Flott kona í 3. sæti

Ég get ekki annað en óskað NV kjördæmi til hamingju með þessa glæsilegu fulltrúa á lista Samfylkingarinnar.  Við Arna Lára höfum þekkst síðan við bjuggum saman í Kaupmannahöfn í 2 ár árin 2002 - 2004.  Þarna fer dugleg og greind kona sem ég ber virðingu fyrir.  Ég hef fulla trú á að hún muni starfa af heilindum fyrir kjördæmið allt.

Nú er pressa á mínu fólki í Sjálfstæðisflokknum að raða upp flottum lista í kjördæminu.  Án kvenna getur Sjálfstæðisflokkurinn ekki verið trúverður í því endurreisnarstarfi sem nú er framundan.  Það er alveg ljóst.  Það eru 4 mjög frambærilegar konur í framboði fyrir NV kjördæmi og skora ég á flokksmenn mína að tryggja amk. einni þeirra öruggt þingsæti, helst 2Wink


mbl.is Guðbjartur efstur - Ólína í 2. sæti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Raunveruleikinn er sár

Það er alveg sama hvernig Samfylkingin í Hafnarfirði reynir að halda því fram að þessar sundlaugarframkvæmdir hafi verið innan ramma og eðlilega að málum staðið, það er ekki það sem gagnrýnin snýst um. Það sér það hver heilvita maður að þetta voru fullkomlega óraunhæfir draumórar frá upphafi! 

Það voru 2 almenningssundlaugar í Hafnarfirði fyrir og amk 1 skólasundlaug í viðbót. Þessi sundlaugarfjöldi dugar Kópavogsbúum þrátt fyrir að þeir séu fleiri en Hafnfirðingar.  Í Hafnarfirði búa ca. 25.000 manns en í Kópavogi ca. 30.000 manns.

Ég leyfi mér að efast um að raunverulegur kostnaður við þessa sundlaug verði 1,8 milljarður þegar upp verður staðið með vaxtakostnaði og öllu tilheyrandi.  Framkvæmdum við laugina er ekki lokið og því ekki útséð með kostnaðinn sama hvað Gunnar Svavarsson segir.  Svo virðist Gunnar ekki hafa neinn áhuga á að ræða rekstrarkostnað laugarinnar.

Málið snýst ekki um nauðsyn og skynsemi þess að byggja upp í kring um íþróttaiðkun almennings og skólabarna, heldur um umfangið og kostnaðinn við leiðina sem valin var.  Þurfti þetta að vera svona ofboðslega stórt og dýrt??  Það er það sem ég skil ekki!

Það hefði verið hægt að ná sama markmiði með miklu minni tilkostnaði.  Hlutirnir verða að skoðast í því samhengi að geta sveitarfélagsins til þess að fjármagna þetta risavaxna verkefni var engin.  Þetta voru fullkomlega óraunhæfir draumórar!  Enn eitt dæmið um sorglegt bruðl Samfylkingarinnar í Hafnarfirði með skattpeninga almennings.


mbl.is Laugin kostar 1,8 milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allt í loft upp

Hvaða vitræna fyrirkomulag getur komið út úr öllum þessum pælingum um breytingar?

Eftir því sem mér sýnist, stendur vilji til þess að breyta stjórnarskrá fyrir kosningar núna.  Eftir kosningar á að setja á fót stjórnlagaþing sem hefur það hlutverk að semja nýja stjórnarskrá.  Samkvæmt þessari frétt á að breyta kosningalögum og opna á að flokkar ráði því hvort þeir bjóði upp á persónukjör.

Sumir tala um að þingræðið hafi ekki gefist okkur vel og horfa hýru auga til Bandaríkjanna þar sem forsetaræði er og það telja einhverjir lýðræðislegra en þingræðið sem við búum við á Íslandi.

 Mergur málsins er að stjórnarfar ríkja er ekki eins og sælgætisbar í matvöruverslun þar sem hægt er að tína út svona kúlur og svona lakkrís og búið til þinn eigin kokteil.

Það er ástæðulaust að láta kerfið verða svo mikla hlussu að enginn geti haggað við því en þegar um slíkar grunnreglur samfélaga er rætt ber að nálgast málið af varfærni og virðingu.

Ég er ekki viss um að núverandi ríkisstjórn hafi stjórn á hraðlestinni sem hún stýrir, mér sýnist hún komna með allt of stóran farm um borð og allt of marga farþega.  Það kann ekki góðri lukku að stýra.


mbl.is Von á frumvarpi um kosningalög
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjálfstæðisflokkurinn og konur

Það er ekki á hverjum degi sem konur gefa kost á sér sem oddvita á lista Sjálfstæðisflokksins fyrir alþingiskosningar.  Þess vegna er það ánægjulegt að sjá að Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir, sveitarstjóri á Tálknafirði,  býður sig fram í fyrsta sætið á lista sjálfstæðismanna í NV kjördæmi.  Eftir því sem ég kemst næst er hörku klár og dugleg kona hér á ferðinni sem nýtur virðingar í sínu kjördæmi.   Vonandi nær hún takmarki sínu í þessu annars karllæga kjördæmi.  Fyrir alþingiskosningarnar 2003 gekk framboðslisti sjálfstæðismanna í þessu kjördæmi undir nafninu fimmkallinn.....

 Í SV kjördæmi gefur sitjandi oddviti, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir áfram kost á sér en svo sá ég frétt um það að Ragnheiður Elín Árnadóttir er að íhuga framboð í S kjördæmi.  Þetta finnst mér hljóma sem frábær kostur fyrir Ragnheiði, kjördæmið og flokkinn.  Flott kona þar á ferð.

 Óska ég þessum konum alls hins besta í baráttunni framundan.


Opið bréf til bæjarstjóra Hafnarfjarðar

birtist í Fjarðarpóstinum á morgun 12. febrúar 2009

Hafnarfjörður 11. febrúar 2009

Opið bréf til bæjarstjóra

Virðulegi bæjarstjóri, 

mig langar til að óska eftir upplýsingum um fjárhagslega stöðu Hafnarfjarðarbæjar og mig langar að biðja þig um svör á mannamáli sem venjulegt fólk í Hafnarfirði skilur.  Til að hafa öll spil á borðinu þá er ég í stjórn Sjálfstæðisfélags Hafnarfjarðar en í raun er þetta bréf sent frá íbúa í Hafnarfirði til bæjarstjóra allra bæjarbúa í Hafnarfirði. 

Almenningur á Íslandi hefur áhyggjur af stöðu mála í ríkisbúskapnum, hefur enda ærna ástæðu til og óskar eftir skýrum svörum frá stjórnvöldum.

Sveitarfélögin og staða þeirra hafa ekki fengið mikið pláss í umfjöllun fjölmiðla undanfarna mánuði.  Engu að síður er það þannig, að það efnahagsástand sem nú blasir við mun koma sér verulega illa fyrir flest sveitarfélög á Íslandi.  Þó verr fyrir sum sveitarfélög en önnur.  Það segir sig kannski sjálft að þau sveitarélög sem voru enn á fullri keyrslu þegar bankahrunið varð, verða verr úti en önnur.

Fréttir berast af miklum lántökum hjá Hafnarfjarðarbæ og mér sýnist þau lán vera á afar vondum kjörum svo ekki sé dýpra í árina tekið.  Það hlýtur að vera án fordæma að Hafnarfjörður hafi þurft að veðsetja eignir bæjarins fyrir lánum sem eru að auki verðtryggð og með háum vöxtum.  Þetta umrædda lán var tekið í síðasta mánuði en ekki er langt síðan Hafnarfjarðarbær tók annað stórt erlent lán og langar mig að spyrja hvort lántökum sveitarfélagsins sé lokið eða hvort við eigum von á meiri lántöku?  Ef rýnt er í tölur úr fjárhagsáætlun, fer 95% af áætluðum tekjum bæjarins í rekstur.  Rekstrarafgangurinn dugar ekki einu sinni fyrir vaxtagjöldum, hvað þá afborgunum og framkvæmdum.  Það segir sig sjálft að þetta gengur ekki upp.  Hvernig sér bæjarstjórinn fyrir sér að leysa þennann vanda?

Er áætlað að skera niður í grunnskólunum?  Ef svo er, væri fróðlegt að fá upplýsingar um það með hvaða hætti það á að vera?

Hver er til dæmis staðan varðandi Kaplakrika?  Verður hann sundurgrafinn mikið lengur sem takmarkar mjög notkun íþróttamannvirkjanna sem þar eru og er til verulegra vandræða fyrir börnin okkar, ef ekki beinlínis hættulegt, sem þurfa að ganga hringinn í kring um húsið í snjónum og hálkunni?  Þetta ástand er ekki viðunandi.  Ef klára á þessar framkvæmdir á næstunni langar mig að fá svar við því hvaðan þeir fjármunir eiga að koma?

Kostnaður sveitarfélagsins vegna íþróttamannvirkja hefur verið gríðarlegur á umliðnum árum.  Þó ég telji það nauðsynlegt og skynsamlegt fyrir sveitarfélög að styðja myndarlega við íþróttafélög má velta því fyrir sér hvort menn hafi farið fram úr sér hér í bæ.  Fjármál Hauka virðast vera vandamál sem erfitt er að sjá fram úr.  Getur bæjarstjórinn greint frá því með hvaða hætti leyst verður úr því máli? 

Hvernig er með sundlaugarmannvirkið nýja á völlunum? Á að halda því í fullum rekstri í þessu árferði?  Og ég spyr líka, þurfum við að reka 3 almennings sundlaugar í Hafnarfirði þegar svona illa árar? 

Sem venjulegur íbúi og foreldri í Hafnarfirði langar mig að óska eftir skýrum svörum frá bæjarstjóra um það hver raunveruleg staða sveitarfélagsins er. 

Með vinsemd og virðingu,

Sigurlaug Anna Jóhannsdóttir

Lækjarkinn 6

 

 

 


Magnað!

Þetta er orðið svo klikkað að maður veltir því fyrir sér hvort Ísland sé í alvörunni vestrænt lýðræðisríki???

Mig grunar að bréf Jóhönnu fari á skjön við allar stjórnsýslureglur og venjulega stjórnarhætti.  Davíð getur eflaust setið þarna í svörtuloftum eins og klessa næsta árið eða svo og hann getur eflaust fært rök fyrir því að hann hafi ekki brotið af sér í starfi.

Hann getur, ef hann vill, verið í málaferlum næstu mánuðina og gert ríkistjórninni og þjóðinni það mjög erfitt og dýrt að losna við hann.

Pólitískar stöðuveitingar eru gríðarlegt böl sem hefur nú birst í sinni alverstu mynd.  Ég vona að stjórnmálamenn læri af þessari reynslu!!

Það sem hann og margir aðrir þurfa að skilja er að það eru ekki venjulegar aðstæður á Íslandi í dag og það sem áður hefði þótt eðlilegt er það ekki endilega lengur.  Það er viðfangsefnið, þjóðin vill uppgjör við allt og alla sem kom henni í þá stöðu sem hún er í í dag.

Ég sá einhversstaðar skrifað að Íslendingar þyrftu að fara að haga sér eins og hér hefðu orðið náttúruhamfarir.  Ég tek undir það.  Það þarf að nást sátt um það að við leggjumst öll á árarnar og gerum okkar besta til að horfa fram á við, hjálpast að og sýna mátt okkar og megin næstu mánuðina og jafnvel næstu árin.  Nú ríður á að Íslendingar sýni hvað í þeim býr.


mbl.is Davíð segir ekki af sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

NV gegn ESB

Sturla Böðvarsson hefur átt farsælan feril í stjórnmálum og unnið gott starf sem forseti Alþingis.  Undir hans stjórn hafa verið gerðar miklar og þarfar breytingar á störfum þingsins.  Hann hefur verið trúr kjördæmi sínu og mun eflaust halda áfram að vinna vel fyrir vestfirskt samfélag eftir að hann hættir á Alþingi.  Það er ánægjuefni að Sturla ætlar að stíga til hliðar fyrir nýju fólki og hefði ég helst vilja sjá Einar K. gera það líka. 

Það kemur mér svosem ekki á óvart að Sturla skuli velja að kveðja þennann vettvang með því að brýna menn til andstöðu við ESB.  Hann er ekki einn um þessa skoðun í kjördæminu og eflaust má finna sambærilega afstöðu í hinum landsbyggðarkjördæmunum líka.

Mig langar hins vegar að vona að það nýja fólk sem kemur í stað þeirra sem nú hverfa af vettvangi sé víðsýnna og tilbúið að skoða alla möguleika fyrir framtíð Íslands og horfa heildstætt á málin.  Það gengur ekki að hagsmunir lítilla, illa staddra sveitarfélaga úti á landi eða örfárra kvótakónga komi í veg fyrir að Ísland stofni til samvinnu við þær þjóðir sem við erum í mestum viðskiptum við. 

Útvegurinn, sem ekki hirti um rök landsbyggðarinnar þegar hann vildi framselja veiðiheimildir og leggja niður löndun og vinnslu víðs vegar um landið, vill nú brýna menn til samstöðu um að leggjast gegn ESB aðildarviðræðum Íslands með nákvæmlega sömu rökum og landsbyggðin notar gegn kvótakerfinu sem útgerðarmenn dásama svo mjög.  Þessi rök snúast um störf og hagnað sem skiptir nú svo miklu máli en þegar byggðir Íslands kvörtuðu sáran þegar kvótakerfinu var komið á, var lítill áhugi á því af hálfu útgerðarmanna að hlusta.

Ég get vel tekið undir það, sem margir halda fram núna, að rót þess efnahagsvanda sem við stöndum frammi fyrir nú sé sprottin uppfrá því þegar kvótakerfinu var komið á og veiðiheimildum úthlutað eins og gert var.

Þess vegna finnst mér dapurt að horfa upp á að vörslumenn þessa kerfis berjist svo harkalega gegn því að Íslendingar fari í samstarf við Evrópuþjóðir sem getur hjálpað okkur að komast út úr þeim stórkostlega vanda sem þjóðin stendur frammi fyrir núna að hluta til af þeirra völdum.


mbl.is Sturla og Herdís hætta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lesbisk stewardesse skal redde Island

Ég á ekki til orð yfir þessu,  mér finnst þetta eiginlega fyndið, svo asnalegt er það.  Ég vissi að Ekstrablaðið væri sorprit en æjjjj

Þetta er líka soldið sniðugt.


Ólafur og snyrtiborðið

Ég velti því fyrir mér hvort ekki sé til skárri aðstaða fyrir forsetann til að ræða við þjóðina úr heldur en þetta litla snyrtiborð??

 Að öðru leyti er merkilegt hvernig forsetinn sem er prófessor í stjórnmálafræði túlkar stjórnarskránna sér til upphefðar og vegsauka.  Það eru honum ekki margir sammála um þessa túlkun en hann lætur sér það í léttu rúmi liggja.

Mér finnst svosem ekkert að því að maðurinn tali og orð hans í gær sem voru svo mjög umdeild voru í raun mjög almenn.  Varla átti hann að tala um veðrið.....

Ég vona að þeirri vinstristjórn sem nú verður mynduð muni takast að stíga þau skref sem þarf þjóðinni til heilla.  Verkefnin eru ærin og verr gæti varla verið komið fyrir einni þjóð.  Mér finnst í rauninni fínt að hvíla Sjálfstæðisflokkinn frá ríkisstjórn, ég get ekki sagt að ég sé ánægð með framvindu mála í mínum flokki.

Nú fær flokkurinn andrými til að velja sér nýja forystu, fara yfir málefnin, taka prófkjör, raða á lista og pússa spariskóna og kemur svo ferskur inn í kosningabaráttu.... vonandi!

Á meðan vaða vinstriflokkarnir með niðurskurðarhnífinn út um víðan völl, taka óvinsælar ákvarðanir og mæta uppgefnir í kosningar. 

Það verður athyglisvert að horfa á samstarf VG og Samfylkingar.  Ástæðan fyrir því að ég hélt lengst framan af að ríkistjórnin myndi lifa var sú að VG hafði á stefnuskránni að vera á móti öllu og vilja ekkert!

Förum aðeins yfir þetta:   VG vildu bakka út úr IMF, þeir vilja ekki í ESB og eiginlega vilja þeir ekki vera í NATO heldur.  Þeir vilja ekki virkja neitt og ekki byggja álver.  Það má ekki fara í niðurskurð í heilbrigðisgeiranum og eflaust ekki heldur neins staðar annarsstaðar.  Framan af vildu þeir ekki þjóðstjórn og ... er ég að gleyma einhverju????

 


mbl.is Falið að mynda stjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í DAG FIMMTUDAG

fimmfund

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband