15.1.2009 | 15:45
Evrópuumræða Sjálfstæðisflokksins
Birt í Fjarðarpóstinum 15. janúar 2009
Með Evrópuumræðu Sjálfstæðisflokksins, stendur yfir einhver umfangsmesta og lýðræðislegasta umræða sem farið hefur fram í jafn stórum félagasamtökum á Íslandi. Óskað er eftir þátttöku og samráði sem flestra og hafa undirtektirnar verið gríðarlega góðar. Grasrótin í Sjálfstæðisflokknum hefur sýnt það og sannað að hún er öflugri en nokkru sinni fyrr.
Evrópunefnd Sjálfstæðisflokksins, sem hóf formlega starf sitt þ. 12.desember sl., hefur haldið undirbúningsfundi í 7 undirnefndum um stöðu Íslands gagnvart Evrópusambandinu, ríkjum Evrópu og valkostum Íslands í alþjóðasamstarfinu. Nefndin heldur úti mjög öflugri heimasíðu á www.evropunefnd.is þar sem allir geta fræðst og spurst fyrir. Nú er hafin fundarherferð Evrópunefndarinnar en haldnir verða 28 opnir fundir víðsvegar um landið. Kristján Þór Júlíusson formaður nefndarinnar kom hingað í Hafnarfjörð sl. sunnudag og kynnti starf nefndarinnar, svaraði fyrirspurnum og skrifaði hjá sér ábendingar fundargesta.
Nefndin mun skila af sér skýrslu til landsfundar sem fram fer dagana 29. jan. 1. feb. nk., en fundurinn mun á grundvelli þeirrar skýrslu meta hvort framtíð Íslands sé betur borgið innan Evrópusambandsins en utan þess.
Næstu tvö fimmtudagskvöld verða fundir á vegum Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfirði og verða þeir öllum opnir. Í kvöld, fimmtudaginn 15.janúar, verður stutt og almenn söguleg yfirferð yfir þróun Evrópusambandsins auk þess sem Halldór Halldórsson formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga mun fjalla um stöðu sveitarfélaganna og áhrif inngöngu Íslands í ESB á sveitarfélögin. Fimmtudaginn 22. janúar munu fulltrúar útgerðarmanna og landbúnaðarins kynna og fara yfir sjónarmið þessara tveggja grunnatvinnuvega á Íslandi.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.