Áherslur mínar vegna framboðs til bæjarstjórnar Hafnarfjarðar

Sigurlaug Anna í 2. -3. sætið. 

Fjármál: Ábyrg fjármálastjórn er undirstaða öflugs samfélags.  Við núverandi skuldasöfnun verður ekki unað og setja þarf saman aðgerðaráætlun sem miðar að því að fjármagnskostnaður aukist ekki meira en orðið er.  Nauðsynlegt er að hægja á framkvæmdum og hagræða í rekstri m.a. til þess að ekki þurfi að grípa til uppsagna.  Á meðan efnahagsþrengingarnar ganga yfir er nauðsynlegt að halda í horfinu en um leið og rofar til skal stefnt að lækkun skulda og þar með lækkun fjármagnskostnaðar.  Þannig mun sveitarfélagið smám saman geta bætt þjónustu við bæjarbúa og lækkað álögur á þá.

Lýðræði: heildstæða lýðræðisstefnu þarf að setja fyrir Hafnarfjörð svo íbúar þekki þær reglur sem um lýðræðið gilda og geti þannig tekið þátt í því.  Mikilvægt er að kjörnir fulltrúar þekki óskir bæjarbúa og dragi þá að ákvarðanatökuborðinu í stórum málum sem smáum.  Kjörnir fulltrúar þurfa að axla þá ábyrgð sem þeim er falin, hafa framtíðarsýn og leita leiða til að skapa sátt í samfélaginu.  Átakastjórnmál eru ekki neinum til góðs.

 

Fjölskyldumál:

Gæta þarf sérstaklega að því að þeir sem á þurfa að halda fái þá þjónustu sem þeir þarfnast svo lífskjör þeirra geti amk haldist óbreytt þrátt fyrir efnahagsástandið.  Leggja þarf alla áherslu á að vernda grunnþjónustuna og forgangsraða í þágu fjölskyldna, barna og unglinga. 

Íþrótta og tómstundastarf barna og unglinga er að mörgu leyti til fyrirmyndar enda skiptir það gríðarlegu máli að hver og einn einstaklingur finni áhugamálum sínum farveg á sinn hátt.  Ég mun leggja mitt af mörkum til þess að standa vörð um íþróttastarf bæjarins þar sem áhersla verður lögð á forgangsröðun í þágu barna og unglinga.

 

 Skólamál:

Skólamálin taka til sín ríflega helming útgjalda sveitarfélagsins og er starf skólanna mjög bundið í lög.  Skólarnir þurfa þó að búa við sömu hagræðingarkröfu og aðrir.  Hagræðingin getur t.d. falist í skipulagsbreytingum og lækkun stjórnunarkostnaðar.

Foreldrar eru auðlind í skólastarfi og tel ég ástæðu til að auka þátttöku foreldra í starfi skólanna.  Aukin viðvera foreldra í skólum getur þjónað margvíslegum tilgangi: foreldrar mynda betri tengsl við börn sín, starfslið skólanna og skólasystkinin, þannig styrkjast börnin í sínu umhverfi. Jafnvel gæti þátttaka foreldra í skólastarfi dregið úr einelti og að síðustu gæti verið mögulegt að ná fram sparnaði í skólakerfinu með þessum hætti.

 

 Umhverfismál:

Útivistarmöguleikar í Hafnarfirði eru margir, en betur má gera í þeim málaflokki án mikils tilkostnaðar.  Yfirbyggð útigrill á helstu útisamverustöðum fólks í Hafnarfirði væri gaman að gera að veruleika.  Betri göngustígar og hjólreiðastígar eru markmið sem stefnt hefur verið að lengi án mikils árangurs.  Á því langar mig að ráða bót.  Aðstaða fyrir hundaeigendur til þess að viðra hunda sína án þess að þeir séu bundnir á afmörkuðu svæði er hugmynd sem án mikils tilkostnaðar er hægt að setja í framkvæmd.  Áherslan á heilbrigðan lífstíl verður aldrei of mikil. 

 Skipulagsmál:

Skipulagsmál eru málaflokkur sem þarf að fara vandlega yfir í ljósi breyttra aðstæðna.  Ákvarðanir í skipulagsmálum þurfa að vera lýðræðislegar og horfa skal til langs tíma stefnumótum um skipulag.  Varðveita þarf sögu bæjarins og sérstöðu.  Bæjarstæði Hafnfirðinga er fallegt og ásýndin sömuleiðis.  Skipulagsslys verða jafnvel ekki aftur tekin, því ber að fara fram með gát.  Leita þarf allra leiða til þess að glæða ný hverfi lífi til þess að þjónusta sveitarfélagsins verði sem best og nýtingin sem mest á fjármunum bæjarbúa.

 

 Atvinnumál:

Standa þarf vörð um fyrirtækin í Hafnarfirði, bæði stór og smá.  Laða þarf til Hafnarfjarðar ný fyrirtæki og sjá má tækifæri í því bærinn hafi milligöngu með að bjóða nýsköpunarfyrirtækjum og sprotafyrirtækjum aðstöðu á viðráðanlegum kjörum t.d. í húsnæði sem annars stendur ónotað.

 

Kosið verður 30. janúar nk. í Víðistaðaskóla milli kl. 10-18.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband