðja til þín er enn í veskinu mínu, ætli ég sé ekki búin að keyra hundrað sinnum framhjá...... Já, já en þú færð hana. En þetta með að rata ekki og vera útlendingur í Víkinni er ekkert nýtt, nú kann ég á borgina eins og lófann á mér, en ég man þá tíð þegar ég og tvíburasystir mín stóðum á við Brauðbæ og spurðum hvar Barónstígur væri og manneskjan sem við vorum að tala við var svo misboðið að hún gekk í burtu, en þetta var sko alls ekkert grín hjá okkur 15 ára gömlum og ég í fyrsta skiptið í höfuðborginni. Verra er nú samt að börnin okkar fái ekki hjálp vegna tungumálaörðugleika.... Knús Helena Mjöll;)

Helena Mjöll Jóhannsdóttir, 5.1.2009 kl. 13:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband