Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
23.1.2008 | 23:04
Hetja fallin frá
Á mánudaginn lést vinkona mín, hún Þórdís Tinna. Á svona stundum veltir maður því fyrir sér hvað maður getur gert og sagt en upplifir sig vanmáttugan. Á fimmtudaginn heimsótti ég Þórdísi og eins og venjulega hlógum við og gerðum áætlanir um framtíðina. Ekki var það á henni að sjá að svona stutt væri í lokin. Þetta er óskaplega sárt og sendi ég Kolbrúnu Ragnheiði, Sigrúnu, Benna, foreldrum Þórdísar og vinum og aðstandendum öllum mínar dýpstu samúðarkveðjur. Ég var heppin að fá að kynnast Þórdísi og hennar lífsskoðunum og lærði ég margt af henni. Það er ekki oft sem maður hittir fólk sem er jafn hláturmilt, jákvætt, baráttuglatt og duglegt eins og Þórdís var. Hún var alltaf á leiðinni eitthvert og lagði sitt af mörkum hlæjandi og kát. Hennar verður sárt saknað.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
22.1.2008 | 11:42
Vonandi ekki
Af hverju skyldi myndun þessa borgarstjórnarmeirihluta hafa áhrif á ríkistjórnarsamstarfið frekar en myndun fráfarandi meirihluta gerði fyrir 103 dögum síðan?? Það þætti mér skrítið.
Maður veltir því fyrir sér hvort það borgi sig nokkuð að vera að tjá sig um málið enda er það allt hið skrítnasta. En ég geri það nú samt
Fyrst og fremst finnst mér skrítið að umfjöllunin manna á meðal, svona það sem ég hef heyrt, sé þannig að það sé eitthvað bogið við það að stjórnmálaflokkar skuli vilja vera við völd. Eftir því sem ég kemst næst er það eitt af meginmarkmiðum stjórnmálaflokka að vilja vera við völd, axla ábyrgð og fá tækifæri til að hafa áhrif.
Þessi möguleiki var í stöðunni, það gat hver sem er sagt sér að sjálfstæðismenn myndu ekki una þeirri niðurstöðu sem myndun fráfarandi meirihluta var. Að ætla sér að koma svo núna skælandi um óheiðarleika og brostið traust er auðvitað hlægilegt.
Staða Margrétar Sverrisdóttur er líka mjög skrítin, svo ekki sé sterkar að orði kveðið. Manni sýnist á málefnaskránni að "Frjálslyndir" geti unað sáttir við sitt en það virðist ekki hvarfla að Margréti að styðja þann meirihluta sem ætlar að framfylgja þeim stefnumálum sem hún barðist fyrir í kosningabaráttunni vorið 2006. Margrét fer að verða einhverskonar pólitískt viðundur....
Ég set samt ákveðinn fyrirvara um það hvort þetta sé Sjálfstæðisflokknum mjög heilladrjúgt skref, þá sérstaklega að taka þátt í samstarfi sem byggir á enn einum borgarstjóranum sem hefur engann varamann( amk ekki neinn sem styður hann) og er auk þess kannski ekki alveg nógu heilsuhraustur.
Sem verðandi stjórnmálafræðingur hef ég ákveðnar áhyggjur af trúverðugleika stjórnmálamanna og stjórnmálaflokka eftir umræður síðustu vikna. Ég held að almenningur á Íslandi fari að kalla eftir auknu siðferði í stjórnmálum!! Bókstaflega öskra á það. Undanfarið hefur hver embættisfærslan á fætur annarri verið gagnrýnd harkalega og í þessu er enginn einn flokkur betri en annar. Heilt yfir held ég að allir stjórnmálaflokkar þurfi að staldra aðeins við og horfa inn á við á næstu misserum.
Engin áhrif á stjórnarsamstarf | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
18.1.2008 | 16:00
Kæru vinir
Mér finnst Hallgrímur Helgason ekki alltaf jafn skemmtilegur en þetta er drepfyndið!!
Fyrir þá sem vilja ekki lesa dönsku er þetta hér á íslensku:
Stjórnmál og samfélag | Breytt 6.2.2008 kl. 15:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.1.2008 | 22:30
Nýtt ár
Ég verð nú að viðurkenna að bloggandinn er ekki yfir mér þessa dagana. Skólinn er að byrja, BA ritgerðin er við fótskörina og 2 kúrsar í viðbót. Útskrift er væntanleg 14.júní og svei mér þá ef ég er ekki farin að velta fyrir mér MPA námi í opinberri stjórnsýslu.
Snjórinn heillar mig mjög og vonumst við í fjölskyldunni til að hann færi okkur tækifæri til skíðaiðkunar næstu vikurnar. Við skelltum okkur í Bláfjöll á laugardaginn en það kostaði okkur hjónin og 2 dætur 5100 kr. Í Bláfjöllum þennann dag voru 2 lyftur opnar auk barnalyftu sem er gjaldfrjáls. Milli þessarra tveggja gjaldskyldu lyftna var ekki hægt að skíða og urðum við því að velja aðra hvora. Veitingasala var lokuð og salernisaðstaða takmörkuð. Manni finnst dálítið súrt að borga fullt verð fyrir svo takmarkaða þjónustu. Vonandi verður þjónustan betri næstu helgi.
Ferming er í undirbúningi á heimilinu og er það mjög spennandi verkefni og ánægjulegt. Einhver ferðalög eru líka á dagskránni og árið leggst bara vel í okkur.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.1.2008 | 10:29
Tárin virkuðu
Þetta er orðið æsispennandi prófkjör og því er greinilega hvergi nærri lokið. Þessi úrslit í New Hampshire gætu þýtt að úrslitin verði ekki ljós fyrr en talin hafa verið öll atkvæði í öllum fylkjum.
Ég get alveg trúað því að álagið við að taka þátt í þessu sé gríðarlegt og sérstaklega fyrir Hillary sem stóð með pálmann í höndunum og næstum viss um sigur þegar allt í einu virtist sem Barack Obama ætlaði að hrifsa af henni sigurinn á lokasprettinum. En ekki átti ég von á því að þessi járnfrú, sem í gegnum niðurlægjandi framhjáhald manns síns auk allra þeirra krefjandi verkefna sem þau hjónin hafa tekist á við sl. áratugi, myndi spila út konuspilinu og bugast í beinni útsendingu. Hjá fólki eins og þessu er ekkert sem heitir að bugast og tilviljanir eru ekki inni í myndinni, þá væri hún ekki komin á þennann stað í lífinu. Ég leyfi mér því að halda því fram að þetta sé allt partur af leikritinu sem nú fer fram í Bandaríkjunum. Stjórnmál eru stundum ekkert annað en leikrit, spunaleikrit. Skemmtanagildið er ótvírætt fyrir þá sem hafa gaman af þessari tegund af leikritum.
Clinton vann í New Hampshire | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
3.1.2008 | 16:54
Forsetakosningar í Bandaríkjunum
Það lítur út fyrir spennandi forsetakosningaár árið 2008. Að minnsta kosti verður kosið um forseta Bandaríkjanna og jafnvel um forseta Íslands ef marka má fréttir af því að Ástþór Magnússon ætli að bjóða sig fram í þriðja sinn.
Næsta öruggt þykir að Repúblikanar munu ekki eiga næsta forseta Bandaríkjanna eftir 8 ára stormasama valdatíð George W. Bush. Óvinsældir hans hafa vaxið mjög mikið og þykir mér ekki ólíklegt að þau gildi sem flokkur hans stendur fyrir hljóti mun minni hylli meðal almennings í Bandaríkjunum.
Kastljósið beinist því helst að frambjóðendaefnum Demókrataflokksins. Forkosningar verða haldnar í öllum fylkjum BNA núna næstu vikur og eru þær fyrstu í Iowa fylki í dag. Samkvæmt síðustu skoðanakönnunum sem gerðar voru áður en kjörstaðir opnuðu var Barack Obama kominn með forystuna með 31% atkvæða, John Edwards með 27% og Hillary Clinton með 24% atkvæða.
Mjög mikilvægt er að fá góða útkomu út úr fyrstu forkosningunum því þær virðast gefa tóninn og fordæmi fyrir það sem á eftir kemur. Hillary Clinton hefur þótt gríðarlega sigurstrangleg í þessari baráttu en Obama og Edwards verið töluvert á hæla henni. Ef skoðanakönnunin sem Reuters birti í morgun virðist dæmið vera að snúast við, Obama í hag. Ef svo fer er það gríðarlegt pólitískt áfall fyrir Hillary.
Hvað það er sem veldur þessum viðsnúningi er ekki alveg gott að átta sig á en víst má telja að óvæntur stuðningur Opruh Winfrey við Obama hlýtur að teljast vera hvalreki á fjörur hans. Oprah hefur verið ötull stuðningsmaður Clinton hjónanna og átti hún víst erfitt með að taka þessa ákvörðun. Oprah nýtur gríðarlegra vinsælda í BNA sem og víða í heiminum. Hún hefur látið til sín taka á flestum sviðum samfélagsins og vakið athygli á mörgum málum og gert mörg góðverk. Á tímabili var talað um að hún sjálf myndi bjóða sig fram til forseta. Það hefði kannski ekki verið svo galin ákvörðun. Hún er eldklár, valdamikil svört kona sem virðist hafa ríka siðferðiskennd og hjartað á réttum stað.
Ég sjálf hef ekki verið mjög hrifin af Hillary Clinton, mér finnst hún hafa haft of mikil völd of lengi og er orðin of mörgum háð. Það er engum hollt að hafa mikil völd lengi. Hún hefur haft tvær skoðanir á Íraksmálinu og ekki tókst henni að þoka málum varðandi heilbrigðismálin í BNA sem hún ætlaði nú aldeilis að taka til endurskoðunar þegar maður hennar varð forseti og fól henni það hlutverk. Hún hefur þegið töluverðar greiðslur frá bandarísku tryggingafélögunum og virðist sem þau hafi keypt sér þögn hennar.
Mér finnst líka ógnvænleg tilhugsun að tvær fjölskyldur skuli ráða forsetaembætti BNA í 24- 28 ár. George Bush eldri tók við embættinu 1989, Clinton þar á eftir, George W. Bush 2001 og ef Hillary kemst að og situr í 8 ár eru það samfleytt 28 ár sem þessar 2 fjölskyldur sitja á stóli forseta Bandaríkjanna.
Barack Obama virkar vel á mig og spái ég því að hann sigri forkosningarnar og verði frambjóðandi Demókrata og þar með næsti forseti BNA. Hann viðurkenndi að hafa prófað eiturlyf á sínum yngri árum og virðist það vera hans stærsti glæpur. Í mínum eyrum hljómar það eins og ærleg viðurkenning á rangri ákvörðun í æsku. Hvert okkar gerði ekki einhver glappaskot í æsku?? Er hann ekki kannski bara stærri maður fyrir vikið að þora að viðurkenna mistök sín?
Hvort heldur sem Obama vinnur eða Clinton verður það sögulegt í BNA að svartur maður eða kona er í fyrsta skipti forseti Bandaríkjanna.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 8.1.2008 kl. 15:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.12.2007 | 12:04
Gleðileg Jól
Óska öllum nær og fjær gleðilegra jóla og ánægjulegrar hátíðar.
Vegna anna við prófalestur tókst ekki að senda út jólakort í ár. Þetta verður að duga.
Knús og kossar sjáumst hress á næsta ári.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.12.2007 | 22:57
Kveikjum á kertum fyrir Þórdísi Tinnu
Þórdís Tinna vinkona mín er ekki nógu hress þessa dagana.
Ég bið ykkur öll að senda henni baráttustrauma og kveikja á kerti(um) fyrir hana og Kolbrúnu Ragnheiði yndislegu 9 ára dóttur hennar.
13.12.2007 | 09:11
Ekki gott
Þetta er ástæða þess að ég skrifaði grein í Fjarðarpóstinn fyrir 2 vikum síðan. Fyrir viku síðan birtist á sama vettvangi svar formanns Fræðsluráðs Hafnarfjarðar.
Þar sér formaðurinn ástæðu til að nefna að ég hafi fyrir 2 árum síðan verið í framboði fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Hafnarfirði, eins og það skipti einhverju máli. Ég skrifaði greinina í mínu nafni en ritstjóri Fjarðarpóstsins skrifaði undir að ég væri í foreldrafélagi Lækjarskóla. Sem er alveg rétt. Ég gegni ýmsum hlutverkum í lífinu í fortíð og nútíð en þar með fyrirgeri ég varla rétti mínum á að vera einstaklingur og móðir fyrst og fremst.
Af svarinu að dæma sýnist mér ekki búið að ákveða það með hvaða hætti þetta á að vera í Hafnarfirði. Þó er ég aðeins upplýstari um stöðuna í þessum málum, í svarinu voru ágætar upplýsingar fyrir foreldra og eflaust skólastjórnendur í Hafnarfirði sem ekki höfðu komið fram áður.
Svar formannsins er á þá leið að við öll eigum að borga, ekki bara sveitarfélagið heldur foreldrarnir að hluta til líka. Ef það er niðurstaðan þá verður framið lögbrot í Hafnarfirði.
Þó að málið sé óþægilegt fyrir Samfylkinguna í Hafnarfirði hljóta fræðsluyfirvöld að gera sér grein fyrir því að það þarf að takast á við þetta mál og setja það í einhvern farveg. Þau eru að minnsta kosti ekki yfir það hafin að svara fyrirspurnum foreldra.
Ólögleg gjaldtaka skólanna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
11.12.2007 | 19:59
Ikea er málið
Við í fjölskyldunni vorum ægilega ánægð með það að Ikea flutti í nágrennið okkar og ætluðum að fara OFT þangað bæði til að leika okkur, versla og borða.
Eitthvað förum við nú minna en til stóð en engu að síður er alltaf gaman að koma í Ikea.. Þegar það er að verða kertalaust heima hjá mér er kominn tími á Ikea ferð.
Kjötbollurnar draga okkur líka í Ikea, yfirleitt ekki til að borða þær þar heldur til að kaupa þær frosnar, eiga í frystinum og elda heima. Ekki spillir að lesa um að þær hafi komið svona vel út í könnun Neytendablaðsins í Svíþjóð. Ég held að Svíar geri miklar kröfur til innihalds í matvælum. En 84% segir allt sem segja þarf.
Ikea-kjötbollurnar eru án efa sænskar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |