NV gegn ESB

Sturla Böðvarsson hefur átt farsælan feril í stjórnmálum og unnið gott starf sem forseti Alþingis.  Undir hans stjórn hafa verið gerðar miklar og þarfar breytingar á störfum þingsins.  Hann hefur verið trúr kjördæmi sínu og mun eflaust halda áfram að vinna vel fyrir vestfirskt samfélag eftir að hann hættir á Alþingi.  Það er ánægjuefni að Sturla ætlar að stíga til hliðar fyrir nýju fólki og hefði ég helst vilja sjá Einar K. gera það líka. 

Það kemur mér svosem ekki á óvart að Sturla skuli velja að kveðja þennann vettvang með því að brýna menn til andstöðu við ESB.  Hann er ekki einn um þessa skoðun í kjördæminu og eflaust má finna sambærilega afstöðu í hinum landsbyggðarkjördæmunum líka.

Mig langar hins vegar að vona að það nýja fólk sem kemur í stað þeirra sem nú hverfa af vettvangi sé víðsýnna og tilbúið að skoða alla möguleika fyrir framtíð Íslands og horfa heildstætt á málin.  Það gengur ekki að hagsmunir lítilla, illa staddra sveitarfélaga úti á landi eða örfárra kvótakónga komi í veg fyrir að Ísland stofni til samvinnu við þær þjóðir sem við erum í mestum viðskiptum við. 

Útvegurinn, sem ekki hirti um rök landsbyggðarinnar þegar hann vildi framselja veiðiheimildir og leggja niður löndun og vinnslu víðs vegar um landið, vill nú brýna menn til samstöðu um að leggjast gegn ESB aðildarviðræðum Íslands með nákvæmlega sömu rökum og landsbyggðin notar gegn kvótakerfinu sem útgerðarmenn dásama svo mjög.  Þessi rök snúast um störf og hagnað sem skiptir nú svo miklu máli en þegar byggðir Íslands kvörtuðu sáran þegar kvótakerfinu var komið á, var lítill áhugi á því af hálfu útgerðarmanna að hlusta.

Ég get vel tekið undir það, sem margir halda fram núna, að rót þess efnahagsvanda sem við stöndum frammi fyrir nú sé sprottin uppfrá því þegar kvótakerfinu var komið á og veiðiheimildum úthlutað eins og gert var.

Þess vegna finnst mér dapurt að horfa upp á að vörslumenn þessa kerfis berjist svo harkalega gegn því að Íslendingar fari í samstarf við Evrópuþjóðir sem getur hjálpað okkur að komast út úr þeim stórkostlega vanda sem þjóðin stendur frammi fyrir núna að hluta til af þeirra völdum.


mbl.is Sturla og Herdís hætta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Innganga Íslands í Stórríki ESB er uppgjöf. 

Það er ekki sama samstarf eða samvinna við nágrannaþjóðir eins og þú talar svo sakleisislega um hér í grein þinni.

Með Lissabon sáttmálanum er ESB einmitt að breyta sér í Stórríkið fyrirheitna. Með Lissabon sáttmálanum eru fleiri og fleiri málaflokkar teknir af þjóðríkjunum og færðir til miðstýringar möppugerðar valdsins í Brussel.

Ég er mjög hlynntur samstarfi og samvinnu sjálfstæðra þjóða ekki síst nágranna okkar. Vð eigum líka í mjög margvíslegu samstarfi við nágranna okkar og ýmis önnur ríki líka okkur til gagns.

En innlimun Íslands í Stórrríki ESB mun ég aldrei fallast á, sama hvaða tímabundnu undanþágur verða gerðar.

EKKERT ESB takk fyrir.

Munum að sá sem gefur eftir af frelsi sínu fyrir öryggi, hlotnast hvorugt, en tapar að lokum hvoru tveggja !

Lifi frjálst og fullvalda Ísland, án ESB aðildar !

Gunnlaugur Ingvarsson (IP-tala skráð) 7.2.2009 kl. 17:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband