Löggjafarvaldið styrkist ekki þó ráðherrar segi af sér þingmennsku

Heldur þvert á móti mun framkvæmdavaldið eflast enn frekar á kostnað löggjafarvaldsins.

Það sem raunverulega gerist þegar þingmaður segir af sér þingmennsku til að gegna ráðherraembætti er það að stjórnarliðum (þingmönnum stjórnarflokkana) fjölgar sem nemur ráðherrafjöldanum því varamenn koma inn í þeirra stað.  Minnihlutinn verður hlutfallslega minni í þingsalnum og hefur eftir sem áður engin önnur úrræði en að standa fyrir málþófi.

Ráðherrar þurfa eftir sem áður að flytja frumvörp sín í þinginu, svara fyrir frumvörpin og gerðir sínar, svara óundirbúnum fyrirspurnum í fyrirspurnartímum og verja þ.a.l. tíma sínum að töluverðu leyti á Alþingi.

Ef raunverulega á að styrkja löggjafarvaldið (sem ég tel að þurfi að gera) þarf að skýra þingræðið sem við búum við, en stjórnarskrá lýðveldisins Íslands má misskilja að þessu leyti auk þess sem  gefa þyrfti minnihlutanum einhver úrræði eins og gert er t.d. í Danmörku. 

Danska drottningin neitar ekki að skrifa undir lög sem samþykkt eru á danska þinginu enda er hreint þingræði í Danmörku.  Minnihlutinn á danska þinginu hefur hins vegar þann neyðarhemil, hafi hann sannfæringu fyrir því að meirihlutinn ætli með mál í gegn þvert á vilja þjóðarinnar, að beita þjóðaratkvæðagreiðslum.  Þegar réttinum til að knýja fram þjóðaratkvæðagreiðslur er fyrir komið hjá stjórnmálaflokkum á þingi en ekki einungis hjá þjóðinni með undirskriftasöfnunum er komin pólitísk ábyrgð á að framfylgja málum.  Því mun minnihlutinn ekki beita nema vilja taka þann pólitíska slag.  Heimildin í dönsku stjórnarskránni hefur aðeins einu sinni verið nýtt frá því stjórnarskráin var samþykkt 1953.


mbl.is Krafa um aukið lýðræði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég hélt nú að enginn mætti flytja frumvarp til laga á Alþingi nema þingmenn og ef ráðherra er ekki þingmaður þá situr hann ekki á Alþingi og ætti eðli málsins samkvæmt ekki að flytja frumvörp né greiða um þau atkvæði. 

Gulli (IP-tala skráð) 8.4.2009 kl. 13:49

2 Smámynd: Sigurlaug Anna Jóhannsdóttir

Sæll Gulli,  ráðherrar mæla fyrir sínum frumvörpum hvort heldur sem þeir eru þingmenn eður ei.  Þú hefur tekið eftir því að Gylfi Magnússon og Ragna Árnadóttir sem eru ráðherrar en ekki þingmenn mæla fyrir sínum frumvörpum sjálf?  Þau hafa hins vegar ekki atkvæðisrétt á þingi.

Sigurlaug Anna Jóhannsdóttir, 8.4.2009 kl. 14:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband