Vonandi ekki

Af hverju skyldi myndun þessa borgarstjórnarmeirihluta hafa áhrif á ríkistjórnarsamstarfið frekar en myndun fráfarandi meirihluta gerði fyrir 103 dögum síðan??  Það þætti mér skrítið. 

Maður veltir því fyrir sér hvort það borgi sig nokkuð að vera að tjá sig um málið enda er það allt hið skrítnasta.  En ég geri það nú samt Wink 

Fyrst og fremst finnst mér skrítið að umfjöllunin manna á meðal, svona það sem ég hef heyrt, sé þannig að það sé eitthvað bogið við það að stjórnmálaflokkar skuli vilja vera við völd.  Eftir því sem ég kemst næst er það eitt af meginmarkmiðum stjórnmálaflokka að vilja vera við völd, axla ábyrgð og fá tækifæri til að hafa áhrif.

Þessi möguleiki var í stöðunni, það gat hver sem er sagt sér að sjálfstæðismenn myndu ekki una þeirri niðurstöðu sem myndun fráfarandi meirihluta var.  Að ætla sér að koma svo núna skælandi um óheiðarleika og brostið traust er auðvitað hlægilegt.

Staða Margrétar Sverrisdóttur er líka mjög skrítin, svo ekki sé sterkar að orði kveðið.  Manni sýnist á málefnaskránni að "Frjálslyndir" geti unað sáttir við sitt en það virðist ekki hvarfla að Margréti að styðja þann meirihluta sem ætlar að framfylgja þeim stefnumálum sem hún barðist fyrir í kosningabaráttunni vorið 2006.  Margrét fer að verða einhverskonar pólitískt viðundur....

Ég set samt ákveðinn fyrirvara um það hvort þetta sé Sjálfstæðisflokknum mjög heilladrjúgt skref, þá sérstaklega að taka þátt í samstarfi sem byggir á enn einum borgarstjóranum sem hefur engann varamann( amk ekki neinn sem styður hann) og er auk þess kannski ekki alveg nógu heilsuhraustur. 

Sem verðandi stjórnmálafræðingur hef ég ákveðnar áhyggjur af trúverðugleika stjórnmálamanna og stjórnmálaflokka eftir umræður síðustu vikna.  Ég held að almenningur á Íslandi fari að kalla eftir auknu siðferði í stjórnmálum!! Bókstaflega öskra á það.  Undanfarið hefur hver embættisfærslan á fætur annarri verið gagnrýnd harkalega og í þessu er enginn einn flokkur betri en annar.  Heilt yfir held ég að allir stjórnmálaflokkar þurfi að staldra aðeins við og horfa inn á við á næstu misserum.


mbl.is Engin áhrif á stjórnarsamstarf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég segi nú bara.......þessir atburðir eru kjánalegir og hlægilegir og ég veit ekki hvor er kjánalegri, Ólafur F. eða Villi, veifandi þessum málefnasamningi framan í okkur eins og það eigi að breiða yfir allan skandalinn. Þetta er ljótt og slóttugt af Sjálfstæðisflokknum og sýnir það og sannar að þessir ákveðnu meðlimir hans svífast einskis til að komast til valda.

Auðvitað eru menn í stjórnmálum til að hafa völd en það þýðir ekki að þeir megi vaða áfram í siðblindu og láti valdagræðgi stjórna sér. Það ótrúlegasta í þessu öllu saman finnst mér að þetta skuli einfaldlega vera hægt, svona praktískt séð. Hvaða lýðræði er það að maður með eins lítið fylgi og raun ber vitni sé orðinn borgarstjóri? Hann var ekki kosinn til þess.........langt frá því. Ég heyrði hann meira að segja vera að klóra í bakkann í einhverju útvarpsviðtali þar sem hann sagði stoltur að nú loksins fengju þeir rúmlega 6.000 kjósendur F-listans í Reykjavík loksins að sjá sín mál ná fram......hahahha hvað er það....eru þarfir einhverra 6000 manna og kvenna skyndilega orðnir mikilvægari en kjósenda hinna flokkana sem eru svo miklu milku fleiri. Hvernig er það er það ekki meirihlutinn sem ræður í lýðræði? Eru foringjar ekki kosnir í lýðræði?

Æææææææ.....þetta er svo glatað og kjánalegt allt saman. Svo er bara farið í píslarvottinn þegar menn eru spurðir að því hvaða staða er komin upp ef leysa þarf borgarstjóra af ef hann (mjög líklega) forfallast? Sagt að það sé óviðeigandi spurning. Auðvitað er hún fullkomlega viðeigandi!

Æ þvílik munn/skrifræpa er í gangi hérna....hætt!

Regína (IP-tala skráð) 22.1.2008 kl. 21:31

2 Smámynd: Örvar Már Marteinsson

Ég er alveg sammála þér Sigurlaug (eins og venjulega) en þetta mál er allt orðið svo undarlegt að það er ekki hægt annað en að brosa að því. Nú eru menn skælandi yfir óheiðarleika... fyrir 102 dögum voru sömu menn skælandi af heiðarleika. Eru menn alltaf grenjandi??? Er þetta ekki hinn mjúki maður. Vissulega getur þetta verið vafasamt fyrir Sjálstæðisflokkinn en eins og Villi sagði í Kastljósinu í kvöld þá er það hlutverk borgarfulltrúanna að koma sínum málefnum að og þrátt fyrir allar upphrópanirnar um valdagræðgi þá eru völdin verkfærið til að koma málefnum framkvæmd. Það er einmitt þess vegna sem eitt af hlutverkum flokka er að sækjast eftir völdum.

Hvort það hefði verið ,,taktíst" sniðugra að bíða í stjórnarandstöðu til næstu kosninga og stökkva þá fram í skínandi herklæðum, er svo visst spursmál... en eftir eyðimerkurgöngu síðustu kjörtímabila get ég nú alveg skilið þorstann.

Trúverðugleikann er hægt að vinna til baka, ef vel er unnið og heiðarlega. En þá mega menn nú aðeins fara að gæta sín. Ég vona bara að menn geri það.

Á meðan ætla ég að njóta þess að horfa á ,,skuespillet".

Örvar Már Marteinsson, 23.1.2008 kl. 01:31

3 Smámynd: Helena Mjöll Jóhannsdóttir

Stjórnmál! Um hvað snúast þau orðið inn í Reykjavík??? Ég held að jafnvel þú Sigurlaug mín Anna eigir erfitt með að útskíra það, þó stutt sé í BA ritgerðina þína ( sem er náttúrulega mjög flott hjá þér). Mér finnst allt mál um heiðarleika löngu farið út í hafsjó og við skulum bara ekkert vera að reyna að breiða yfir skítinn sem er í gangi hjá öllum hvar í flokki sem við erum. Það er eins og hlutirnir snúist ekki endilega lengur um að axla ábyrgð, hafa valdasprotann í hendi og að hafa áhrif, fyrir mér lýtur þetta meira út eins stjörnupot í heimi stjórnmálanna. Kannski er þetta er eins og Örvar Már kemur inn á hið mesta "skuespil". Alla vega ummæli t.d. þeirra sem voru í Kastljósinu í kvöld gáfu mér ekki ástæðu til að halda annað.... Kveðja

Helena Mjöll Jóhannsdóttir, 23.1.2008 kl. 02:29

4 Smámynd: Sigurlaug Anna Jóhannsdóttir

þetta er greinilega heitt mál...

Regína: í hverju er skandallinn fólginn?  Hvað er það sem er svona ljótt og slóttugt og glatað og kjánalegt??  Hvað er öðruvísi við þetta en það sem gerðist fyrir 104 dögum síðan???  Vilhjálmur er staðgengill borgarstjóra og á vettvangi sveitarstjórnarmála eru menn í flestum tilfellum sammála um hlutina, það eru ekki eins stórar átakalínur þar eins og í landsmálunum.  Ég sé ekki alveg siðblinduna þarna,  það er náttúrulögmál í stjórnmálum að menn vilja stjórna og hafi menn tækifæri til þess þá gera menn það.

Örvar: eftir eyðimerkurgöngur eru menn þyrstir, rosa þyrstir!  En það er eins gott að belgja sig ekki of út því þá fá menn vatnseitrun

Helena: já það er enginn flokkur betri í þessu en annar sýnist manni þessa dagana, við verðum öll að horfa í eigin barm...

Sigurlaug Anna Jóhannsdóttir, 23.1.2008 kl. 16:40

5 identicon

Skandallinn er náttúrulega að Villi hafi farið út í þennan sólóleik og notfært sér veikindi Ólafs F. og blekkt hann til að fella meirihlutann. Finnst þér þetta í alvörunni ekkert athugavert Sigurlaug? Ég þykist viss um að nú séu sjallarnir ekkert sérstaklega ánægðir með þetta.

Það sem er öðruvísi við þetta en í okt. er að þá gerði Villi hræðileg mistök í REY málinu og hefði í raun og veru átt að sjá sóma sinn í því að segja af sér. Mér finnst bara ekkert í lagi með það að hann ætli sér að verða borgarstjóri eftir ár aftur. Ef að menn eru svona sammála um hlutina í sveitastjórnarmálum, hvers vegna hafa þá verið 7 borgarstjórar á síðustu 8 árum? Ætlarðu að segja mér að það sé engin valdabarátta og að einhverjir sækist ekki í völdin valdanna vegna....kommon !

Regína (IP-tala skráð) 25.1.2008 kl. 08:25

6 Smámynd: Sigurlaug Anna Jóhannsdóttir

Hvernig vitum við að Villi hafi farið út í sólóleik og notfært sér veikindi Ólafs?  Þetta finnst mér stórar fullyrðingar sem hvergi hafa fengist staðfestar og í raun efast ég stórlega um að þetta sé tilfellið.  Þetta eru fabúleringar fjölmiðlamanna og eins og menn vita er ærin ástæða til að taka mörgu sem kemur úr fjölmiðlum með fyrirvara.

 

Í stjórnmálum verða gerð mistök og menn verða ósammála eins og alltaf allsstaðar.  Í október voru mistökin ekkert meiri eða öðruvísi en gengur og gerist í stjórnmálum og meirihlutasamstarfi.  Menn hafðu átt að sýna hvað í þeim bjó og leysa úr málum.  Í þeirri stöðu kaus Björn Ingi að svíkja sjálfstæðismenn frekar en að leysa málin og þá kom Dagur sigri hrósandi fram með samstarf 4 flokka sem lausn við því máli.  Enginn var málefnasamningurinn og ekki hægt að komast að samkomulagi þann tíma sem sá meirihluti sat, t.d. varðandi húsin á Laugarvegi.  Þá var ekkert athugavert við að borgarstjóri nr. 6 tæki við en allt í einu þegar borgarstjóri nr. 7 tekur við þá er mönnum ofboðið.  Ég veit ekki betur en að Samfylkingin eigi heiðurinn af ca. 90% af borgarstjórum Reykjavíkur undanfarin 8 ár (þetta eru reyndar engir vísindalegir útreikningar). Þegar Þórólfur Árnason var borgarstjóri var hann ráðinn og ópólitískur, það hafði ekki nokkur einasti maður kosið hann, er það betra?  Það er til siðs að ráða ópólitíska bæjar og borgarstjóra, er nokkuð verra að 10% borgarbúa hafi kosið Ólaf, er skárra að hafa hann ópólitískan með engin atkvæði á bak við sig??  Ég held að vinstrimenn ættu í dag að hætta að vera svona sárir taparar og fara að haga sér sómasamlega.

Sigurlaug Anna Jóhannsdóttir, 26.1.2008 kl. 21:26

7 identicon

þetta er ekki svaravert, sérstaklega ekki það síðasta.

Regína (IP-tala skráð) 31.1.2008 kl. 22:44

8 Smámynd: Sigurlaug Anna Jóhannsdóttir

Því var alls ekki beint persónulega til þín Regína mín  Það er mjög gaman að rökræða og skiptast á skoðunum um pólitík en mér finnst öllu máli skipta að tapa ekki húmornum í þessum klikkaða heimi stjórnmálanna.  Með því skemmtilegra sem við gerum í stjórnmálafræðinni í skólanum er að ögra hverju öðru, sérstaklega "andstæðingum" okkar í pólitík.  Það er amk bannað að taka þetta háalvarlega.

Sigurlaug Anna Jóhannsdóttir, 1.2.2008 kl. 16:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband