Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
9.3.2008 | 20:11
Póstkortadagur í Bláfjöllum
7.3.2008 | 12:01
Foreldrarölt
Foreldrar eru mjög ólíkir og er það eitt af því sem gerir foreldrasamstarfið svona skemmtilegt er að maður er alltaf að heyra nýjar skoðanir og hliðar á málum sem mér hefði aldrei dottið í hug.
Sumir foreldrar ofvernda börnin sín og hafa skoðanir á öllu á meðan aðrir eru alveg máttlausir.
Ég var á fundi í skólanum í gærkvöldi og tók þar til máls forvarnarfulltrúi Hafnarfjarðar sem ræddi m.a. um foreldraröltið. Mér fannst mjög gaman að heyra hann svara spurningunni sem ég hef svo oft heyrt en aldrei skilið viðhorf þeirra sem spyrja svona: Af hverju á ég að vera úti að rölta til að passa annarra manna börn þegar mín börn eru bara heima......??
Hann sýndi fram á með tölfræði að glæpir, innbrot, vímuefnaneysla, reykingar og áfengisneysla hrapar í þeim hverfum þar sem foreldrarölt er virkt.
Þó börnin mín séu ekki úti að þvælast á kvöldin finnst mér það góð tilfinning að sýna samfélagslega ábyrgð og ganga um hverfið. Mig munar ekkert um það og það er fínasta heilsubót. Dætur mínar sjá að foreldrar eru úti á foreldrarölti sem segir þeim að það þýðir nú lítið að vera að þvælast úti. Þ.a.l. reikna ég ekki með að þær haldi að það sé spennandi möguleiki. Þannig finnst mér ég slá margar flugur í einu höggi
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
2.3.2008 | 21:18
Fæðuöryggi
Þetta hlýtur að vera nýyrði í íslensku Þetta er ábyggilega nýtt hugtak í umræðunni um öryggismál á Íslandi. Að minnsta kosti hef ég ekki heyrt talað um fæðuöryggi áður.
Mér finnst svosem virðingarvert að fara með umræðu um íslenskan landbúnað á annað plan en hann hefur verið á. Íslenskur almenningur vill ódýrari matvæli og íslenskir bændur skrimta. Þó að við séum með dýrasta landbúnaðarkerfi í heimi virðist enginn græða á því, nema kannski milliliðurinn. Í mínum huga er eitthvað bogið við þetta fyrirkomulag.
Íslenskur landbúnaður er í toppklassa, á því leikur enginn vafi. Hann stendur hins vegar engann veginn undir sér og bændur kvarta sáran. Fé er bókstaflega ausið inn í landbúnaðarkerfið frá hinu opinbera og íslenskur almenningur borgar auk þess hæsta verðið fyrir matvæli í heiminum.
Ég verð þó að viðurkenna að þrátt fyrir gæðin í framleiðslunni á Íslandi er afraksturinn oft á tíðum ekkert spes. Ég myndi t.d. velja ítalskt salami, svissneska osta og þýska skinku umfram íslenskt á hverjum degi ef ég gæti.
Við búum á mörkum hins byggilega heims. Ég hef aldrei skilið af hverju við erum að rembast við að framleiða flestar tegundir af grænmeti og allar tegundir af kjöti hér uppi á norðurslóðum. Það eru einfaldlega aðrir miklu betri í því en við. Íslenska lambakjötið er þó afburðavara sem mér finnst vert að halda í, en mín vegna mætti skrúfa niður í þessu öllu og byrja að kaupa sólbakaða tómata og gúrkur frá Afríku eða Spáni allt árið um kring.
Er raunveruleg hætta á því að samgöngur, til og frá Íslandi, á 21. öldinni leggist af? Er fæðuöryggi þjóðarinnar raunverulegt viðfangsefni? Mér finnst mjög skrítin rök sem segja mér að halda úti dýrasta landbúnaðarkerfi í heimi sem skilar lélegum árangri ef það skyldi einhverntíman fara svo að allar samgöngur leggist skyndilega af.....
Hlutverk landbúnaðar í fæðuöryggi þjóðarinnar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
29.2.2008 | 11:01
Merkilegt fyrirbæri
Skoðanir mínar á fermingum eru varla prenthæfar og ætla ég því að láta þær liggja milli hluta. Það vita allir á heimilinu skoðun mína en hún breytir víst engu. Eldri dóttirin er að fara að fermast en það hefur hún sjálf ákveðið að gera og það virði ég. Við erum öll í þjóðkirkjunni en ég hef verið á leiðinni að skrá mig úr henni í í á annað ár núna en læt aldrei verða af því. Ég trúi ekki á guð.... Maðurinn minn trúir á guð og eldri dóttirin, þessi sem er að fermast, er ekki alveg viss. Hún vill amk ekki taka ákvörðun um að hann sé ekki til alveg strax þó hún efist mjög. Yngri dóttirin er ekki nógu gömul til að þurfa að ákveða sig strax.
Fermingarbarnið er ákaflega upptekið, hún er tímunum saman í viku í leiklist í skólanum, æfir á gítar og líka freestyle. Svo eru það vinirnir og skólinn.
Þetta þýðir það að ég er ein að fermast....... það þarf að panta allskonar hluti og ákveða allskonar hluti og kaupa alls konar hluti og ég sit sveitt við síman og hleyp um allann bæ til að sækja prufur af þessu og hinu og græja alla mögulega hluti. Þegar heim er komið er afraksturinn borinn undir fermingarbarnið sem stúderar allt vandlega og er svo ekkert feimin við að segja æ nei ég fíla þetta ekkert..... Þá má ég gjöra svo vel að fara í annann leiðangur.....
Pabbinn er sendur í eina og eina sendiferð og er spurður álits af og til. Hann er ekkert mikið að stressa sig á því hvort kertin eru svona eða hinsegin eða dúkarnir eða blómin.....
En einu hefur hann sérstakan áhuga á og það er það að hafa kransaköku í fermingunni Það finnst fermingarbarninu ekki gott og heldur ekki mömmunni.... en í þessu er hann alveg ákveðin og verður ekki haggað. Svo alvarlega tekur hann þetta að hann fór á kransakökunámskeið í Blómavali á mánudagskvöldið og bakaði sína eigin kransaköku...... fermingarbarninu var að sjálfsögðu dröslað með við gríðarlegan fögnuð Mamman og fermingarbarnið eru hins vegar búnar að panta sér sína fermingartertu í Mosfellsbakaríi og eru hæst ánægðar með sig
Fermingarvefur á mbl.is | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
20.2.2008 | 18:07
Von
Ég á það til að gleyma mér í hugsjónum og baráttugleði og hef óbilandi trú á því að allt sé hægt ef viljinn er fyrir hendi. Stundum hlær fólk að mér og finnst þetta bara sætt en mjög óraunhæft hjal. Ég læt mér ekki segjast og er staðráðin í að hafa mína trú áfram sama hvað hver segir.
Þegar ég lærði um kenningar í alþjóðastjórnmálum í skólanum þyrmdi dálítið yfir mig, sérstaklega þegar ég las um Macchiavelli og realismann sem er hugmyndafræði sem var við lýði í alþjóðastjórnmálum frá seinni heimstyrjöld til loka kaldastríðsins. Hugmyndafræðin er enn í fullu gildi þó aðeins hafi fjarað undan henni þar sem endalok kaldastríðsins hefðu ekki átt að geta átt sér stað samkvæmt henni með þeim hætti sem þar gerðist. Realisminn er í stuttu máli sú hugmyndafræði að aðeins ríki séu gerendur í alþjóðasamfélaginu og að allt sé hugsað út frá völdum og hagsmunum. Reiknað er með því að menn séu vondir og hugsi bara um eigin hag. Það eru menn sem stjórna ríkjum og svoleiðis hugsi þeir.
Bandaríkin eru forysturíki í alþjóðamálum í dag, einpóla kerfi ríkir. Embætti forseta Bandaríkjanna er valdamesta embætti heimsins. Það skiptir gríðarlegu máli fyrir okkur öll hver er forseti í Bandaríkjunum. Hingað til hafa miðaldra hvítir karlmenn gegnt embættinu og realisminn verið ríkjandi hugmyndafræði í stjórnmálum BNA.
Í forsetakosningunum sem fram fara 4. nóvember nk. munu 2 frambjóðendur keppast um valdamesta embætti heimsins. Nokkuð ljóst er orðið að McCain verður frambjóðandi Repúblikana en ekki enn er vitað hvort Hillary Clinton eða Barack Obama verði frambjóðandi Demokrata. Einhver þessara þriggja aðila verður forseti BNA á næsta ári. Í öllum tilfellum verður einstaklingurinn sem valinn verður sérstakur fyrir einhverra hluta sakir. Clinton yrði fyrsta konan sem myndi gegna þessu embætti, Obama yrði fyrsti blökkumaðurinn og McCain yrði elstur til þess að verða settur í embætti á fyrsta kjörtímabili. Regan var eldri en McCain þegar hann var settur í embætti þegar hann gegndi seinna kjörtímabili sínu.
Stjórnmálaspekúlantar segja að Barack Obama sé líklegri en Hillary Clinton til að vinna MacCain þegar á hólminn er komið. Menn eru nefnilega hrifnari af því að svartur maður setjist í Hvíta húsið en kona. Í McDonaldslandi eru menn ótrúlega íhaldssamir sem er skrítið miðað við að þeir vilja kalla sig land tækifæranna og þar ægir öllu saman og umburðarlyndið á að vera algert.
Sannur frambjóðandi Repúblikana er á móti fóstureyðingum, leyfir skotvopnaeign og er fylgjandi stríði og dauðarefsingum. John MacCain fer dálítið út af sakramenntinu en mig minnir að hann sé m.a. fylgjandi fóstureyðingum og því að skotvopnaeign verði takmörkuð með einhverjum hætti. Þetta gerir það að verkum að stór hluti Repúblikana getur ekki fallist á hann sem frambjóðanda og einhverjir ætla að sitja heima á kjördag frekar en að kjósa hann.
Eins og áður hefur komið fram er ég ekki sérlega hrifin af Hillary Clinton, mér finnst hennar tími vera liðinn og hún orðin of mörgum háð of lengi til þess að eiga það skilið að fá enn eitt tækifærið.
Barack Obama gefur mér ástæðu til að trúa því að verði hann kjörin muni heimurinn sjá breytta alþjóðapólitík. Hann er ekki og hefur aldrei verið fylgjandi stríðinu í Írak. Hann hefur áhuga á að bæta tengslin við Asíu og Afríku. Það er kominn tími til að prófa aðrar leiðir í alþjóðasamskiptum en hingað til hafa verið stundaðar. Sérstaklega er áríðandi að skoða málefni NATO og Rússa og jafnvel samskiptin við Kína. Afríka þarf líka sárlega á því að halda að alþjóðakerfið gefi þeim fleiri tækifæri til viðskipta. Ég trúi því að Barack Obama muni gera þetta. Móðir hans var táningur þegar hún átti hann og pabbi hans stakk af þegar hann var 2 ára. Hann er lögfræðingur að mennt og starfandi þingmaður. Þegar ég hlusta á ræður hans finnst mér vera ástæða til að vera bjartsýn á framtíð heimsins. Kíkið sjálf á hann hér.
18.2.2008 | 17:57
Valkreppa Villa
Staða Vilhjálms í borgarstjórn minnir mig dálítið á prisoners dilemma (valkreppa fangans) sem er félagsfræðileg tilraun og oft talað um í náminu mínu. Þar eru í rauninni allir kostir vondir nema augljóslega sá sem ekki er í boði. Sá sem ekki er í boði er að vera frjáls, hinir kostirnir eru mis vondir.
Vilhjálmur hefur 4 kosti í núverandi stöðu en þó í rauninni bara 3 því sá fyrsti er að sitja áfram og vera borgarstjóraefni sjálfstæðismanna en það er bara ekki í boði. Ef óbreytt ástand væri möguleg þá væri ekki öll forysta flokksins að bíða eftir svari frá honum. Það þarf enga ákvörðun og ekkert svar ef engu á að breyta, það er alveg ljóst. Það hefur enginn landsmaður áhuga á því að Vilhjálmur verði borgarstjóri aftur, það held ég að sé deginum ljósara.
Næsti kostur er að sitja áfram sem borgarfulltrúi en gefa frá sér borgarstjóraembættið. Ef það er kosturinn sem stefnt er að og verið er að leysa úr því hver sá aðili eigi að vera, þá er í raun Vilhjálmur að hanga á þessu til að gefa hinum "andrými" til að skera úr um næsta borgarstjóraefni flokksins. Væri það raunin, hefði hópurinn átt að mæta með honum á "blaðamannafundinn" pínlega sem var fyrir viku síðan í Valhöll. Fyrst það var ekki svo, sýnist mér það ekki vera það sem vakir fyrir Villa.
Þriðji kosturinn er að segja af sér embætti með öllu og hverfa úr borgarmálunum. Það held ég að Villa langi ekki. Þá er Hanna Birna sjálfkrafa oddviti flokksins. Það þætti mér lang besta niðurstaðan af þeim öllum því ég hef ofurtrú á Hönnu Birnu. Hún er opin, heiðarleg, ákveðin og talar um málin af þekkingu, festu og reynslu. Þegar hún talar brosi ég alltaf út í annað og kinnka kolli.
Fjórði kosturinn og síðasti er sá sem ég er farin að hallast að að sé það sem er að gerast í málunum en ég hreinlega vil ekki trúa því. Það er sá kostur að Vilhjálmur ætli sér að ríghalda í stólinn sinn og ætlar ekki að fara fet. Hann er réttkjörinn borgarfulltrúi og flokkurinn getur ekki látið hann fara. Vilhjálmur getur valið að vera óháður borgarfulltrúi og sagt skilið við Sjálfstæðisflokkinn þannig að meirihlutinn springur. Ekki væri hægt að mynda nýjan meirihluta án Vilhjálms og stjórnarkreppa í Reykjavík. Ég held að það sé líka ljóst að "Tjarnarkvartettinn" vilji ekkert með hann hafa.
Ég tek það fram að þetta eru bara mínar stjórnmálafræðilegu vangaveltur og ekki byggðar á neinum heimildum um stöðuna í Reykjavík. Það er gaman að pæla í hlutunum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 19.2.2008 kl. 11:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
6.2.2008 | 16:52
Öskudagur
Helena frænka mín er mikil vinkona mín. Við vinnum saman í foreldraráði Lækjarskóla og höfum gert í nokkur ár. Við höfum brallað ýmislegt en stærsta verkefnið sem við höfum unnið saman er varðandi öskudag í Hafnarfirði. Hún sagði frá þeirri vinnu okkar í samfélagi í nærmynd í gær á rás 1.
Helena er líka samfylkingarkona í Hafnarfirði og varabæjarfulltrúi. Við erum oftast sammála en stundum erum við ósammála eins og gengur og gerist. Þá rökræðum við málin þangað til við komumst að niðurstöðu. Það má segja að það sem við gerum saman sé þverpólitísk samstaða um. Helena komst sjálf best að orði þegar hún sagði: er ekki sama hvaðan gott kemur! Þetta finnst mér ágæt speki. Það fer best á því að fólk af öllum stærðum og gerðum og úr öllum flokkum vinni saman að betra samfélagi.
30.1.2008 | 12:55
Fjarðarpósturinn
Ég er dyggur lesandi Fjarðarpóstsins. Í blaði þessarar viku sem var að koma út er sérstaklega tvennt sem ég er ánægð með. Það má lesa Hér. Annarsvegar er ég sammála leiðara blaðsins með það að Hafnarfjörður ætti að bjóða bæjarbúum upp á betri aðstöðu til vetraríþrótta. Skautasvell er í umræðunni en ég held líka að tjarnirnar í bænum hljóti að vera fínustu skautasvell þegar þær frjósa, því er þó ekkert sinnt sérstaklega hér. Einnig væri frábært að setja upp litla skíðalyftu í einhverri brekkunni hér í bænum eins og gert er í Ártúnsbrekkunni og í Breiðholtinu. Þangað hef ég verið að fara með yngri skvísuna mína til að leyfa henni að æfa sig á skíðum og er það frábærlega sniðugt og skemmtilegt (og auðvelt).
Þegar við fórum á skíði í Bláfjöllum þar síðustu helgi lentum við í því að vera hálfnuð uppeftir á krísuvíkurleiðinni þegar við komumst að því að það var ófært af því það hafði ekki verið mokað þangað. Það varð til þess að við þurftum að snúa við og fara hinn hringinn, þetta ferðalag tók okkur rúman klukkutíma sem annars tekur hálftíma.
Hitt sem ég varð ánægð með í Fjarðarpóstinum var að sjá auglýsingu frá Hafnarfjarðarbæ um öskudagsskemmtun í bænum í ár. Skemmtunin verður úti, á Thorsplani, vegleg skemmtiatriði verða í boði fyrir krakkana (Hara systur og diskótek), opið hús verður í Rauða kross salnum við hliðina á planinu og boðið upp á kakó og vöfflur fyrir krakkana. Mér finnst líka sniðugt að hafa öskupokakeppni þannig að siðurinn að sauma öskupoka deyji ekki alveg út. Þetta finnst mér frábært framtak hjá Hafnarfjarðarbæ.
27.1.2008 | 23:48
Brúðguminn
Í sumar vorum við svo heppin að vera boðið út í Flatey einmitt þegar var verið að taka upp myndina um brúðgumann. Þess vegna fórum við á myndina í dag með töluverðri eftirvæntingu. Á heildina litið vorum við ánægð með myndina. Flatey á stærsta leiksigurinn í þessari mynd. Ægifagurt er á eynni auk þess sem veðrið var þannig að erfitt er að ímynda sér það betra.
Þó verð ég að viðurkenna að mér fannst myndin ekki ganga alveg nógu vel upp, ég upplifði ekki angistina í sögunni og mér fannst aðalleikararnir ekki ná nógu vel saman. Allir aðrir en aðalleikararnir voru þó frábærir. Helst langar mig að nefna Ólaf Darra, Þröst Leó og Margréti Vilhjálms. Hilmir Snær olli mér svolitlum vonbrigðum og Laufey Elíasdóttir var ekki alveg að gera sig, því miður.
Unglingsdóttir mín var líka dálítið ringluð í upphafi myndar þar sem mikið er farið fram og til baka í tíma. Ég mæli eindregið með myndinni en þó enn frekar með Flatey sjálfri.
Ólafur Egilsson bloggar Hér um dvöl leikaraliðsins í Flatey í ágúst og eru þar heilmargar myndir, á einni þeirra (með lundunum) má sjá yngri dóttur mína.
Hér eru myndir af hópnum okkar í Flatey.
Góð aðsókn á Brúðgumann | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
24.1.2008 | 11:39
Stjórnmál á Íslandi hvað!!
Þeir sem núna hrópa hvað hæst um lýðræðisskrum, spillingu og valdagræðgi ættu að kíkja á stjórnmálin á Ítalíu og þá sjá menn alvöru vandræði í stjórnmálum.
Prodi hefur átt í stökustu vandræðum með að halda sjó alveg frá því hann tók við völdum af Berlusconi. Hann hefur þurft að verjast vantrauststillögum, sagt af sér og hætt við að segja af sér og nú sýnist manni hann endanlega vera að gefast upp. Stjórnmálaferill Prodis hefur verið heldur brösóttur en einhvernveginn tórir hann alltaf. Hann var ekki sérlega farsæll forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og að manni sýnist hefur hann ekki verið sérlega farsæll forsætisráðherra á Ítalíu heldur.
Ætli hann lafi ekki á því að almenningi á Ítalíu finnst hann vera skömminni skárri en Berlusconi. En að geta ekki tekið á þessum ruslamálum í Napólí er nú eiginlega hálf vandræðalegt og hlægilegt, svo ekki sé meira sagt.
Kosningakerfið á Ítalíu er meirihlutakerfi eins og er á Íslandi, munurinn er sá að þröskuldur til að fá mann inn á þing eru minni auk þess sem Ítalir eru með efri deild á þingi sem flækir málin aðeins. Þar ganga menn bundnir til kosninga og mynda kosningabandalög. Þegar síðast var kosið árið 2006 var kosið um 2 kosningabandalög annarsvegar Hús frelsisins bandalag Berlusconis og hinsvegar Ólífubandalag Prodis sem vann nauman sigur. Það samanstóð í kosningunum af 9 vinstriflokkum sem hver hafði sína sérstöðu.
Það er vandséð hvernig á að leysa málin á Ítalíu enda miklu fleiri þættir sem spila þarna inn í og ljóst er að þetta fyrirkomulag ekki alveg að virka þarna, líklega verður gengið til kosninga þrátt fyrir að ekki séu liðin 2 ár frá síðustu kosningum.
Mér hefur dottið í hug að kosningabandalög séu góð leið til að fara í sveitarstjórnarmálum á Íslandi. Í sveitarstjórnarmálum eru ekki sömu átakalínurnar og í landsmálunum. Menn eru oftar sammála í sveitunum. Það er óþarfi að gera hlutina of flókna. Það ætti að duga að 2 flokkar eða 2 bandalög keppist um völdin. Þá ganga menn bundnir til kosninga og kjósendur hafa skýra valkosti.
Prodi mun ekki segja af sér | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |