Einelti

Fyrir 7 árum kynntist ég konu þegar við unnum saman að verkefni í foreldrasamstarfi.  Við unnum saman að þessu verkefni og spjölluðum um daginn og veginn á fundum og í kring um þá eins og gengur og gerist.  Eitt sinn trúði hún mér fyrir raunum fjölskyldunnar og baráttu þeirra vegna eineltis sem sonur þeirra hafði lent í.  Ég man eftir þessari stund eins og hún hafi gerst í gær, við sátum á Súfistanum í Hafnarfirði, nánast ókunnugar konur en samt að ræða svo persónuleg mál.  Konan heitir, Ingibjörg og drengurinn hét Lárus.  Hún sagði mér á svo einlægan hátt og af svo mikilli yfirvegun frá hörmulegri reynslu drengsins og hennar sjálfrar sem og fjölskyldunnar allrar.  Ég held að tárin hafi runnið niður vanga mína megnið af þessu samtali og lengi á eftir gekk ég með þetta samtal í maganum.  Ingibjörg sagði mér frá því hvernig komið hefði verið fram við drenginn af börnunum sem lögðu hann í einelti, hvernig kennarinn, skólinn, hinir foreldrarnir og allt umhverfið hefði brugðist við.  Hún sagði mér líka hvernig hún brást við, systkyni drengsins og fjölskyldan öll.  Þetta var mjög átakanleg saga en ég man að ég hugsaði: drengurinn er amk heppinn að eiga þessa mömmu og ég er viss um að þetta fer vel að lokum.  Ég var alveg viss um það.  Ingibjörg fór í kennaranám, sérhæfði sig í málefnum um einelti og lagði sig fram á alla vegu til að bæta ástandið.  Ekki bara fyrir sinn son heldur fyrir málstaðinn.  Drengurinn fór í annann skóla og ýmis úrræði voru notuð og leit þetta vel út um tíma.  Sárin voru hins vegar of djúp og lést Lárus fyrir stuttu síðan.  Hann gat ekki meir.

Hugrekki Ingibjargar og þrautsegja er ástæða þess að ég skrifa þessar línur, hún kom fram í Kastljósi í gær.  Á Eyjunni er umfjöllun um málið og hægt er að skoða viðtalið í Kastljósinu.

Ég tek undir það sem kennarinn segir í þessari umfjöllun, það verða allir foreldrar að geta verið gagnrýnir á sín eigin börn og geta sætt sig við það að þau eru ekki fullkomin, hvorki börnin né foreldrarnir.  Foreldrar verða að hlusta á umhverfið, hjálpa börnunum sínum að takast á við það og leita aðstoðar ef þau telja sig ekki ráða við aðstæður. 

Mér sýnist að skólarnir og kennararnir séu í lykilhlutverki hvað varðar einelti, foreldrar gegna miklu hlutverki en þeir ráða illa við hluti sem gerast aðeins í skólaumhverfinu.  Það þarf að taka á þessum málum hratt og örugglega og það þarf mikið hugrekki og þor til þess.

Einelti fer fram þar sem fullorðnir sjá ekki til, á göngum skólanna og skólalóðinni.  Starfsfólk skólanna og kennarar þurfa að vera þar, á göngunum og á skólalóðinni, og hjálpa börnunum félagslega ekki síður en námslega. 

Þegar ég hef heyrt umræðuna um það að þátttaka kennara í leik sem og starfi barnanna sé mjög æskileg ef ekki nauðsynleg strandar hún ætíð á kjaramálum kennara.  Það er óþolandi ástand.  Kennarar þurfa að vera með krökkunum, þeir þurfa að þekkja samskipti þeirra, í hádeginu, á ganginum, á skólalóðinni, í íþróttahúsinu og í ferðalögum um helgar.  Kannski þannig gætum við komið í veg fyrir einelti.

Ég votta Ingibjörgu og fjölskyldu hennar alla mína samúð og vona að hún viti að ég dáist að hugrekki hennar.  Það er von hennar að þessi saga verði til þess að færri þurfi að þola slíkt ástand og umfjöllun hennar og hér hjá mér er til þess gerð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er mjög sorglegt mál í alla staði. En ég held að það sé einfaldað um of með því að halda því fram að einsleitur klæðnaður óg útbúnaður barna komi í veg fyrir einelti.

Það er þekkt að gerendur og þolendur bera ákveðin einkenni sem allir þurfa að vera vakandi fyrir. Kennarar og aðrir starfsmenn skóla eru í lykilstöðu til að bera kennsl á einelti og eins og þú segir þá fara mestu samskiptin fram utan skólastofunnar. Ég veit ekki hvort mér finnst endilega rétt að kennarar vakti krakkana utan skólastofunnar alltaf, það er hægt að fjölga starfsmönnum skóla til að sinna betur gæslu á göngum og á skólalóð.

Það er líka mjög mikilvægt að góður andi ríki í skólastofunni, ég tel að það sem börnin læra í skólastofunni fylgir þeim út í frímínútur líkt og gott uppeldi fylgir börnum út af heimilinu. En til þess þarf góðan kennara, til þess að halda í góðu kennarana þarf að borga þeim góð laun.

Öll svona mál á að kæfa í fæðingu til að koma í veg fyrir svona hræðilegar afleiðingar.  Skólinn þarf líka að hlusta á foreldrana því þeir eru sérfræðingar sinna barna.

Staðaímyndin af af barni sem lagt er í einelti er "litli lúðinn" sem er í ljótum Hagkaupsfötum og með ljóta skólatösku stenst því miður ekki því margir aðrir þættir koma þar inn aðrir eins og sjálfsmynd og sjálfsálit.

Ásdís Ýr (IP-tala skráð) 17.7.2008 kl. 15:00

2 Smámynd: Sigurlaug Anna Jóhannsdóttir

Takk fyrir innleggin Júlíus og Ásdís!  Ég held að skólabúningar geti verið til margs gagnlegir og þó það sé ekki hægt að segja að klæðaburður sé aðalástæða eineltis þá finnst mér vel þess virði að auka notkun skólafatnaðar í íslenskum skólum.  Verðmætamat barna hefur brenglast verulega í neyslubrjálæðinu undanfarin ár, rétt eins og hjá fullorna fólkinu.  Því miður hefur alltaf og verður líklega alltaf eitthvað um það að foreldrar "kaupi" börnin sín og friði sína eigin samvisku með gjöfum.  Þannig er heimur hinna fullorðnu líka og ég veit ekki hvort börnum er gerður greiði með því að vernda þau fyrir þeim raunveruleika.  En varðandi kennarana þá er ég kannski ekki að tala um að þeir vakti þau öll alltaf og endalaust en þeir þurfa að þekkja samskipti krakkanna út fyrir kennslustofuna.  Þegar ég spyr kennara dætra minna á foreldrafundum hvernig gengur hjá þeim í samskiptum við hina krakkana þá get ég ekki fengið nein svör, þeir hafa ekki hugmynd um það.

Sigurlaug Anna Jóhannsdóttir, 18.7.2008 kl. 16:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband