Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
24.11.2009 | 10:54
Hallar undan fæti - ætli Lúðvík nái 6. sætinu?
Lúðvík Geirsson finnur að það er farið að halla undan fæti hjá honum. Varnarbaráttan er hafin. Staða sveitarfélagsins er afleit. Ráðuneyti sveitarstjórnarmála er með fjármál Hafnarfjarðar undir smásjánni. Flestar gjaldskrár hafa hækkað, áfram er ausið fé í íþróttamannvirki þrátt fyrir loforð um að fresta framkvæmdum og verja grunnþjónustu.
Nú ætlar Lúðvík að kúga íbúa Hafnarfjarðar til þess að leyfa sér að vera bæjarstjóra eitt kjörtímabil í viðbót í hreinum meirihluta. Hann býður sig fram í 6. sætið og ef Samfylkingin fær 6 menn inn í bæjarstjórn hafa þeir hreinan meirihluta. Lúðvík nennir greinilega ekki að hafa annann flokk með sér í meirihluta í bæjarstjórn og vill ekki þurfa að semja við neinn. Hann er orðinn vanur því að ráða ferðinni, nema stundum fær Gunnar Svavarsson að ráða líka.
Gunnar hefur ákveðið að gefa ekki kost á sér aftur. Þeir félagar og fóstbræður hafa brallað ýmislegt í gegn um tíðina, m.a. vildu þeir komast á þing. Gunnari tókst það en Lúðvík ekki. Þegar Gunnar ákvað að gefa ekki kost á sér aftur í prófkjöri eftir að gengið var fram hjá honum við skipan ráðherraembætta bauð Lúðvík sig fram í oddvitasætið í SV- kjördæmi. Þá gekk sú saga að þeir félagarnir ætluðu að hafa stólaskipti. Lúðvík færi á þing en Gunnar yrði bæjarstjóri í Hafnarfirði. Þeir hafa náð ágætis árangri í pólitík félagarnir en greinilega hafa þeir misreiknað sig eitthvað þarna og jafnvel ofmetið stöðu sína. Flokksfélagar þeirra í Samfylkingunni hafa haft aðra skoðun á þessum fyrirætlunum, því þetta gekk ekki upp hjá þeim.
Nú verður spennandi að sjá hvort flokksmenn Samfylkingarinnar í Hafnarfirði treysta Lúðvíki til þess að verða bæjarstjóri í Hafnarfirði enn eitt kjörtímabilið þrátt fyrir ákvarðanafælni hans og skelfilega fjárhagslega stöðu sveitarfélagsins.
Ef Lúðvík vill raunverulega standa með verkum sínum, af hverju vill hann þá ekki halda þeim 7 mönnum sem þeir hafa núna í bæjarstjórn? Mér sýnist Lúðvík reikna með því að missa amk einn mann í næstu kosningum.
Vonandi missir Samfylkingin a.m.k. 2 menn í næstu bæjarstjórnarkosningum. Þannig öðlast Hafnfirðingar von um að einveldi Lúðvíks (og Gunnars) ljúki og lýðræði komist aftur á að nýju í Hafnarfirði.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur líka prófkjör í Hafnarfirði 30. janúar 2010. Þá mun koma í ljós hvaða öflugu einstaklingar munu skipa framboðslista Sjálfstæðisflokksins, tilbúnir að glíma við þá döpru stöðu sem sveitarfélagið okkar er komið í og gefa Hafnfirðingum von um betri tíð.
Lúðvík í baráttusætið í janúar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
28.10.2009 | 17:34
gerð hefur verið krafa um??
Eru það bara greiðslur frá Jöfnunarsjóði sem "gerð hefur verið krafa um" eða líka gengisleiðrétting?Ég vissi ekki að það væri hægt að gera kröfur um gengisleiðréttingu og/eða greiðslur úr Jöfnunarsjóði.
Frekjan í Á-listanum ríður ekki við einteyming hér. Hinn ópólitíski bæjarstjóri, sem var ráðinn sem bæjarlögmaður af Á- listanum og lenti í bæjarstjórastólnum vegna klofnings Á-listans, er að reyna að bjarga því sem bjargað verður. Þá kemur Álftaneshreyfingin sem telur hvað.... 2 bæjarfulltrúa?? og lýsir því yfir að það eigi að gera þetta einhvernveginn öðruvísi.
Yfirlýsingin inniheldur skýringar á bágri fjárhagsstöðu Álftaness sem er greinilega öllum öðrum að kenna en Á-listanum.
Segja bæjarstjórnina hafa gefist upp | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
7.10.2009 | 15:50
Lýðskrum Samfylkingarinnar
Þessi grein birtist í Fjarðarpóstinum 8. október 2009
Í síðasta tölublaði Fjarðarpóstsins gerir Gunnar Axel Axelsson formaður Samfylkingarinnar í Hafnarfirði misheppnaða tilraun til að svara grein minni, sem birtist í Fjarðarpóstinum þ. 17. september sl. Þar fjallaði ég um þá meðferð sem undirskriftalistar, sem hópur manna hefur safnað síðastliðna mánuði, hefur fengið hjá bæjarstjóra og meirihluta Samfylkingarinnar. Svo virðist sem verið sé að reyna að drepa undirskriftarmálinu á dreif með alls kyns útúrsnúningum. Það sem er merkilegast við svargreinina er, að í henni er ekki minnst einu orði á málsmeðferðina sem undirskriftalistarnir fengu, sem var tilefni skrifa minna. Hafnfirðingar eru enn engu nær um það hvað meirihluti bæjarstjórnar ætlar sér að gera við undirskriftalistana. Verður kosið aftur í Hafnarfirði um stækkun álversins í Straumsvík?
Lýðræðisást?Í stað þess að ræða það sem máli skiptir, velur Gunnar Axel að ræða vítt og breitt um lýðræðisást Samfylkingarinnar annarsvegar og Sjálfstæðisflokksins hinsvegar. Svo virðist sem Samfylkingin eigi einkarétt á íbúalýðræðinu enda hafi hún staðið sig svo frábærlega í því hingað til en Sjálfstæðisflokkurinn ekki. Gunnar Axel veit jafn vel og ég að það var í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga 2002 að hugtakið íbúalýðræði varð að kosningamáli og komst í almenna notkun á Íslandi. Á þessum tíma voru að spretta upp deilur víða í sveitarfélögum þar sem íbúar gerðu auknar kröfur um þátttöku í ákvarðanatöku í sínu nærumhverfi. Samfylkingin tók málið upp og hefur samið langar ályktanir um íbúalýðræði og sett í samþykktir um stjórn bæði Reykjavíkurborgar og Hafnarfjarðarkaupstaðar reglur um almennar atkvæðagreiðslur. Ákvæðið í samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar sem sett var í kring um flugvallarkosninguna er með því vitlausara sem sést hefur, það er gríðarlega ítarlega skilgreint og getur ekki náð yfir neitt mál nema flugvallarmálið. Ákvæðið í samþykkt um stjórn Hafnarfjarðarkaupstaðar er ögn skárra en það er hins vegar svo galopið að Hafnfirðingar geta, samkvæmt því, kosið um allt sem þeim dettur í hug, þegar þeim dettur það í hug, svo lengi sem þeir fá 25% atkvæðisbærra manna til að skrifa nafn sitt á undirskriftalista.
Það er ekki sama hvernig farið er með lýðræðið, það er flókið og margslungið og það er full ástæða til að vanda til verka þegar bjóða á íbúum til þátttöku. Lýðræði getur nefnilega snúist upp í andhverfu sína, sé ekki vandlega með það farið.
Íbúalýðræði SjálfstæðisflokksinsÉg get nefnt mörg vel heppnuð dæmi um íbúalýðræði Sjálfstæðisflokksins. Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarstjóri, gerir nú nýstárlega tilraun til að leyfa borgarbúum að taka þátt í forgangsröðun vegna framkvæmda í sínum hverfum sem lið í fjárhagsáætlunargerð borgarinnar. Haldin var almenn atkvæðagreiðsla á Seltjarnarnesi um deiliskipulag nýs miðbæjar við Hrólfsskálamel árið 2005. Árni Sigfússon er í mjög góðu samstarfi í Reykjanesbæ við íbúa í sveitarfélaginu með ýmis konar fundum og samráði þar sem allar fundargerðir eru opnar á heimasíðu bæjarins milli ára.
Afstaða og ábyrgðKjörnir fulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa hvergi færst undan ábyrgð á þeim málum sem upp hafa komið hverju sinni. Ákvörðunarfælni Samfylkingarinnar í álversmálinu og mörgum fleiri málum er hins vegar að verða til þess að kafkeyra Hafnarfjarðarbæ fjárhagslega. Ábyrgð Samfylkingarinnar er mikil!
Sigurlaug Anna Jóhannsdóttir
formaður Fram, Sjálfstæðisfélags Hafnarfjarðar.2.10.2009 | 11:49
Ruslatunnan mín
Ég bý í tvíbýlishúsi. Það eru 2 ruslatunnur fyrir utan húsið. Önnur sem tilheyrir mér (og minni fjölskyldu) og hin tilheyrir efri hæðinni. Þar búa pólskir leigjendur.
Um daginn hvarf önnur ruslatunnan sporlaust. Eftir nokkra daga fór okkur að undrast um hana en hún var hvergi í sjónmáli. Þegar ruslið var farið að flæða út um allt hringdi maðurinn minn í Hafnarfjarðabæ til að spyrja um ruslatunnumál.
Þar var honum sagt að tunnan hefði verið tekin af því hún brotnaði þ.e. sá hluti hennar sem ruslafyrirtækið krækir á ruslabílinn til að sturta úr henni og að við þyrftum að borga 7.500 kr. til að fá nýja ruslatunnu. Ruslatunnan lét undan álagi við tæmingu og við þurfum að borga....
Nú vaknar spurningin, var þetta ruslatunnan mín sem brotnaði eða hæðarinnar fyrir ofan?? Það er alveg ljóst að við fáum aldrei pólsku leigendurna á efri hæðinni til að taka þátt í þessum kostnaði. Þeir stilla bara ruslinu upp við hliðina á þessari einu ruslatunnu sem eftir er þegar hún er orðin full.
Svo langar mig að vita þegar ég verð búin að borga 7.500 krónur, á ég þá ruslatunnuna? Mætti ég þá mála hana bleika ef ég vil og fara með hana ef ég flyt? Á ég þá ruslatunnuna?
Sveitafélagið rukkar báða eignarhluta hússins áfram um full sorphirðugjöld þrátt fyrir að við höfum helmingi færri ílát til að setja ruslið í.
Það er amk ljóst að við skemmdum ekki ruslatunnuna heldur ruslastarfsmennirnir og ruslabíllinn. Samt þurfum við að borga, bæði fyrir nýja ruslatunnu og sorphirðugjöld en líklega munum við ekkert eiga í nýju ruslatunnunni þegar hún kemur. Furðulegt system.
16.9.2009 | 18:50
Þreytumerki á Samfylkingunni í Hafnarfirði – lýðræðið fótum troðið
Þessi grein birtist í Fjarðarpóstinum 17. september 2009
Í síðustu viku bárust fréttir af minnisblaði lögmanns Hafnarfjarðarbæjar þar sem lagt er til að vísa beri frá, erindi hóps fólks, sem hefur undanfarna mánuði safnað undirskriftum vegna áskorunar til bæjarstjórnar Hafnarfjarðar um að efna til kosninga um stækkun álversins í Straumsvík. Ástæðan frávísunartillögunar er sögð vera sú, að of langt líður frá því að undirskriftasöfnunin hefst, þar til henni lýkur.
Í samþykkt um stjórn Hafnarfjarðarkaupstaðar nr. 637/2002, 2.mgr. 33.gr., er fjallað um rétt íbúa til að krefjast atkvæðagreiðslu um tiltekið mál ef 25% kosningabærra manna eða fleiri, krefjast atkvæðagreiðslu, beri bæjarstjórn að verða við þeirri kröfu. Lögmenn Hafnarfjarðarbæjar hafa, leiðbeint um framkvæmd undirskriftasöfnunarinnar og hún því farið fram með vitund þeirra.
Hvergi nokkursstaðar í samþykktum um stjórn Hafnarfjarðarkaupstaðar né í málsmeðferðarreglunum bæjarins um almennar atkvæðagreiðslur er að finna reglur um það með hvaða hætti staðið skuli að undirskriftarsöfnuninni, sem þarf til að knýja fram almenna atkvæðagreiðslu hér í bæ. Ákvæðið í samþykkt um stjórn Hafnarfjarðarkaupstaðar sem undirskriftarsöfnunin byggir á, er galopið. Álit lögmanns Hafnarfjarðar er augljós viðurkenning á veiku regluverki meirihlutans í bæjarstjórn. Þau undanbrögð meirihlutans sem koma fram í minnisblaðinu um málið, sem kannski er réttara að kalla töfrabrögð lögmanns Hafnarfjarðar, eru í besta falli furðuleg eftiráskýring.
Hvað sem mönnum kann að finnast um stækkun álversins, hlýtur að vera skýlaus krafa og réttur bæjarbúa að meirihluti bæjarstjórnar fari að reglum bæjarins.
Það væri svo eðlilegt í framhaldinu, að Samfylkinginn í Hafnarfirði færi í það verkefni að semja regluverk utan um þetta ákvæði í samþykktum um stjórn Hafnarfjarðarkaupstaðar svo íbúar Hafnarfjarðar þekki leikreglurnar sem ætlast er til að þeir fari eftir.
1.9.2009 | 15:27
Hanna Birna fetar ótroðna slóð
Það er til marks um hugrekki, framtakssemi og lýðræðisáhuga Hönnu Birnu að hún þorir að fara út í að bjóða borgarbúum uppá þátttöku í mótun fjárhagsáætlunar Reykjavíkurborgar.
Nýlega lýsti hún því hvernig starfsfólk borgarinnar var kallað að borðinu til þess að koma með niðurskurðartillögur og tóku þúsundir starfsmanna þátt í því verkefni með góðum árangri. Nú ætlar borgin að ganga enn lengra og bjóða íbúum að borðinu.
Það er ekki auðvelt að skera niður útgjöld sveitarfélaganna eins og þau þurfa allflest að gera núna. Staða þeirra var veik fyrir og því ekki úr miklu að moða. Um það verður tæplega hægt að ræða við ríkisvaldið að færa aukna tekjustofna til sveitarfélaganna eins og nú stendur á.
Það er mjög athyglisvert að Reykjavíkurborg skuli stíga þetta skref og verður jafnvel enn athyglisverðara að sjá hvort borgarbúar hafi nægilega mikinn áhuga og nægilega mikinn samstarfsvilja til að koma að málinu með borgaryfirvöldum, með opnum huga.
Borgarbúar geti tekið þátt í mótun fjárhagsáætlunar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
31.8.2009 | 14:11
Fullkomlega fyrirsjáanlegt ástand
Þegar ákveðið var að afnema samræmd próf hljóta þessar afleiðingar að hafa verið ljósar?
Kennari hefur staðfest við mig að það sem gerðist síðasta vor var að kennarar voru að "gefa" börnunum "sínum" einkunnir til þess að þau kæmust inn í þá skóla sem þau óskuðu sér.
Það sem svo gerðist var krakkar sem ekki náðu inn í skólann sem þau sóttust eftir í 1. sæti duttu mörg hver milli skers og báru, því sá skóli sem þau höfðu sett í 2. sæti fyllti sinn skóla af þeim sem sótti um hann í 1. sæti.
Ég á dóttur sem er í 10. bekk og hef þess vegna kannski sérstakann áhuga á málinu. Það virðast flestir vera sammála um að það ástand sem skapaðist við inntöku nýnema í framhaldsskólana í vor hafi verið ótækt og að úr því beri að bæta. Menntamálaráðuneytið er, að því er mér skilst, að hefjast handa við að endurskoða innritunarferlin inn í framhaldsskólana. Þessi vinna má ekki taka langann tíma. Krakkarnir sem eru núna í 10. bekk hljóta að eiga rétt á því að vita með hvaða hætti þau verða metin inn í framhaldsskóla næsta vor, sem fyrst.
Munu samræmdu könnunarprófin sem þau taka eftir 2 vikur í stærðfræði, íslensku og ensku enda með að vera það samræmda viðmið sem vantar? Ef svo er, eru þessir krakkar á leiðinni í ákaflega mikilvæg próf, varla nokkuð undirbúin, sem munu hafa mikla þýðingu fyrir framtíð þeirra.
Vilja aftur samræmd próf í 10. bekk | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
27.8.2009 | 09:44
Í hnotskurn
OR var dæmd til að standa við kaupsamning sem hún gerði við Hafnarfjarðarbæ um kaup á Hitaveitu Suðurnesja.
Áður hafði Samkeppnisstofnun úrskurðað að OR mætti ekki eiga hlutinn og að OR ætti þegar of stóran hlut í HS.
Í millitíðinni hefur HS verið skipt upp í HS orku og HS veitu.
Núna á OR HS án þess að meiga það og án þess að meiga selja skv. fjármálaráðherra.
Fjármálaráðherra vill ekki að einkaaðilar og alls ekki útlenskir einkaaðilar (af því að fjármálaráðherra er hræddur við allt sem er útlenskt.... nema það sem er norskt) eignist auðlindir Íslands.
Fjármálaráðherra á engann pening til að kaupa sjálfur HS orku sem Magma energy vill kaupa. Ef fjármálaráðherra ætlar að krunka út peninginn til að kaupa hlutinn þarf hann að skera niður í velferðarkerfinu.
Þar hitti skrattinn ömmu sína því Steingrímur vill mikið velferðarkerfi en er á sama tíma á móti atvinnuuppbyggingu....
Forstjóri Magma energy kom mjög vel fyrir í Kastjósi í gær og boðaði sjálfbæra nýtingu og umhyggju fyrir íslensku samfélagi. Fyrirtækið myndi koma inn með fjármagn sem sárlega vantar á Íslandi til að hjól atvinnulífsins fari að snúast og talaði hann einnig að Helguvíkurverkefnið fengi það fjármagn sem vantar.
Það sem vantar í þessa umræðu eins og svo margar umræður á Íslandi almennt er hugmyndafræðiumræðan.
Finnst okkur að auðlindir Íslands eigi að vera í höndunum á einkaaðilum?
Ef auðlindirnar eru í höndunum á einkaaðilum ( kapítalistum sem Íslendingar hafa reynslu af að hugsa um eigin hag og stjórnist af stjórnlausri græðgi)
Getum við þá verið viss um að auðlindirnar verði ekki gjörnýttar?
Getum við þá við treyst því að hafa aðgang að auðlindunum okkar um ókomna tíð?
Getum við treyst því að verðið til okkar verði ávallt eins hagstætt og mögulegt er?
Getum við treyst því að gæðin verði í viðlíka gæðaflokki sem nú er?
Geta sveitarfélögin áfram skipulagt ný hverfi og reiknað með þátttöku orkueigendanna?
Við þurfum að muna að orkuveiturnar búa við einokunarstöðu og samkeppni því fjarlægur draumur á þessum markaði.
Segir óraunhæft að ríkið kaupi hlut í HS Orku | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
24.8.2009 | 11:24
Margar hliðar á málum
Í vor var mér boðið að taka sæti í stjórn Heimilis og skóla, landssamtaka foreldra sem ég þáði með þökkum. Ég hef frá því árið 2001 tekið þátt í foreldrastarfi skólans sem dætur mínar eru í, bæði í foreldrafélaginu og í foreldraráði. Þetta hefur gefið mér mikið og ég tel mig hafa tekið þátt í að koma ýmsu til leiðar sem hefur bætt það umhverfi sem börnin mín, og annarra, alast upp í. Ég er rétt byrjuð að kynnast samtökunum og vonast ég til að geta áfram unnið að bættu umhverfi barna á þeim vettvangi.
Fljótlega eftir að ég tók sæti í stjórninni fóru mér að berast tölvupóstar frá félagasamtökum sem kalla sig Hin hliðin og hafa netsíðuna www.hinhlidin.com.
Þetta eru tölvupóstar sem sendir eru nafnlaust, heimasíðan er sömuleiðis nafnlaus og engin leið virðist vera að komast að því hverjir það eru sem standa á bak við síðuna.
Svo virðist sem stjórnarfólki í samtökum á borð við Heimili og skóla, Barnaverndarstofu og Barnaheill séu sendir þessir tölvupóstar til að vekja athygli á þessari heimasíðu.
Á heimasíðunni eru nafnlausir pistlar með árásum og ávirðingum á nafngreinda einstaklinga. Þar er m.a. ráðist að sálfræðingum Barnahúss, samtökunum Blátt áfram og ein fyrirsögnin er svona: Alkóhólistinn Jóhannes Kr. samviskulaus Kompásritstjóri lætur vorkenna sér í DV.
Svona málflutningi langar mig ekki til að kynnast. Málstaður sem þarf ærumeiðingar til að fá athygli hlýtur að vera vondur málstaður.
Í þrígang hef ég svarað þessum tölvupóstum sem ég fengið og beðið um að vera ekki ónáðuð framar með slíkum tölvupóstum. Svarbréfin mín hafa orðið harðorðari eftir því sem þolinmæði mín og umburðarlyndi minnkar gagnvart þessum sendingum.
Þessir tölvupóstar hafa ekki borið þann árangur sem óskað var eftir heldur ákváðu samtökin fyrir stuttu síðan að birta póstana frá mér og fleirum undir pistli sem heitir :
"Fólkið sem hefur tilkynnt að það vilji ekki vita um hina hliðina í lífi barnanna.
Þar er gefið í skyn að ég og aðrir þeir sem senda svona afþökkunarpósta skeyti engu um að vita hina hliðina á málefnum barna og sé fólk "sem komið hefur sér vel fyrir hér og þar í "barnamálakerfinu"".
Það er auðvitað óþolandi að sitja undir slíku og hlýtur að vera réttur minn og annarra sem fjallað er um á þessari síðu að ábyrgðarmenn hennar axli þá ábyrgð og komi fram undir nafni. Best væri auðvitað ef þessir aðilar sem telja sig hafa málstað að verja gerðu það án nafnlausra árása á nafngreinda einstaklinga. Þá væri kannski hægt að skilja málstað þeirra og leggja honum lið.
13.8.2009 | 10:33
Lífsspursmál fyrir fyrirtækin og heimilin í landinu
Leiðari Financial Times í gær segir allt sem segja þarf um Icesave samninginn og stöðuna sem Ísland er í.
Maður getur velt því fyrir sér hverjar líkurnar séu á að Gordon Brown muni úr þessu mildast í afstöðu sinni til Íslendinga og muni hafa getu(pólitíska) og vilja til að semja aftur við okkur og í þetta sinn gefa meira eftir í málinu. GB berst fyrir (ónýtu) pólitísku lífi sínu og þarf að sýna hörku.
Það sem hann mun geta gefið eftir í málinu (ef eitthvað) verður svo lítið að það mun engu muna. Hins vegar verður kostnaðurinn af töfinni sem slíkt myndi valda okkur Íslendingum miklu hærri eins og Gylfi bendir á. Atvinnulífið á Íslandi er að kafna og fari Icesave málinu ekki að ljúka er hætt við því að næsti vetur verði okkur mjög þungbær hér á landi.
Komið fram yfir öll þolmörk | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |