Hystería

Fréttirnar af mótmælunum á Austurvelli í gær voru með ólíkindum.  Eggja- og tómatakast að Alþingishúsinu okkar.  Um daginn birtist mynd af fólki með brennandi Landsbankafána.  Hverju heldur fólk að þetta muni skila?

Vilji fólk láta taka sig alvarlega þurfa umræður að vera málefnalegar og best væri ef þær eru lausnarmiðaðar en ekki bara sækja skítadreifarann og æða með hann um víðan völl.

"Ástandinu" sem við erum komin í hefur verið líkt við móðuharðindin sem er samlíking sem er bara algerlega út úr kortinu!  Vita menn ekki að í móðuharðindum dó fólk??  Allt að 25% af þjóðinni og um 75% af búfénaði.

Hér er enginn dáinn úr "ástandinu" og það lítur ekki út fyrir að það gerist, og ég sé ekki alveg hvernig það á að geta gerst.

Án þess að ég ætli að gera lítið úr "ástandinu"  langar mig að benda á að um peninga er að ræða!  Hér er ekkert stríð, hér er engin hungursneyð, engin fuglaflensa og ekki eyðnifaraldur.  Við erum að missa peninga og viðskiptasambönd.

Íslenskt samfélag hefur verið svo galið undanfarin ár og verðmætamat landans er fullkomlega brenglað.  Börnin okkar hafa orðið útundan í lífsgæðakapphlaupinu sem og ömmur og afar og allir þeir sem ekki geta hlaupið jafn hratt og allir hinir.  Starfsfólk hefur ekki fengist í umönnunarstörf hvorki á leikskólum, frístundaheimilum né hjúkrunarheimilum.  Þeir eru ófáir sem eru orðnir úttaugaðir af stressi yfir því að eiga ekki jafn mikið og helst meira en næsti maður, líta ekki jafn vel út og vera ekki í jafn góðri eða betri stöðu en nágranninn.

Íslendingar allir tóku þátt í góðærispartýinu á meðan á því stóð og fannst gaman.  Afleidd störf, tækifæri og velmegun blasti við allsstaðar.  Sumir eru betri í því að nýta sér slík tækifæri en aðrir, sumir eru nöldrar í eðli sínu og vilja hvorki vera með né una öðrum ánægju.  Þeir bara horfa á og eru öfundsjúkir.  "I told you so" fólkið er hávært núna og enginn vill kannast við að hafa haldið að þetta partý gæti staðið að eilífu.  Samt vekur "ástandið" upp slíka reiði í samfélaginu að annað eins hefur ekki sést í áratugi. 

Einna háværust er krafan um að kjósa aftur.  Það er rúmt ár frá því kosið var og eru kosningar dýrt fyrirbæri.  Ef það á að kjósa aftur finnst fólki þá að það eigi að halda prófkjör og velja upp á nýtt fólk á lista til framboðs?  Það kostar tíma og peninga.  En hvað með stefnumálin?  Viljum við að flokkarnir  fari fram með sömu stefnumálin og síðast?  Ef ekki þá þarf að halda landsfundi allra flokka og þeir fari í naflaskoðun með stefnu sína og framtíðarsýn.  Það er ekkert gagn í því að kjósa sömu flokkana, sama fólkið og sömu stefnumálin aftur.

Við vitum ekki einu sinni hvernig þetta "ástand" fer.  Það þarf að gefa slökkviliðinu tækifæri til að vinna og klára björgunarstörfin áður en við skiptum út slökkviliðinu.

Oft var þörf en nú er nauðsyn á að fólk taki þátt í pólitísku starfi, leggist á eitt að koma með hugmyndir og lausnir.  Fólk þarf að bjóða fram krafta sína.  Halda þarf landsfundi, endurskoða stefnumál, forysta allra flokka þarf að fá endurnýjað umboð (eða víkja), halda þarf prófkjör og svo getum við kosið aftur.  Mér sýnist að ef allt gengur vel ættum við að vera tilbúin í næstu kosningar um 2011.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband