Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

fara hvergi

Það voru alvöru rök í málflutningi þeirra sem voru fygjandi stækkun álversins fyrir rúmu ári síðan að ef álverið fengi ekki leyfi til að stækka næstum því þrefalt þá myndi það pakka saman og fara.  Hætta rekstri og loka öllu apparatinu. 

Þetta er til marks um það hvað málflutningur fólks í hita leiksins getur orðið örvæntingafullur og órökréttur.

 Belja sem mjólkar tekjur fyrir milljarða á ári er ekki felld, svo einfalt er það.


mbl.is Álversrekstur tryggður til 2037
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mamma Mía....

mammamia.......hvað Pierce Brosnan er lélegur söngvari!!

en myndin er skemmtileg og sæt.  Ég féll alveg í stafi yfir náttúrufegurð eyjunnar sem myndin er tekin á og öllu umhverfinu.  Myndatakan er mjög flott, myndin sæt og skemmtileg en söngurinn eiginlega bara ferlega slakur.... 


Einelti

Fyrir 7 árum kynntist ég konu þegar við unnum saman að verkefni í foreldrasamstarfi.  Við unnum saman að þessu verkefni og spjölluðum um daginn og veginn á fundum og í kring um þá eins og gengur og gerist.  Eitt sinn trúði hún mér fyrir raunum fjölskyldunnar og baráttu þeirra vegna eineltis sem sonur þeirra hafði lent í.  Ég man eftir þessari stund eins og hún hafi gerst í gær, við sátum á Súfistanum í Hafnarfirði, nánast ókunnugar konur en samt að ræða svo persónuleg mál.  Konan heitir, Ingibjörg og drengurinn hét Lárus.  Hún sagði mér á svo einlægan hátt og af svo mikilli yfirvegun frá hörmulegri reynslu drengsins og hennar sjálfrar sem og fjölskyldunnar allrar.  Ég held að tárin hafi runnið niður vanga mína megnið af þessu samtali og lengi á eftir gekk ég með þetta samtal í maganum.  Ingibjörg sagði mér frá því hvernig komið hefði verið fram við drenginn af börnunum sem lögðu hann í einelti, hvernig kennarinn, skólinn, hinir foreldrarnir og allt umhverfið hefði brugðist við.  Hún sagði mér líka hvernig hún brást við, systkyni drengsins og fjölskyldan öll.  Þetta var mjög átakanleg saga en ég man að ég hugsaði: drengurinn er amk heppinn að eiga þessa mömmu og ég er viss um að þetta fer vel að lokum.  Ég var alveg viss um það.  Ingibjörg fór í kennaranám, sérhæfði sig í málefnum um einelti og lagði sig fram á alla vegu til að bæta ástandið.  Ekki bara fyrir sinn son heldur fyrir málstaðinn.  Drengurinn fór í annann skóla og ýmis úrræði voru notuð og leit þetta vel út um tíma.  Sárin voru hins vegar of djúp og lést Lárus fyrir stuttu síðan.  Hann gat ekki meir.

Hugrekki Ingibjargar og þrautsegja er ástæða þess að ég skrifa þessar línur, hún kom fram í Kastljósi í gær.  Á Eyjunni er umfjöllun um málið og hægt er að skoða viðtalið í Kastljósinu.

Ég tek undir það sem kennarinn segir í þessari umfjöllun, það verða allir foreldrar að geta verið gagnrýnir á sín eigin börn og geta sætt sig við það að þau eru ekki fullkomin, hvorki börnin né foreldrarnir.  Foreldrar verða að hlusta á umhverfið, hjálpa börnunum sínum að takast á við það og leita aðstoðar ef þau telja sig ekki ráða við aðstæður. 

Mér sýnist að skólarnir og kennararnir séu í lykilhlutverki hvað varðar einelti, foreldrar gegna miklu hlutverki en þeir ráða illa við hluti sem gerast aðeins í skólaumhverfinu.  Það þarf að taka á þessum málum hratt og örugglega og það þarf mikið hugrekki og þor til þess.

Einelti fer fram þar sem fullorðnir sjá ekki til, á göngum skólanna og skólalóðinni.  Starfsfólk skólanna og kennarar þurfa að vera þar, á göngunum og á skólalóðinni, og hjálpa börnunum félagslega ekki síður en námslega. 

Þegar ég hef heyrt umræðuna um það að þátttaka kennara í leik sem og starfi barnanna sé mjög æskileg ef ekki nauðsynleg strandar hún ætíð á kjaramálum kennara.  Það er óþolandi ástand.  Kennarar þurfa að vera með krökkunum, þeir þurfa að þekkja samskipti þeirra, í hádeginu, á ganginum, á skólalóðinni, í íþróttahúsinu og í ferðalögum um helgar.  Kannski þannig gætum við komið í veg fyrir einelti.

Ég votta Ingibjörgu og fjölskyldu hennar alla mína samúð og vona að hún viti að ég dáist að hugrekki hennar.  Það er von hennar að þessi saga verði til þess að færri þurfi að þola slíkt ástand og umfjöllun hennar og hér hjá mér er til þess gerð.


Evrópusambandið

Ég get ekki séð að Geir Haarde hafi um annað að velja en að hefja undirbúning aðildarviðræðna við Evrópusambandið.  Það er langur vegur fyrir Ísland að verða aðili að ESB.

Í fyrsta lagi þarf hin árangursríka stjórnarskrárnefnd að koma að málinu og undirbúa stjórnarskrárbreytingar sem þurfa samþykki tveggja þinga.  Stjórnarskrárbreyting sú getur tekið gildi árið 2011.

 Í öðru lagi þarf að undirbúa þjóðaratkvæðagreiðslur amk eina ef ekki tvær á sitthvoru stigi málsins, í fyrsta lagi um að hefja aðildarviðræður og svo um inngönguna ef af henni verður.

Í þriðja lagi þarf Ísland og Íslendingar allir að uppfylla þau skilyrði sem eru fyrir því að geta verið aðildarríki að ESB.  Verðbólgunni þarf að ná niður, vöruskiptahallanum osfrv. osfrv.  Í mínum kokkabókum þýðir þetta það að Íslendingar þurfa allir að líta í eigin barm og öðlast smá skynsemi.  Við þurfum að læra að afla meira en við eyðum sem þýðir að við þurfum að eiga fyrir því sem við kaupum og spara fyrir hlutunum.  Verðmætasköpunin þarf að vera í takt við neysluna, frekar einföld hagfræði en samt svo erfið ..... virðist vera.

Hitt er annað að Evrópusambandið er í heilmiklum vanda sem ekki er séð fyrir endan á.  Þegar Írar höfnuðu Lissabon sáttmálanum setti það allt framfaraferlið sem unnið hefur verið að undanfarin ár á ís.  Það er ekki alveg auðséð hvernig leyst verður úr þessu.  Mín tilfinning er sú að Írar hreinlega hafi efasemdir um ágæti ESB og vilji jafnvel ekki vera þar lengur.  Skrifræðið, lýðræðishallinn og bruðlið í kring um sambandið er úr öllu hófi svo vægt sé til orða tekið.  Það kæmi mér ekki á óvart að fleiri þjóðir séu orðnar ansi þreyttar á þessu apparati.

Það að taka við lögum um það hvernig bananar eiga að vera í laginu og um allann fjandan annann sem ég nenni ekki að telja upp hlýtur að vera hlægilegt til lengdar.  Það að þýða fundargerðir allra funda á 27 tungumál og flytja allt draslið milli framkvæmdarstjórnarinnar í Brussel til þingsins í Strassburg einu sinni í mánuði er stjarnfræðilegt rugl!!

Ég læt það nú vera hvað ég er persónulega spennt fyrir ESB en mér sýnist ekki vera aðrir kostir í stöðunni en að fara að vinna að þessum markmiðum.  Stjórnarskrárbreytingar þurfa að eiga sér stað, hvort eð er, verðbólgan þarf að lækka, hvort eð er, viðskiptahallinn þarf að lækka, hvort eð er, vaxtastigið í landinu þarf að lagast, hvort eð er og ef aðildarviðræður að ESB er svipan sem við þurfum þá verður bara svo að vera. 

  


Ástfangin á Tenerife

dolfin

Útlendingastofnun

ég ætla að gera orð Jónasar Kristjánssonar á www.jonas.is að mínum, nema kannski að því undanskildu að mér finnst ekki að stofnunin eigi að fara burt, hún á bara að starfa öðruvísi.

"Stofnunin með steinhjartað
Samkvæmt vefnum eru 28 starfsmenn hjá Útlendingastofnun. Þeir starfa ekki, því að stofnunin segir bara nei. Til þess þarf ekki 28 starfsmenn. Hún notar þrönga túlkun lagarammans til að segja nei. Ekkert nema nei. Hún skilar ekki einu sinni umsögnum. Notar ekki undanþágur, sem leyfðar eru í lögum. Jafnframt er hún spillt, ef ráðherra þarf prívatþjónustu fyrir sig, samanber Jónínu Bjartmarz. Útlendingastofnun er ekki málefnaleg stofnun, sem ráðherra getur haft sér til skjóls. Er sérhönnuð fyrir Björn Bjarnason, starfar í samræmi við steinhjarta hans. Burt með stofnunina og ráðherrann."


 


Mæli með Tenerife

Tenerife

Fjölskyldan er endurnærð eftir hvíldina, samverustundirnar og sólina á Tenerife.

Það er nánast flugu og pöddulaust og alltaf fersk gola einhversstaðar.  Við hittum á frábært hótel á frábærum stað.  Vorum með frábæru fólki allann tímann bæði nýju fólki sem við kynntumst úti, fólki sem við fórum með og sem við vissum að yrði úti á sama tíma.   Allir skemmtu sér vel og komu sólbrúnir og sælir til baka.

Nú tekur alvaran aftur við, vinna og BA ritgerð.  Kannski skreppum við í íslenska náttúru eitthvað meira í sumar en annars verður bara lesið, skrifað og unnið. Garðurinn minn sem er svo yndislegur kemur líka sterkur inn.


Ekki fór hann nú langt blessaður

Þá getur Hr. Ólafur F. Magnússon ekki montað sig af því lengur að hafa sig hvergi hreyft á kostnað borgarbúa.  Ég hef verið að rembast við að gefa honum séns sem borgarstjóra en það er sama hvað ég reyni.....  þetta er bara ekki að gera sig!

 Þegar rökstuðningur á ráðningu Jakobs Frímans var allt í einu komin út í það að það væri sko ekki hægt að draga heiðarleika borgarstjórans í efa, af því að t.d. hefðu allir hinir borgarfulltrúarnir kostað borgarbúa miklu meiri fjárhæðir í ferðakostnaði en hann sjálfur, var mér nóg boðið.

Þessi málefnalegi rökstuðningur endaði í andlitinu á honum sjálfum því það er bara ekkert smart að afla sér ekki þekkingar og samanburðar á erlendri grundu, starfa sinna vegna.  Þetta voru frekar rök með því að hann hefði vanrækt hlutverk sitt sem borgarfulltrúi Reykvíkinga.

 Ég hlakka til að fá Hönnu Birnu sem borgarstjóra í Reykjavík.  Ég hef mikið álit á Hönnu Birnu og veit að hún mun heilla borgarbúa upp úr skónum þegar hún tekur við.


mbl.is Borgarstjóri í Færeyjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

vorið er komið

Mér sýnist bloggheimar verði bara að fara að víkja fyrir öðrum áhugamálum þessa dagana.  Ætla að taka mér hlé amk eitthvað fram á sumar. 

Prófin eru búin og komnar glimrandi fínar einkunnir sem þýða að ég útskrifast með fyrstu einkunn úr Háskóla Íslands í okt. nk.  Öllum kúrsum námsins er lokið og skrifa ég núna BA ritgerðina mína.  Ég er byrjuð að vinna allann daginn og gengur það framar öllum vonum.  Það er lúxus á þessum síðustu og verstu tímum að fá vinnu við það sem manni finnst skemmtilegast með fólki sem er fremst á því sviði.  Ég get ekki annað en verið sátt.

 Það er þó ekki laust við að ég þrái sumarfrí sem ég fæ loksins í sumar eftir 2 ára samfellda skóla- og vinnutörn.  Fjölskyldan ætlar til Tenerife auk þess sem farnar verða ýmsar styttri ferðir í yndislegri íslenskri náttúru. 


Makalaust

Flugvallarmálið ætlar greinilega að verða eitt þrautseigasta þrætuepli Íslandssögunnar.  Það er löngu orðið ljóst að Reykvíkingar, sem einir virðast eiga að fá að segja sitt álit á þessu, eru klofnir í afstöðu sinni til málsins.  Sjálfsagt byggir fólk afstöðu sína á ýmsum forsendum en í mínum huga ber að taka þessa ákvörðun út frá einhverjum reynslu- skynsemis- og arðsemisathugunum.  Slíkar athuganir hef ég þó ekki séð og vangaveltur um Hómsheiði, Löngusker, Álftanes og Keflavík eru á meðan, bara pælingar út í loftið.  Er ekki hægt að ætlast til þess að kostnaðar og ábatagreining í víðu samhengi auk þess sem flugskilyrði og þarfir Íslendinga yrðu skoðuð á einhvern vitrænan hátt ?

Þegar þær niðurstöður liggja fyrir og sérfræðingar segja mér hver skynsamasta lausnin á málinu er, að teknu tilliti til öryggismála, samgangna og arðsemi, þá bara lifi ég við þá niðurstöðu, sama hver hún verður.  


mbl.is Meirihluti vill flugvöllinn áfram í Vatnsmýri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband